Smíða þyrfti rammaáætlun um stjórnmálamenn

Rammaáætlun | 19. mars 2024

Smíða þyrfti rammaáætlun um stjórnmálamenn

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku – samtaka orkuveitufyrirtækja, ræddi „Sex sjónarmið gegn rammaáætlun“ í málstofu um framtíð rammaáætlunar í orkumálum í morgun og kvað ekki vanþörf á að ræða verkfærið rammaáætlun en yfirskrift erindis hans var „Sex sjónarmið gegn rammaáætlun“.

Smíða þyrfti rammaáætlun um stjórnmálamenn

Rammaáætlun | 19. mars 2024

Alþingi Íslendinga. Björg Eva Erlendsdóttir leggur til að smíðuð verði …
Alþingi Íslendinga. Björg Eva Erlendsdóttir leggur til að smíðuð verði rammaáætlun kringum stjórnmálamenn frekar en virkjanir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku – samtaka orkuveitufyrirtækja, ræddi „Sex sjónarmið gegn rammaáætlun“ í málstofu um framtíð rammaáætlunar í orkumálum í morgun og kvað ekki vanþörf á að ræða verkfærið rammaáætlun en yfirskrift erindis hans var „Sex sjónarmið gegn rammaáætlun“.

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku – samtaka orkuveitufyrirtækja, ræddi „Sex sjónarmið gegn rammaáætlun“ í málstofu um framtíð rammaáætlunar í orkumálum í morgun og kvað ekki vanþörf á að ræða verkfærið rammaáætlun en yfirskrift erindis hans var „Sex sjónarmið gegn rammaáætlun“.

Kvað Finnur mikilvægt að skiptast á skoðunum, mikilvægt að endurbæta kerfið eða koma á nýju kerfi sem virkaði vel. Kerfið sem komið hefði verið á fót hefði margháttuð áhrif á starfsemi orkuveitufyrirtækja.

Sagði hann óhjákvæmilegt að horfa á markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. „Sitt sýnist hverjum um hvort þetta takist 2040,“ sagði Finnur og vísaði þar til losunaráætlunar stjórnvalda. Ekkert hefði verið talað um loftslag eða kolefnishlutleysi í greinargerð með lögunum á sínum tíma.

Stjórnsýslulög þyrftu að ná yfir

Fór Finnur því næst yfir sín sex sjónarmið og benti þar á óhagkvæmni sem til dæmis fælist í því að áætlunin gerði körfu um mikil fjárútlát. Þá nefndi hann stjórnfestu sem nokkuð skorti á, verið væri að skipta um fólk í verkefnisstjórninni og skipta um nálgun sem gerði það að verkum að vinnan yrði síður fyrirsjáanleg.

Þá væri verið að taka til meðferðar verkefni sem væri gríðarlegt að umfangi og kostnaði. Stjórnsýslulög þyrftu að ná yfir vinnu við rammaáætlun, svo sem reglur um málshraða, jafnræði og hæfi. Samkeppnissjónarmið þyrfti einnig að taka með í reikninginn. Óhjákvæmilega hefði þetta stóra þunga kerfi sem búið væri að koma á fót innbyggða hindrun, það væri aðgangshindrun sem drægi úr vilja aðila til að koma inn á orkumarkaðinn.

Finnur Beck segir að samkeppnissjónarmið þurfi að taka með í …
Finnur Beck segir að samkeppnissjónarmið þurfi að taka með í reikninginn. Stórt og þungt kerfi hefði aðgangshindrun sem drægi úr vilja aðila til að koma inn á orkumarkaðinn. Ljósmynd/Aðsend

Annað væri ótækt en að skoða þessa umgjörð með tilliti til þess hvaða áhrif hún hefði á nýja aðila sem vildu koma inn á markaðinn.

Sagði Finnur tækifæri til að bæta stjórnsýsluna mikið. „Það að eitthvað sé komið í nýtingarflokk þýðir ekki að það sé að fara að skila okkur orku þremur árum síðar, það er svo margt eftir,“ sagði hann og benti á umhverfismat, leyfisveitingar og fleira. Þá ætti eftir að þróa verkefni, finna starfsfólk til að hanna þau og þar fram eftir götunum.

Rammaáætlun verði að leggja af

Undir lok erindis síns benti Finnur á breyttar forsendur sem kölluðu á að finna þyrfti nýja leið. „Önnur ríki hafa lagt niður að miklu leyti þá löggjöf sem við höfum enn,“ sagði hann. Búið væri að svara því í löggjöf hjá ESB að verkefnin ætti að skoða út frá heildarhagsmunum almennings.

Rammaáætlun í núverandi mynd verður að leggja af, var lokaniðurstaða Finns. „Þetta verður að vinna með skýrari hætti og ég vona að út úr vinnu þessa hóps komi eitthvað í þessa veru,“ sagði hann í lokaorðum sínum.

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, sagði rammaáætlun ekki hafa skapað vandann, stjórnmálin hefðu gert það. „Þegar sagt er í dag þetta virkar ekki er dálítið áhugavert að fara yfir hvers vegna það virkar ekki,“ sagði hún og benti á að vandinn væri ekki stjórntækinu að kenna heldur því hvernig farið hefði verið með það.

Til hefði staðið að skipta hugmyndum um virkjanir í nokkra flokka en um það hefði ekki orðið nein sátt, þeir sem vildu virkja allt hefðu bara lagt fram fleiri og fleiri tillögur um sama svæði.

„Það þyrfti að búa til stjórntæki um hvernig stjórnmálamenn umgangast …
„Það þyrfti að búa til stjórntæki um hvernig stjórnmálamenn umgangast sitt eigið stjórntæki,“ sagði Björg Eva Erlendsdóttir. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

„Það er sama hvað þú ert með góðan bíl, ef þú ert með marga bílstjóra sem ætla að keyra hver í sína áttina hefur það ekkert með bílinn að gera,“ sagði Björg Eva ómyrk í máli. Smíða þyrfti rammaáætlun kringum stjórnmálamenn frekar en virkjanir.

Biðflokkurinn út undan

Vinnan hefði ekki verið unnin eins vel og vera skyldi á Íslandi en hún væri nauðsynleg. „Finnur komst mjög skemmtilega að orði þegar hann sagði að alþingismenn hefðu mjög fjölbreytta nálgun um hvernig ætti að koma að rammaáætlun,“ sagði hún enn fremur. Áætlunin strandaði hjá Alþingi.

Mörgum hefði fundist að frá upphafi hefði verið lögð svo mikil áhersla á að koma svæðum í nýtingu eða vernd að biðflokkurinn hefði orðið út undan. „Það þyrfti að búa til stjórntæki um hvernig stjórnmálamenn umgangast sitt eigið stjórntæki,“ var niðurstaða Bjargar Evu Erlendsdóttur.

„Það er alveg ljóst miðað við þær raddir sem hér hafa komið fram að verkefni stjórnar rammaáætlunar er vandasamt,“ sagði Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem næstur ávarpaði málstofuna. Miklu máli skipti að pólitísk sátt næðist í málinu.

Báru lítið úr býtum

„Í raun vil ég líka hrósa ráðherranum fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Risastór mál sem varða sveitarfélögin miklu,“ sagði Arnar Þór en auk þess uppskar nefndin hrós hans fyrir að varpa ljósi á þær áskoranir sem fyrir lægju, hún hefði rætt við fjölda aðila og safnað sjónarmiðum þeirra saman.

Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, framar á mynd …
Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, framar á mynd sem tekin var þegar hann var aðstoðarmaður Ásmundar Daða Einarssonar ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið vatn hefði runnið til sjávar undanfarna áratugi, „áður fyrr töldu sveitarfélögin það mjög mikilvægt að ráðast í virkjanir til að byggja upp sín samfélög og landið allt [...] Þegar þessi verkefni kláruðust og menn fóru að átta sig á hve lítið þeir báru úr býtum fóru þeir að hugsa málið upp á nýtt,“ sagði Arnar Þór.

Brýndi hann nefndina til að vera áfram eljusama við að eiga samtöl við sveitarfélögin og samfélögin sem þar eru. „Ég vonast til að við náum góðri sátt í þessum málum og að bíll Bjargar Evu fari að virka sem skyldi,“ sagði Arnar Þór að lokum.

mbl.is