Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, segir vanhæfni rússneska stjórnkerfisins standa upp úr hvað varðar hryðjuverkaárásina í tónleikahöllinni Crocus City í Moskvu á föstudag. Að minnsta kosti 137 eru látnir eftir að fjórir menn hófu þar skothríð.
Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, segir vanhæfni rússneska stjórnkerfisins standa upp úr hvað varðar hryðjuverkaárásina í tónleikahöllinni Crocus City í Moskvu á föstudag. Að minnsta kosti 137 eru látnir eftir að fjórir menn hófu þar skothríð.
Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, segir vanhæfni rússneska stjórnkerfisins standa upp úr hvað varðar hryðjuverkaárásina í tónleikahöllinni Crocus City í Moskvu á föstudag. Að minnsta kosti 137 eru látnir eftir að fjórir menn hófu þar skothríð.
„Þetta er augljóslega óhugnanlegt grimmdarverk og ég samhryggist rússnesku þjóðinni. Þá er þetta auðvitað áfall fyrir stjórnvöld. Varðandi Rússland, þetta er á skjön við ímyndina sem Pútín og stjórnvaldið vill hafa af sér. Það er búið að ítreka í nýafstöðnum kosningum að hann og þetta stjórnvald sé akkúrat það sem geti tryggt öryggi ríkis og þjóðar,“ segir hann. Ímyndin um hinn sterka forseta beyglist við atburði af þessu tagi.
Hæg viðbrögð og hunsun rússneska stjórnvalda á aðvörunum Bandaríkjamanna leiði í ljós vanhæfni sem einkenni einræðisstjórnir. Bandaríska sendiráðið í Moskvu varaði sína borgara við fjölmennum samkomum, svo sem í tónleikahúsum.
„Mér sýnist líka standa upp úr, miðað við fréttaflutning, að enn og aftur birtist vanhæfni rússneska stjórnkerfisins. Þá er ég að tala um leyniþjónustuna, upplýsingastofnanir og öryggislögregluna svo eitthvað sé nefnt. Veikleikar og vanhæfni koma í ljós. Einnig er sagt að viðbragðið hafi verið mjög seint eftir að hryðjuverkin eru komin í gang og vitað er um þau,“ segir Albert og heldur áfram:
„Síðan verður að nefna viðvörunina sem rússnesk stjórnvöld fengu frá Bandaríkjunum í byrjun marsmánaðar. Bandaríska sendiráðið í Moskvu varar við yfirvofandi hryðjuverkum á heimasíðu sinni þann 7. mars. Bandaríkjamenn eru varaðir við því að sækja samkomustaði og sérstaklega tónleika.“
Viðvaranir hafi verið hafðar að engu og jafnvel lítið gert úr þeim. Einnig hafi Pútín haft uppi samsæriskenningar um að bandarískum stjórnvöldum hafi gengið illt til og aðvaranir þeirra hafi verið til þess gerðar að skapa tortryggni og valda óróleika.
„Þetta kemur þó ekki á óvart miðað við það sem vitað er um stjórnkerfið, Pútíns-stjórnina og í takt við það sem frammistaðan í Úkraínu hefur sýnt og undirstrikað. Það er vanhæfni í hernum. Þetta er dæmigert fyrir stjórnvald af þessu tagi. Einræðisstjórnir eru alltaf spilltar og alltaf er vanhæfni að miklu leyti ríkjandi einkenni,“ segir Albert og nefnir að þetta hafi átt við Sovétríkin og Þýskaland nasismans svo fátt eitt sé nefnt.
„Síðan er verið að velta fyrir sér hvað Rússlandsstjórn geri. Það er talað um að reynt verði að nota þetta, stjórninni og málstað hennar til framdráttar. Það er ábyggilega rétt.“ Þó eigi eftir að koma í ljós hvernig það gerist.
„Mín tilfinning er að þetta grimmdarverk, sem framið var gegn saklausu fólki, muni hjálpa Pútín og Rússlandsstjórn. Þjappi fólki á endanum saman. Reyndar er ekki mikil óeining heima fyrir,“ segir Albert en nefnir að þó kunni að vera skiptar skoðanir um slíkt.
Stjórnvöld hafi sterk tök á fréttaflutningi innanlands svo óvíst sé að ódæðið muni veikja stjórnina sérstaklega. Þá komi ekki á óvart að hryðjuverkasamtök sem kenni sig við íslamskt ríki hafi lýst ábyrgð á árásinni, enda hafi ekkert enn komið fram sem afsanni það.
„Pútín og stjórnvöld reyndu að tengja þetta við Úkraínu. Það var hallærisleg tilraun gerð í gær til að tengja Úrkaínu við hryðjuverkin,“ segir Albert og bætir við að það tengist auðvitað áróðri heima fyrir. Hins vegar eigi Rússland sína sögu um átök við hryðjuverkasamtökin.