Ragnhildur Auður Mýrdal er 22 ára meistaranemi við lagadeild Háskóla Íslands sem veit fátt skemmtilegra en að ferðast. Hún er mikil ævintýrakona og hefur verið dugleg að ferðast bæði innanlands og erlendis, en hún stundar fjölbreytta útivist og kann sérstaklega vel við sig á hálendi Íslands.
Ragnhildur Auður Mýrdal er 22 ára meistaranemi við lagadeild Háskóla Íslands sem veit fátt skemmtilegra en að ferðast. Hún er mikil ævintýrakona og hefur verið dugleg að ferðast bæði innanlands og erlendis, en hún stundar fjölbreytta útivist og kann sérstaklega vel við sig á hálendi Íslands.
Ragnhildur Auður Mýrdal er 22 ára meistaranemi við lagadeild Háskóla Íslands sem veit fátt skemmtilegra en að ferðast. Hún er mikil ævintýrakona og hefur verið dugleg að ferðast bæði innanlands og erlendis, en hún stundar fjölbreytta útivist og kann sérstaklega vel við sig á hálendi Íslands.
Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum og útivist?
„Áhuginn á ferðalögum og útivist kemur klárlega frá mömmu. Hún er sjálf mikil fjallageit og var dugleg að ferðast með mig um fjöll og firnindi þegar ég var yngri, hvort sem það var fótgangandi eða á skíðum. Ég verð að viðurkenna að það var ekki alltaf í uppáhaldi hjá mér þá, en í dag er ég henni ævinlega þakklát fyrir það.
Ég get svo ekki minnst útivist án þess að nefna vini mína, Óðinn og Einar úr lagadeildinni. Þeir kynntu mig fyrir fjallaskíðum og hef ég eytt eftirminnilegustu fríunum frá bókunum með þeim uppi á hálendi.“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Að mínu mati eru bestu ferðalögin skyndiákvarðanirnar. Ég hef oft gaman að því að plana bara grunnatriðin og leyfa svo rest að koma mér á óvart, þá gerist alltaf eitthvað skemmtilegt!“
Uppáhaldsborg í Evrópu?
„Uppáhaldsborg í Evrópu er ábyggilega Berlín. Það er mottó hjá mér og mömmu að heimsækja aldrei sömu borg tvisvar sinnum, en Berlín hefur fengið þar undanþágu. Borgin hefur upp á svo margt að bjóða hvort sem maður er að leitast við að fara í menningarferð, verslunarferð og jafnvel jólaferð á jólamarkaði þá hittir hún alltaf beint í mark.“
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
„Þegar stórt er spurt! Uppáhaldsstaður á Íslandi hlýtur að vera bara hálendið í heild sinni. Landmannalaugar og svæðið þar í kring er einstaklega fallegt. Ég man þegar ég kom þar fyrst og þá var ég sérstaklega heilluð af litafegurðinni.“
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?
„Þegar ég var 12 ára fór ég til Kína í 3 vikur með stelpum sem voru ættleiddar þaðan með mér. Við vorum í 3 vikur ásamt foreldrum okkar og heimsóttum slóðirnar þar sem við fæddumst.
Þar að auki skoðuðum við Kínamúrinn, Forboðnu borgina, Terracotta hermennina og þessa helstu túrista staði. Eflaust myndi það standa upp úr hjá flestum en það sem 12 ára mér þótti magnaðast af öllu var að sjá Pizza Hut í Beijing.“
Hvernig útivist stundar þú og hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
„Hvers kyns útivist á fjöllunum er í uppáhaldi hjá mér. Hvort sem það er á fjallaskíðum á Kaldbak fyrir norðan eða bara stutt skrepp á Esjuna. Svo er líka í miklu uppáhaldi hjá mér alls konar leiktæki á borð við snjósleða og fjórhjól.
Við festum t.d. einu sinni diskalyftu aftan á snjósleða sem dró okkur upp á Snæfellsjökul. Þar var að vísu frekar hættulegt og jafnvel smá bannað líka en samt sem áður virkilega skemmtilegt. Hin fullkomna uppskriftin af útivist samanstendur af hálendi, dassi af adrenalíni og góðra vina hópi.“
Áttu þér uppáhaldsgönguleið hér á Íslandi?
„Síðasta sumar fór Versló hópurinn í mjög skemmtilega gönguleið frá Halldórsgili að Grænahrygg og niður í Landmannalaugar þar sem við gátum baðað okkur í sólinni. Það er án efa skemmtilegasta gönguleið sem ég hef farið og gæti ekki mælt meira með. Hún býður upp á fjölbreytt landslag, mikið af áskorunum og ólíkt öllu öðru sem ég hef áður séð. Sérstaklega Uppgönguhryggurinn sem mætir manni á miðri leið, en ég mæli kannski ekki með honum fyrir lofthrædda.“
Hefur þú farið í einhverjar göngur erlendis?
„Ég á gönguferðir erlendis inni, en það er svona markmið okkar vinkvenna að fara einn daginn á Kilimanjaro eða jafnvel Everest.“
Eftirminnilegasta ganga sem þú hefur farið í og af hverju?
„Eftirminnilegasta gangan sem ég hef farið í er Leggangan síðasta haust. Þá gengu um 120 konur saman um hálendi Íslands til styrktar eggheimtuaðgerða og sálfræðimeðferða fyrir fólk sem þarf að takast á við ófrjósemi eftir krabbameinsmeðferð. Það var einstök upplifun og virkilega valdeflandi að ganga í svona stórum hópi kvenna fyrir mikilvægt málefni.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að skíða hér á Íslandi?
„Kaldbakur er í miklu uppáhaldi hjá mér fyrir fjallaskíðin og reyni ég að fara a.m.k. árlega þangað í ferð. Það er eitthvað virkilega sérstakt við það að geta skíðað niður og horft til sjávar samtímis. Svo er Snæfellsjökull í góðu veðri líka einstakur því þar getur maður skíðað langt fram á sumar og jafnvel á stuttermabolnum ef maður er heppinn!“
Hefur þú farið í einhverjar skíðaferðir erlendis?
„Síðastliðin tvö ár hef ég farið til Madonna di Campiglio á Ítalíu með fjölskyldunni. Margir vilja meina að bestu ferðirnar séu fyrstu ferðirnar á morgnanna. Ég er hins vegar ekki frá því að síðustu ferðirnar séu jafnvel betri. Það er virkilega skemmtilegt að vera með fjallið út af fyrir sig rétt áður en þeir skella í lás. Manni líður liggur við eins og litlu barni á jólunum.“
Áttu þér uppáhaldsútivistarflíkur?
„Mín uppáhaldsflík er appelsínuguli jakkinn minn frá 66° Norður. Það sem er svo hentugt við hann er að hann andar svo maður þarf ekki að fara síendurtekið úr honum og í og svo skemmir ekki hvað hann sést vel uppi á hálendinu.
Ef ég ætti að mæla með einhverju sem er möst að eiga fyrir útivistina þá eru það góðir gönguskór. Fyrir mitt leyti hafa gönguskórnir verið mikil hvatning til að fara í fleiri göngur og svo finnst mér þeir frekar töff ef út í það er farið.“
Hvað er á efst óskalistanum þínum fyrir útivistina og ferðalögin?
„Fyrir ferðarlögin væri það klárlega stafræn myndavél. Mér finnst maður mun duglegri að taka skemmtilegar myndir ef maður er með stafræna myndavél á sér og það skemmir ekki hvað þær geta komið skemmtilega út.
Fyrir útivistina væri ekki leiðinlegt að eiga snjóflóðabúnað. Það er aðalatriði að hafa hann með sér þegar maður fer í fjallaskíðaferðir og hef ég verið svo lánsöm hingað til að fá lánað frá foreldrum vina minna, en draumur væri að eignast slíkan búnað sjálf. Í honum felst t.d. snjóflóðaýla og snjóflóðabakpoki.“
Hvert ætlar þú að ferðast næsta sumar?
„París með kærastanum er næst á dagskrá um páskana og hlökkum við mikið til þar sem hvorugt okkar hefur komið til Frakklands. Svo höfum við vinkonurnar verið að skipuleggja gönguferðir hvert sumar með hópi sem var með okkur í Versló. Við eigum enn eftir að negla niður stað fyrir næsta sumar en við höfum reynt að velja óhefðbundnar leiðir, helst í engu símasambandi.“