Pútín „valdasjúkur“ og kosningarnar ólöglegar

Úkraína | 18. mars 2024

Pútín „valdasjúkur“ og kosningarnar ólöglegar

Vinir og samherjar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hafa óskað honum til hamingju með sigur hans í forsetakosningunum um helgina en vestrænir leiðtogar segja kosningarnar hafa verið ólöglegar.

Pútín „valdasjúkur“ og kosningarnar ólöglegar

Úkraína | 18. mars 2024

Selenskí Úkraínuforseti.
Selenskí Úkraínuforseti. AFP/Ozan Kose

Vinir og samherjar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hafa óskað honum til hamingju með sigur hans í forsetakosningunum um helgina en vestrænir leiðtogar segja kosningarnar hafa verið ólöglegar.

Vinir og samherjar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hafa óskað honum til hamingju með sigur hans í forsetakosningunum um helgina en vestrænir leiðtogar segja kosningarnar hafa verið ólöglegar.

„Á undanförnum árum hafa Rússar sameinast til að yfirstíga hindranir,” sagði Xi Jinping, forseti Kína. „Ég tel að undir þinni stjórn muni Rússar ná enn meiri afrekum þegar kemur að þróun og uppbyggingu þjóðarinnar.”

Xi Jinping, til vinstri.
Xi Jinping, til vinstri. AFP/Greg Baker

„Kína og Rússland eru stærstu nágrannar hvor annars og eiga umfangsmikið samstarf,” sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sem bætti við að Pútín og Xi Jinping, forseti Kína, muni halda áfram nánu samstarfi sínu.  

Rússneski leiðtoginn fyrrverandi, Dmitirí Medvedev, sagði á Telegram: „Ég óska Vladimír Pútín til hamingju með þennan frábæra sigur.”

Pútín og Milorad Dodik í febrúar síðastliðnum.
Pútín og Milorad Dodik í febrúar síðastliðnum. AFP/Sergei Bobylyov

Bosníu-Serbinn Milorad Dodik sagði serbnesku þjóðina fagna mjög sigri Pútíns, auk þess sem Nicolas Maduro, forseti Venesúela, samfagnaði með Pútín og sagði sigurinn vita á gott fyrir framtíðina.

Svífst einskis

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði sigur Pútíns aftur á móti ólögmætan.

„Allir í heiminum vita að þessi einstaklingur, eins og margir aðrir í gegnum söguna, er orðinn valdasjúkur og svífst einskis til að geta haldið völdum að eilífu,” sagði hann um Pútín.

Pútín fagnar sigrinum.
Pútín fagnar sigrinum. AFP/Natalia Kolesnikova

„Hann mun ekki hika við að fremja hvaða illvirki sem er til að halda persónulegum völdum sínum. Og enginn í heiminum er öruggur gagnvart þessu.”

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands sagði kosningarnar hafa verið ólöglegar, kjósendur haft lítið val og sjálfstætt kosningaeftirlit hefði ekki verið til staðar. „Svona líta ekki frjálsar og sanngjarnar kosningar út.”

David Cameron.
David Cameron. AFP/Daniel Leal

Antonio Tajani, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði kosningarnar sömuleiðis hvorki hafa verið frjálsar né sanngjarnar og franska utanríkisráðuneytið hafði sömu sögu að segja. 

Jan Lipavsky, utanríkisráðherra Tékklands, sagði kosningarnar hafa verið „farsa og skopstælingu”. „Þessar rússnesku forsetakosningar sýndu hvernig ríki hans bælir niður samfélagið, sjálfstæða fjölmiðla og alla mótstöðu.”

mbl.is