Myndi ekki kalla mig göngugarp

Tenerife | 17. mars 2024

Myndi ekki kalla mig göngugarp

Fáir Íslendingar vita jafnmikið um Tenerife og fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir sem hefur dvalið þar margoft síðasta áratug. Í dag býr hún á þessari paradísareyju ásamt eiginmanni og yngri dætrunum tveimur en þau vinna nú hörðum höndum að því að gera þar upp gamalt hús.

Myndi ekki kalla mig göngugarp

Tenerife | 17. mars 2024

Snæfríður veit fátt skemmtilegra en að fara í gönguferðir á …
Snæfríður veit fátt skemmtilegra en að fara í gönguferðir á Tenerife með fjölskyldunni. Nú hefur hún gefið út rafbók fyrir fólk sem vill finna góðar gönguleiðir á eyjunni.

Fáir Íslendingar vita jafnmikið um Tenerife og fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir sem hefur dvalið þar margoft síðasta áratug. Í dag býr hún á þessari paradísareyju ásamt eiginmanni og yngri dætrunum tveimur en þau vinna nú hörðum höndum að því að gera þar upp gamalt hús.

Fáir Íslendingar vita jafnmikið um Tenerife og fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir sem hefur dvalið þar margoft síðasta áratug. Í dag býr hún á þessari paradísareyju ásamt eiginmanni og yngri dætrunum tveimur en þau vinna nú hörðum höndum að því að gera þar upp gamalt hús.

Snæfríður veit fátt skemmtilegra en að ganga úti í náttúrunni og vill að Íslendingar sem eyjuna heimsækja njóti þess líka.

Hún hefur nú gefið út rafbókina Gönguævintýri á Tenerife sem inniheldur upplýsingar um 33 mismunandi gönguleiðir. Þar geta allir fundið gönguleið við sitt hæfi og notið náttúru, útsýnis og veðurblíðu.

Landslagið á Tenerife er afar fjölbreytt. Hér er gengið í …
Landslagið á Tenerife er afar fjölbreytt. Hér er gengið í gegnum fallegan skóg.

Er týpísk miðaldra kona

„Við fjölskyldan erum búin að ganga allar leiðirnar sem eru í bókinni og sumar margoft. Ég er búin að vera með bókina á teikniborðinu undanfarin fimm ár. Það skemmtilegasta sem við gerum hér er að fara út að ganga og skoða nýjar slóðir.“

Snæfríður leggur áherslu á að bókin er ekki einungis hugsuð fyrir þá sem kalla sig göngugarpa.

„Þú þarft ekki að vera hörkugöngumaður til að geta notað bókina. Ég myndi alls ekki kalla mig göngugarp. Ég er týpísk miðaldra kona í sæmilegu formi sem finnst skemmtilegast að ganga sirka átta til tólf kílómetra leiðir. Mér finnst best að leggja af stað snemma morguns og klára gönguna upp úr hádegi og enda þá á góðum hádegisverði þegar sólin er hæst á lofti,“ segir hún og segir gönguleiðirnar 33 vera út um alla eyju og þar má finna eitthvað við allra hæfi.

„Leiðirnar eru frá tveimur kílómetrum upp í sautján. Létt­ustu gönguleiðirnar eru á flatlendi meðfram sjónum en aðrar reyna meira á og eru upp um fjöll og niður í gil. Þú getur gengið á sandi eða hrauni, eftir fjallastígum, í gegnum regnskóg, pálmalundi eða innan um kanarísk furutré svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún og ekki skemmir veðrið fyrir.

Náttúrufegurðin er mikil á Tenerife.
Náttúrufegurðin er mikil á Tenerife.

Gönguferðir í guðsgrænni náttúru

Bókin Gönguævintýri á Tenerife skiptist upp í sex kafla og þar má finna ýmis kort og mikið af upplýsingum. Hún er aðeins fáanleg sem rafbók og hyggst Snæfríður ekki gefa hana út á prenti.

„Það er dýrt að gefa út bækur og ég held að það sé þægilegt að hafa hana sem rafbók. Það er svo auðvelt að lesa hana í símanum og eins er fullt af linkum sem hægt er að ýta á. Til dæmis þarf stundum að sækja um leyfi til að ganga um ákveðin náttúrusvæði hér á eyjunni og þá er hægt að ýta á link sem leiðir fólk áfram inn á skráningarsíður,“ segir hún og nefnir að þótt til sé mikið efni á vefnum um gönguleiðir á Tenerife, viti fólk ekki alltaf hvar það á að byrja.

Snæfríður er hér á fjallstindi með dýrðar útsýni yfir fjöll …
Snæfríður er hér á fjallstindi með dýrðar útsýni yfir fjöll og haf.

„Stundum er maður alveg týndur í hafsjó alnetsins. Þessi handbók er því góð til þess að fá innblástur, til að koma þér af stað og hún útskýrir það helsta sem göngufólk þarf að vita um eyjuna og gönguleiðirnar sem eru í boði.

Bókin er líka full af myndum og textinn er stuttur og hnitmiðaður þannig að hún er mitt á milli bókar og netsins. Svo bendi ég gjarnan á veitingastaði sem gott er að enda á,“ segir Snæfríður og mælir með að fólk skreppi aðeins út fyrir ferðamannasvæðin og jafnvel að það fái sér góðan göngutúr í guðsgrænni náttúrunni.

Þá er ekki verra að vera með handbókina góðu í símanum sínum en hana má finna á lifiderferdalag.is.

Ítarlegt viðtal er við Snæfríði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

mbl.is