Flutti til Þýskalands fyrir rúmum 15 árum

Ferming | 17. mars 2024

Flutti til Þýskalands fyrir rúmum 15 árum

Séra Sjöfn Müller Þór er prestur Íslendinga í London og í Lúxemborg. Hún sér meðal annars um fermingarfræðslu í Lúxemborg og reynir í starfinu að skapa sömu stemningu og í Vatnaskógi.

Flutti til Þýskalands fyrir rúmum 15 árum

Ferming | 17. mars 2024

Sjöfn Müller Þór flutti til Þýskalands fyrir 15 árum en …
Sjöfn Müller Þór flutti til Þýskalands fyrir 15 árum en eiginmaður hennar er þýskur. Í dag er hún prestur Íslendinga í Lúxemborg og London. Ljósmynd/Aðsend

Séra Sjöfn Müller Þór er prestur Íslendinga í London og í Lúxemborg. Hún sér meðal annars um fermingarfræðslu í Lúxemborg og reynir í starfinu að skapa sömu stemningu og í Vatnaskógi.

Séra Sjöfn Müller Þór er prestur Íslendinga í London og í Lúxemborg. Hún sér meðal annars um fermingarfræðslu í Lúxemborg og reynir í starfinu að skapa sömu stemningu og í Vatnaskógi.

„Ég flutti til Þýskalands fyrir rúmum 15 árum, því maðurinn minn, sem er þýskur, fékk prestsembætti hér. Mamma mín þekkti fólk í Lúxemborg og við fórum í heimsókn þangað og þá kom í ljós að það var mikill áhugi á að fá mig til að vera með guðsþjónustur þar, enda mun auðveldara fyrir mig að ferðast þangað frá Þýskalandi heldur en presta frá Íslandi. Það tekur rúma tvo klukkutíma að keyra heiman frá mér og til Lúxemborgar. Þegar ég byrjaði, fyrir 12 til 13 árum, var söfnuðurinn með samskot til að greiða fyrir kirkju, organista, prest og kór og ég kom bara þegar kallað var á mig, ég kallaði þetta viðhaldið mitt. Um haustið 2020 tók ég svo við starfi prests Íslendinga í London og Lúxemborg,“ segir Sjöfn.

Í hverju felst að vera prestur í Lúxemborg?

„Það sem ég geri einna helst er að koma suður eftir og messa. Ég sé líka um útfarir, fermingarfræðslu, fermingar og skírnir. Sálgæsla er líka stór hluti af starfinu mínu. Stundum er ég beðin um að gifta fólk, en það er bara hægt ef fólk hefur fyrst gift sig hjá sýslumanni. Ég þjóna líka íslenska söfnuðinum í London, þar sem ég geri svipaða hluti og í Lúxemborg.“

Hvernig er samfélag Íslendinga á svæðinu?

„Það hefur verið stór hópur Íslendinga í Lúxemborg síðan upp úr 1960. Íslendingar komu þangað þegar Loftleiðir fóru að fljúga þangað og voru þá allir tengdir fluginu. Síðan fór að vera bankastarfsemi hér líka og á tímabili voru upp undir þúsund Íslendingar hérna. Það hefur nú fækkað mikið í hópnum og upphaflegi hópurinn farinn að eldast en barnabörnin þeirra eru núna á fermingaraldri. Þetta er sem sagt þriðja kynslóð Íslendinga í Lúxemborg og þau tala öll mjög góða Íslensku. Það er aðdáunarvert.“

Eru mörg fermingarbörn í ár?

„Það stóð til að þau yrðu sex í þetta sinn en tveir forfölluðust á síðustu stundu. Undanfarið hefur hópurinn verið fimm til tíu fermingarbörn, en það koma líka börn frá Hollandi og Belgíu og einstaka sinnum frá Þýskalandi. Mest vorum við 14 fyrir sennilega tíu árum.“

Fermingarbörnin áttu góða stund í fermingarbúðunum og voru í algjöru …
Fermingarbörnin áttu góða stund í fermingarbúðunum og voru í algjöru netleysi. Ljósmynd/Aðsend

Fermingarfræðslan eins og í Grimmsævintýrunum

Sjöfn leggur mikla áherslu á að kalla fram góða stemningu í fermingarhópnum.

„Þegar ég byrjaði að sjá um fermingarfræðsluna, fyrir um 13 árum, þá fór ég suður til Lúxemborgar og hitti þau um helgar, en mér fannst ég aldrei ná nægilega góðri stemningu. Mér finnst mikilvægt að tvinna saman fræðsluþáttinn, upplifunina og samfélagið og langaði að reyna að endurskapa Vatnaskógarstemninguna hér úti. Það er alltaf einstakt að fara með fermingarhóp í Vatnaskóg. Ég var á þessum tíma afleysingaprestur í EKD, þýsku mótmælendakirkjunni, og hafði farið með fermingarhóp í söfnuðinum í Linnich hingað upp í Hohes Venn í Belgíu í alveg einstakt hús, lengst uppi í sveit, við skógarjaðarinn, einum kílómetra frá þýsku landamærunum. Ég féll alveg fyrir svæðinu og húsinu og var þarna búin að finna staðinn þar sem ég var viss um að ég næði að endurskapa þessa nostalgísku Vatnaskógarstemningu sem ég sakna svo mikið. Síðan þá hef ég komið hingað með hópa.

Við höfum notið þess að vera hér í algjöru netleysi, kyrrð og undurfagurri náttúru sem minnir á lýsingar úr Grimmsævintýrunum. Við byrjum alltaf á að skreyta kerti, við spáum í tilveruna okkar og hvernig Guð passar þar inn í, hvernig Guð er og hvernig við getum náð tengingu við Guð. Tenginguna reynum við að fá, þegar við setjumst niður seint á kvöldin og höfum bænastund. Svo er líka altarisganga og það finnst fermingarbörnunum alltaf vera mjög hátíðleg stund. Við spáum í það hvaða boðskap Jesús flytur okkur í dag og hvernig við getum lifað lífinu sem kristið fólk, hvernig Biblían hjálpar okkur að skilja Guð og boðskap Jesú og að það sé mikilvægt að muna að Guð er enn að tala og að við þurfum að leggja við hlustir til að heyra orð Guðs.

Við erum svolítið í því að föndra og svo undirbúum við guðsþjónustu sem fermingarbörnin taka þátt í, í Lúxemborg. Það er svolítið merkilegt að segja frá því að það sem oft stendur upp úr hjá fermingarbörnunum er næturgangan. Við förum hérna út í skóg, ég kveiki á kertum og stilli þeim upp á göngustíg og skil fermingarbörnin eftir við upphaf stígsins. Þau koma svo eitt í einu og ganga ein til mín í gegnum myrkrið, með Davíðssálminn fallega nr. 23, Drottinn er minn hirðir, í huganum, „jafnvel þó ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér.“ Ég hafði ætlað mér að hætta þessu núna, því mér hafði einhvern veginn fundist að þetta gæti verið svolítið mikið að ætlast til af þeim, en fermingarbörnin í ár tóku það ekki í mál og vildu endilega fá að gera þetta líka,“ segir Sjöfn.

Fermingarbörnin í ár fóru í fermingarbúðir sem eru rétt hjá …
Fermingarbörnin í ár fóru í fermingarbúðir sem eru rétt hjá þýsku landamærunum. Þau minna Sjöfn á Vatnaskóg. Ljósmynd/Aðsend

Fermast börn í Lúxemborg eða er einhver athöfn sem svipar til okkar hefðar?

„Kaþólska kirkjan er stærsta kirkjudeildin í Lúxemborg og í henni er athöfn sem svipar til fermingarinnar, en þá fá börnin í fyrsta sinn að taka á móti brauðinu í altarisgöngunni. Börnin eru um það bil tíu ára þegar þau fara í fræðsluna tengda þessu og að henni lokinni fermast þau. Mótmælendakirkjan er líka með fermingar og eru þær mjög svipaðar og hjá okkur hvað varðar athöfnina og fræðsluna en veisluhöldin eru miklu minni í sniðum. Oft fara nánasta fjölskyldan og skírnarvottarnir út að borða saman en það er sjaldgæft að þetta séu 100 manna veislur. Íslensku börnin í Lúxemborg velja mörg hver að fermast heima á Íslandi en sum þeirra fermast í Lúxemborg.“

mbl.is