Bjarki Þór Ársælsson, nemandi í Salaskóla, fermist í Lindakirkju 23. mars. Nína Björk Þórsdóttir, móðir Bjarka, segir að hann verði virkjaður í hin ýmsu verkefni þegar nær dregur, en veislan tekur mið af áhugamálum hans.
Bjarki Þór Ársælsson, nemandi í Salaskóla, fermist í Lindakirkju 23. mars. Nína Björk Þórsdóttir, móðir Bjarka, segir að hann verði virkjaður í hin ýmsu verkefni þegar nær dregur, en veislan tekur mið af áhugamálum hans.
Bjarki Þór Ársælsson, nemandi í Salaskóla, fermist í Lindakirkju 23. mars. Nína Björk Þórsdóttir, móðir Bjarka, segir að hann verði virkjaður í hin ýmsu verkefni þegar nær dregur, en veislan tekur mið af áhugamálum hans.
Það er nóg að gera hjá Bjarka um þessar mundir. Hann er að undirbúa fermingardaginn en er líka að æfa fimleika og stundar skíði. Leiklistin og Eurovision eiga einnig stóran sess í hjarta hans.
„Fermingarfræðslan hefur verið skemmtileg, við erum búin að læra nýja söngva og læra að biðja, margt um boðorðin og fleira. Við hittumst á miðvikudögum og fórum á tveggja daga fermingarnámskeið í Vatnaskóg í október, sem var mjög gaman,“ segir Bjarki um fermingarfræðsluna. Hann hefur verið duglegur að taka þátt í kristilegu starfi og finnst það mjög gaman.
Hvaða væntingar ertu með fyrir fermingardaginn?
„Ég vona að hann verði skemmtilegur og hátíðlegur. Ég hlakka til að hitta ættingja og vini.“
Hvers konar veislu ætlar þú að halda?
„Það verður veisla með léttum heimatilbúnum veitingum. Það verða atriði þar sem áhugamálin koma í ljós og einhverjar skreytingar verða í þeim stíl.“
Í hvernig fötum ætlar þú að vera?
„Í bláum jakkafötum.“
Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?
„Skíðadót, myndavél og svefnpoka.“
Nína Björk, móðir Bjarka, segir undirbúninginn fyrir fermingardaginn ganga vel og stressið í lágmarki.
„Við erum frekar afslöppuð yfir þessu – þetta er nú þriðja barn. Við erum líka svo heppin að geta fengið aðstoð frá vinum og vandamönnum. Margar hendur koma að þessu, sem gerir þetta skemmtilegt og auðveldara.“
Tekur fermingarbarnið virkan þátt í undirbúningnum eða sjá foreldrarnir um allt?
„Já, hann gerir það. Hann valdi liti og síðan er hann búinn að gera óskalista yfir þær veitingar sem hann vill bjóða upp á. Hann verður svo virkjaður í hin ýmsu verkefni þegar nær dregur.“
Hafið þið foreldrarnir tekið þátt í fermingarfræðslunni í vetur?
„Við höfum mætt í nokkrar messur í kirkjunni og átt góðar stundir þar. Það er alltaf gott að hlusta á hvað prestarnir okkar hafa að segja og hlýða á góða tónlist í kirkjunni. Það er einstaklega gott og fjölbreytt starf í Lindakirkju og þangað er alltaf gott að koma.“
Fylgir því stress að eiga fermingarbarn?
„Nei, það er ekki mikið stress, bara skemmtilegt. Gaman að fylgjast með krökkum á þessum aldri sem eru að breytast og þroskast mikið.“
Hefur mikið breyst síðan þú fermdist?
„Auðvitað hefur margt breyst en í grunninn er þetta eins, og markmiðið er að eiga góðan dag með vinum og ættingjum. Fermingarfræðslan hefur breyst að einhverju leyti en flestir eru með veislu, fá fermingarföt. Maturinn hefur breyst í takt við tímann eins og gjafirnar.“