„Við reyndum bara að hafa svolítið gaman af þessu“

Ferming | 23. mars 2024

„Við reyndum bara að hafa svolítið gaman af þessu“

Ása Inga Jóhannsdóttir fermdist í Víðistaðakirkju þann 26. mars 2023. Unnur María Pálmadóttir, móðir Ásu Ingu og annar eigandi KVARTZ markaðs- og viðburðarstofu, segir þær mæðgurnar hafa lagt áherslu á að hafa fermingarundirbúninginn skemmtilegan og verið duglegar að ræða allskyns hugmyndir fyrir veisluna og skoða Pinterest.

„Við reyndum bara að hafa svolítið gaman af þessu“

Ferming | 23. mars 2024

Ása Inga Jóhannsdóttir fermdist í Víðistaðakirkju þann 26. mars 2023.
Ása Inga Jóhannsdóttir fermdist í Víðistaðakirkju þann 26. mars 2023. Samsett mynd

Ása Inga Jóhannsdóttir fermdist í Víðistaðakirkju þann 26. mars 2023. Unnur María Pálmadóttir, móðir Ásu Ingu og annar eigandi KVARTZ markaðs- og viðburðarstofu, segir þær mæðgurnar hafa lagt áherslu á að hafa fermingarundirbúninginn skemmtilegan og verið duglegar að ræða allskyns hugmyndir fyrir veisluna og skoða Pinterest.

Ása Inga Jóhannsdóttir fermdist í Víðistaðakirkju þann 26. mars 2023. Unnur María Pálmadóttir, móðir Ásu Ingu og annar eigandi KVARTZ markaðs- og viðburðarstofu, segir þær mæðgurnar hafa lagt áherslu á að hafa fermingarundirbúninginn skemmtilegan og verið duglegar að ræða allskyns hugmyndir fyrir veisluna og skoða Pinterest.

Fermingarveislan var haldin í Þróttaraheimilinu í Laugardalnum, en aðspurð segir Unnur María að Ása Inga hafi tekið virkan þátt í undirbúningnum og haft virkilega gamna af því. „Við fórum saman að velja skraut, skoðuðum hugmyndir á netinu, völdum litasamsetningu, útbjuggum nammibarinn og fleira,“ segir hún. 

Mæðgurnar Unnur María og Ása Inga alsælar á fermingardaginn.
Mæðgurnar Unnur María og Ása Inga alsælar á fermingardaginn.

Hvernig var veislan?

„Við buðum vinum og fjölskyldu og voru gestirnir um 110. Veislan var haldin í Þróttaraheimilinu, en þar er stór og rúmgóður salur. Það sem heillaði okkur var hvað hann er bjartur, en í báðum endum á salnum eru stórir síðir glugga sem snúa út í Laugardalinn og náttúruna.“

Fermingarveislan var haldin í Þróttaraheimilinu í Laugardalnum.
Fermingarveislan var haldin í Þróttaraheimilinu í Laugardalnum.

Hvernig skreytingar voruð þið með í veislunni?

„Við vorum með einfaldar og náttúrulega skreytingar sem voru mestmegnis blóm. Brúðarslör, Eucalyptus, og hvítar og ljósar rósir. Auk þess vorum við með fallegan blöðruboga sem við létum setja upp fyrir okkur. Þær hjá Balún.is sáu um að setja hann upp fyrir okkur. Hann var mjög fallegur og setti fallegan svip á salinn. Svo vorum við með lítinn bangsa í glerkúpli á veitingaborðinu, en það getur verið mjög fallegt að skreyta borðið með hlutum frá því að barnið var ungt – litlum skóm, böngsum eða öðru.“

Mæðgurnar voru með fallegar skreytingar í veislunni.
Mæðgurnar voru með fallegar skreytingar í veislunni.

„Við létum gera merkt fermingakerti hjá fyrirtæki sem heitir vast.is, en okkur fannst kertið koma mjög vel út – stílhreint og fallegt.“

Fermingarkertið var stílhreint og fallegt.
Fermingarkertið var stílhreint og fallegt.

Voruð þið með eitthvað litaþema? 

„Við ákváðum að velja fallega og milda liti í skreytingum. Hvítan, gylltan og ljós grængráan (e. sage) – en græni liturinn er uppáhaldslitur Ásu. Litina vorum við með í blöðruskreytingum, í blómum og í fermingakökunni.“

Mildir tónar voru í forgrunni í fermingunni og mest notast …
Mildir tónar voru í forgrunni í fermingunni og mest notast við hvítan, gylltan og ljós grængráan.

Hvaða veitingar voruð þið með?

„Við erum svo lánsöm að eiga yndislega og góða vini sem eru líka miklir sælkerar, en þau aðstoðuðu okkur og sáu í raun um flest allar veitingarnar. Þau gerðu meðal annars Pulled pork vefjur, mini-hamborgara, kjúklingaspjót, þunnt skorið nautakjöt með bernaise-sósu, heitan rétt og fleira. Það er óhætt að segja að veitingarnar hafi algjörlega hitt í mark!“

Boðið var upp á girnilegar kræsingar í veislunni.
Boðið var upp á girnilegar kræsingar í veislunni.

„Auk þess keyptum við svo marenstertur frá Myllunni sem voru mjög góðar og alltaf klassískar. Fermingartertan var svo þriggja hæða kaka frá 17 sortum, og hún var dásamlega góð og svo falleg.

Okkur langaði að hafa kökutoppinn með tengingu við fermingarbarnið og þar sem að hún æfir Taekwondo af kappi fannst okkur skemmtilegt að hafa þannig topp, en fundum því miður engan nægilega flotta. Við fórum því á stúfana og fundum fyrirtæki sem sker úr kökutopp eftir ljósmynd og úr varð að fermingatoppurinn er í raun útskorin Taekwondo mynd af Ásu sem henni fannst mjög skemmtilegt. En það var BH hönnun sem gerði toppinn fyrir okkur og hann kom svo vel út!“

Glæsilegt veisluborð!
Glæsilegt veisluborð!

Var eitthvað stress sem fylgdi deginum?

„Nei í raun ekki, við vorum nokkuð tímalega í undirbúningnum sem hjálpaði mikið. En auðvitað er alltaf allskonar sem þarf að gera og græja á lokametrunum. En við vorum bara svo lánsöm hvað allir í kringum okkur voru boðnir og búnir til að hjálpa okkur.“

Girnilegur nammibar sem var útbúinn fyrir fermingarveisluna.
Girnilegur nammibar sem var útbúinn fyrir fermingarveisluna.

Hvað er ómissandi á fermingardaginn?

„Ég mæli með að fá einhvern í fjölskyldunni eða vin til að smella myndum ef það er möguleiki en góð vinkona mín sá um að mynda okkur fjölskylduna í veislunni, taka myndir af gestum, af skreytingum, og af matnum. Það létti mikið á að þurfa ekkert að pæla í því og gaman og dýrmætt að eiga fallegar myndir af deginum.

Svo fannst okkur klassíski nammibarinn alveg slá í gegn, bæði hjá börnum og fullorðnum. í honum vorum við með hlaup, sykurpúða, M&M, Nóa Kropp og Panda súkkulaðikúlur. Fánalengjuna fyrir nammibarinn gerði ég bara sjálf, því okkur langaði að hafa hann í græna litnum sem við vorum með í skreytingunum.“

Nammibarinn sló rækilega í gegn hjá öllum aldurshópum.
Nammibarinn sló rækilega í gegn hjá öllum aldurshópum.

Skemmtilegast að hitta vini og fjölskyldu

Spurðar hvað hafi verið skemmtilegast við daginn nefna mæðgurnar báðar að hitta vini og fjölskyldu. „Skemmtilegast fannst mér að sjá hvað Ása var glöð með daginn og svo var dásamlegt að hitta auðvitað allt fólkið sitt og fagna á þessum tímamótum. Kvöldið fyrir ferminguna var líka mjög skemmtilegt en þá komu nokkrir góðir vinir og fjölskyldan til okkar í salinn, og áttum við saman yndislegt kvöld og gerðum allt klárt fyrir veisluna,“ segir Unnur María.

„Mér fannst mjög gaman að hitta alla fjölskylduna mína og ættingjana og að fermast með vinum mínum,“ segir Ása Inga.

Ásu Ingu fannst skemmtilegast að hitta fólkið sitt og fermast …
Ásu Ingu fannst skemmtilegast að hitta fólkið sitt og fermast með vinum sínum.

Mæðgurnar eru einnig sammála um að þær myndu engu breyta ef þær væru að halda veisluna aftur í dag. „Dagurinn var bara yndislegur, akkúrat svona,“ segir Unnur María.

Aðspurð segir Ása Inga bestu fermingargjöfina hafa verið frá foreldrum sínum, en hún fékk nýjan iPhone síma og ferð til Tenerife á Spáni frá þeim.

Hvaðan var fermingarkjóllinn?

„Fermingarkjóllinn var keyptur í Cosmo í Kringlunni.“

Hvernig var greiðslan?

„Dóra hjá LÚX hárgreiðslustofu greiddi mér. Í greiðsluna notuðum við brúðarslör sem kom rosa vel út!“

Ása Inga var með fallega greiðslu á fermingardaginn.
Ása Inga var með fallega greiðslu á fermingardaginn.
mbl.is