A-stöðin, einnig þekkt sem Aðalstöðin, auglýsir nú á samfélagsmiðlum að fyrirtækið bjóði upp á fast verð frá Keflavíkurflugvelli undir yfirskriftinni „Láttu ekki plata þig“. Eigandi fyrirtækisins segir íslenskan ríkisborgararétt vera skilyrði fyrir því að fá að aka fyrir A-stöðina.
A-stöðin, einnig þekkt sem Aðalstöðin, auglýsir nú á samfélagsmiðlum að fyrirtækið bjóði upp á fast verð frá Keflavíkurflugvelli undir yfirskriftinni „Láttu ekki plata þig“. Eigandi fyrirtækisins segir íslenskan ríkisborgararétt vera skilyrði fyrir því að fá að aka fyrir A-stöðina.
A-stöðin, einnig þekkt sem Aðalstöðin, auglýsir nú á samfélagsmiðlum að fyrirtækið bjóði upp á fast verð frá Keflavíkurflugvelli undir yfirskriftinni „Láttu ekki plata þig“. Eigandi fyrirtækisins segir íslenskan ríkisborgararétt vera skilyrði fyrir því að fá að aka fyrir A-stöðina.
Þetta segir Kristinn Arnar Pálsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við mbl.is.
„Þetta er bara þjónusta við fólk – að fólk viti hvað það er að kaupa,“ segir Kristinn aðspurður um tilefni auglýsingarinnar.
Spurður nánar út í ástæður þess að fyrirtækið beini auglýsingunni að þjónustu þess á Keflavíkurflugvelli, þar sem fréttir hafa borist um slæma upplifun fólks af veittri leigubílaþjónustu, segir hann að það sé fyrst og fremst að markaðssetja sig eins og aðrar rótgrónar leigubílaþjónustur.
„Við erum ekki stór stöð en við erum íslensk stöð, ég get sagt þér það. Við erum eina stöðin á landinu sem ekki er með útlendinga.“
Þið eru þá bara með íslenska bílstjóra?
„Íslenska ríkisborgara – rétt. Engan „harkara“ nema það sé íslenskur ríkisborgararéttur og það tala allir íslensku og skrifa. Það er bara skilyrði á þessari stöð.“
Hann kveðst hafa heyrt af því að sumir leigubílstjórar á Keflavíkurflugvelli geri kúnnum ekki grein fyrir því hvert verðið er á ferðum og því sé A-stöðin einfaldlega að vekja athygli á því að bílstjórar stöðvarinnar keyri einnig frá flugvellinum og séu með fast verð.
„Við hjá minni stöð erum fyrst og fremst að vekja athygli á okkur því við erum með allt eins og það á að vera. Rakningu á bílum og allt tölvutengt, hvenær menn setja mælinn á og hvaða gjaldi þeir keyra á. Það er allt saman inn í tölvu og allt rekjanlegt,“ segir Kristinn.
Hann segir að leigubílaþjónusta á landinu hafi versnað eftir að lagabreyting um leigubílaakstur tók gildi 1. apríl 2023. Hann hvetur því ráðamenn til að endurskoða löggjöfina.
Hafa leigubílstjórar á ykkar vegum lent í útistöðum við aðra leigubílstjóra á Keflavíkurflugvelli?
„Nei við höfum ekkert verið að lenda í því vegna þess að við eigum nánast enga bíla þarna upp frá. Þetta eru eiginlega allt bílar frá Reykjavík,“ segir hann.