Ynja Mist Aradóttir opnar nýtt útibú Bake My Day í Kaupmannahöfn á morgun, fimmtudaginn 21. mars næstkomandi en bakaríið hefur slegið í gegn og alla daga er fullt út úr dyrum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ynja Mist komið bakaríinu Bake my Day rækilega á kortið í Kaupmannahöfn.
Ynja Mist Aradóttir opnar nýtt útibú Bake My Day í Kaupmannahöfn á morgun, fimmtudaginn 21. mars næstkomandi en bakaríið hefur slegið í gegn og alla daga er fullt út úr dyrum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ynja Mist komið bakaríinu Bake my Day rækilega á kortið í Kaupmannahöfn.
Ynja Mist Aradóttir opnar nýtt útibú Bake My Day í Kaupmannahöfn á morgun, fimmtudaginn 21. mars næstkomandi en bakaríið hefur slegið í gegn og alla daga er fullt út úr dyrum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ynja Mist komið bakaríinu Bake my Day rækilega á kortið í Kaupmannahöfn.
Í lok árs gerir hún ráð fyrir að vera með 25 manns í vinnu í tveimur bakaríum að skreyta ljúffengar kökur, kleinuhringi og annað kruðirí ásamt því að taka móti gestum og gangandi með ilmandi kaffi.
„Það gengur ótrúlega vel. Við erum með æðislegt teymi og erum alltaf að bæta okkur, ég get meira að segja stundum tekið mér frí,“ segir athafnakonan Ynja Mist og hlær.
Ynja Mist hefur síðustu ár unnið baki brotnu að því að byggja upp rekstur bakarísins Bake My Day í Kaupmannahöfn. Hún flutti til Danmerkur fyrir sjö árum og stofnaði bakaríið rétt rúmlega tvítug eftir hvatningu frá móður sinni þegar hún komst ekki inn í draumanámið. Í dag er Bake My Day einn stærsti framleiðandi á sérpöntuðum kökum í Kaupmannahöfn og bakar kökur fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum Danmerkur, eins og Novo Nordisk, Maersk og Danske Bank.
Nýja útibú Bake My Day sem opnar á fimmtudaginn verður í nýrri og glæsilegri mathöll í verslunarmiðstöðinni Fisketorvet. Ynja Mist segir staðsetninguna afar spennandi og að svæðið sé um þessar mundir að blómstra. „Okkur fannst þetta vera frábært tækifæri til þess að ná til fleira fólks sem þarf kannski að ferðast langa leið til að koma í búðina okkar á Amager,“ segir hún.
17 manns starfa hjá Bake My Day í dag og þar af eru 11 manns í fullu starfi. Í lok árs gerir Ynja Mist ráð fyrir að vera með 25 manns í vinnu í bakaríinu sem byrjaði sem kökugerð með sérskreyttar kökur fyrir brúðkaup, skírnir, afmæli og fleiri tilefni. Í fyrstu voru aðallega bollakökur og franskar makkarónur á boðstólum daglega ásamt kleinuhringjum og íslenskum snúðum vikulega. „Í dag hefur úrvalið þróast og á hverjum degi bjóðum við upp á bollakökur, kleinuhringi, snúða, makkarónur, kökupinna, ostaslaufur, samlokur og hágæðakaffi svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ynja Mist.
Fjölskylda Ynju hefur staðið þétt við bakið á henni í rekstrinum og flogið út til að aðstoða við framkvæmdir, bakstur og meira að segja kökuskreytingar. Þá hefur móðir Ynju Mist, Ester Ingvarsdóttir, tekið að sér fjölbreytt verkefni, allt frá uppvaski yfir í bókhald og nemur í dag viðskiptafræði, enda búin að taka að sér fjármálastjórn fyrirtækisins.
„Á þessu ári hefur hún flogið hingað í hverjum mánuði og mun halda áfram að gera það. Hún hefur sjaldan fengið frídag í Kaupmannahöfn það er alltaf nóg að gera! Mamma er svo frábær og alltaf jákvæð og lausnamiðuð. Þannig það er bara yndislegt að hún sé komin meira inn í fyrirtækið,“ segir Ynja Mist þakklát.
Ynja á von á barni ásamt Aziz, kærasta sínum, en þau kynntust árið 2018 þegar hún réði hann til starfa í Bake My Day en ástin bankaði þó ekki á dyrnar fyrr en fimm árum eftir að þau fór að vinna saman. „Hann er svo frábær starfskraftur og alltaf tilbúinn að leggja hart að sér, sem er ómetanlegt fyrir lítið fyrirtæki. Við enduðum þess vegna oft á því að vera tvö saman að vinna langt fram á nótt og urðum fljótlega nánir vinir,“ segir Ynja.
„Það tók mig smá tíma að venjast nýjum raunveruleika en núna sé ég að þetta átti að gerast. Ég er ótrúlega heppin að fá að vera með allra besta vini mínum og ég veit að bæði Aziz og mamma og fleiri eru hundrað prósent með mér í bæði þessu nýja hlutverki og fyrirtækinu,“ segir Ynja Mist að lokum og horfir björtum augum til framtíðarinnar.