Ákvað að fermast í uppáhaldskirkjunni

Ferming | 18. mars 2024

Ákvað að fermast í uppáhaldskirkjunni

Embla Katrín Reynarsdóttir, nemandi í Hlíðaskóla, ætlar að fermast í Hallgrímskirkju, sem er uppáhaldskirkjan hennar. Embla Katrín er elsta barn Önnu Kristínar Óskarsdóttur ljósmyndara, sem er þó ekki óvön fermingarbörnum enda myndað þau allnokkur

Ákvað að fermast í uppáhaldskirkjunni

Ferming | 18. mars 2024

Mæðgurnar Embla Katrín og Anna Kristín hafa hjálpast að í …
Mæðgurnar Embla Katrín og Anna Kristín hafa hjálpast að í fermingarundirbúningnum í ár. Ljósmynd/Berglaug Petra Garðarsdóttir

Embla Katrín Reynarsdóttir, nemandi í Hlíðaskóla, ætlar að fermast í Hallgrímskirkju, sem er uppáhaldskirkjan hennar. Embla Katrín er elsta barn Önnu Kristínar Óskarsdóttur ljósmyndara, sem er þó ekki óvön fermingarbörnum enda myndað þau allnokkur

Embla Katrín Reynarsdóttir, nemandi í Hlíðaskóla, ætlar að fermast í Hallgrímskirkju, sem er uppáhaldskirkjan hennar. Embla Katrín er elsta barn Önnu Kristínar Óskarsdóttur ljósmyndara, sem er þó ekki óvön fermingarbörnum enda myndað þau allnokkur

„Ég fékk boð í Háteigskirkju líka og allar vinkonur mínar eru að fermast þar, þannig að ég tók fermingarfræðsluna fram að áramótum með þeim en ákvað að mæta eftir áramót með krökkunum í Hallgrímskirkju til að kynnast bæði þeim og prestunum þar betur. Hallgrímskirkja er uppáhaldskirkjan mín, þannig að það kom ekkert annað til greina en að fermast þar. Ætli skemmtilegasti parturinn af fræðslunni sé samt ekki ferðin í Vatnaskóg,“ segir Embla Katrín, sem æfir körfubolta af kappi auk þess sem hún nýtur þess að hanga með vinkonum sínum.

Hvernig veislu ætlið þið að halda?

„Mjög hefðbundna held ég. Hún verður haldin í sal og nánasta fólkinu okkar boðið í kökur og smárétti.“

Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?

„Það er ofboðslega margt. Ég er að safna fyrir útlandaferð með vinkonu minni þannig að mig langar í peninga upp í hana. En mig langar líka í iPad, nýjan síma og bara margt fleira.“

Ertu búin að ákveða í hvernig fötum þú ætlar að vera?

„Já, ég verð í hefðbundnum hvítum kjól í athöfninni og fer svo í kjól frá Yeoman fyrir veisluna.“

Ætlar þú að fara í hárgreiðslu?

„Vinkona mömmu sem er hárgreiðslukona ætlar að greiða mér. Ég ætla að hafa hárið frekar einfalt, með fallegum krullum og spöng með perlum á í hárinu.“

Til hvers hlakkar þú mest á fermingardaginn?

„Bara alls. Ég er spennt fyrir öllum deginum,“ segir Embla Katrín.

Embla æfir körfubolta.
Embla æfir körfubolta. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir

Myndir lifa lengst með fólki

Anna Kristín Óskarsdóttir starfar fyrst og fremst sem auglýsinga- og tískuljósmyndari en tekur alltaf tarnir í fjölskyldumyndatökum í kringum jól og fermingar. Einstaka brúðkaup myndar hún þegar hún getur. Hún segir það ómissandi að fara reglulega í myndatökur.

„Ég held að fermingarmyndatökur í dag séu miklu afslappaðri og börnin fá meira að vera þau sjálf. Áður fyrr voru allar fermingartökur eins, og börnin fengu ekki að njóta sín. Mér finnst mikilvægt þegar ég fæ börnin í töku til mín að ná smá spjalli við þau og átta mig á karakternum þeirra, að þeim líði vel hjá mér og ég geti þannig speglað þau sem best í myndunum,“ segir Anna Kristín um fermingarmyndatökur í dag.

„Ég held því miður að fólk átti sig oft ekki á mikilvægi þessi að fara reglulega í myndatöku fyrr en það sjálft eða einhver sem það þekkir hefur misst einhvern nákominn sér og áttar sig þá á að það á kannski ekki neinar myndir af sér með þeim einstaklingi. Einnig eru myndatökur nokkuð sem fólk ætti aldrei að spara af því að þetta er það sem lifir lengst með fólki. Myndirnar halda minningunni lifandi.“

Anna Kristín starfar aðallega sem tískuljósmyndari.
Anna Kristín starfar aðallega sem tískuljósmyndari. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Ætla að undirbúa daginn vel

Aðspurð segir Anna Kristín það smá skrítið að eiga barn sem er að fermast. „Mér finnst ég ekki orðin nógu fullorðin til að eiga svona stórt barn en á sama tíma elska ég að fylgjast með henni þroskast í unga sjálfstæða konu,“ segir Anna Kristín.

Anna Kristín og Embla Katrín hafa átt góðan tíma saman í vetur.

„Við mæðgur erum búnar að vera saman í öllum undirbúningnum, sem mér finnst alveg ótrúlega skemmtilegt. Hún veit alveg hvernig hana langar að hafa hlutina en svo er það bara mitt að reyna að láta það ganga upp.“

Hvenær byrjuðuð þið að undirbúa ferminguna og hvernig hefur undirbúningurinn gengið?

„Við bókuðum salinn strax og við fengum að vita fermingardagsetningarnar en svo fór restin ekki af stað hjá okkur fyrr en núna eftir áramót. Það sem komið er hefur gengið ótrúlega vel en við ætlum að reyna að gera sem mest sjálf. Ég er búin að kaupa ýmislegt til að skreyta salinn með og til að setja upp í kringum myndakassann. En með matinn erum við svo lánsöm að eiga bakarasnilling sem frænku sem ætlar að gera fermingartertuna fyrir okkur og hjálpa með sætindin. Svo kaupum við einhverja smárétti með. Ætli þetta sé ekki að púslast bara saman hjá okkur hægt og rólega.“

Finnst þér eitthvað hafa breyst síðan þú fermdist?

„Mér finnst furðu lítið hafa breyst síðan ég fermdist sjálf og það kemur mér eiginlega á óvart. Það væri kannski helst að í dag eru börnin meiri þátttakendur í undirbúningnum og hafa meiri skoðanir, en ætli þar spili ekki samfélagsmiðlar og netið inn í. Þau eru meira að fletta upp og spá í hvernig hinir og þessir höfðu hlutina og sjá þannig hvað þau sjálf vilja.“

Fylgir því stress að sjá um fermingarveislu?

„Það fylgir svona veislum alltaf smá stress, ég held að það sé ekki hjá því komist. En ég ætla að reyna að vera búin að undirbúa sem mest áður og fá fólk með okkur síðustu dagana í undirbúningnum þannig að við getum líka notið fermingardagsins og daganna þarna í kring með henni.“

mbl.is