Rússar kenna Úkraínu áfram um hryðjuverkin

Rússar kenna Úkraínu áfram um hryðjuverkin

Stjórnvöld í Rússlandi halda áfram að beina augum sínum að Úkraínu í kjölfar árásarinnar á tón­leika­hús í Moskvu á föstudag. Samtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni sem varð að minnsta kosti 139 manns til bana.

Rússar kenna Úkraínu áfram um hryðjuverkin

Hryðjuverk í Crocus Сity í Rússlandi | 26. mars 2024

Vladímír Pútín Rússlandsforseti.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi halda áfram að beina augum sínum að Úkraínu í kjölfar árásarinnar á tón­leika­hús í Moskvu á föstudag. Samtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni sem varð að minnsta kosti 139 manns til bana.

Stjórnvöld í Rússlandi halda áfram að beina augum sínum að Úkraínu í kjölfar árásarinnar á tón­leika­hús í Moskvu á föstudag. Samtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni sem varð að minnsta kosti 139 manns til bana.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sagt opinberlega að „róttækir íslamistar“ hafi staðið fyrir árásinni en gaf í skyn að þeir tengdust Úkraínu. „Þeir voru á ferð í átt að Úkraínu,“ sagði Pútín á laugardag.

Árásin framkvæmd með aðstoð vestrænna ríkja

Yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar, Alexander Bortnikov, sagði fyrr í dag að á meðan ekki væri hægt að bera kennsl á þá sem hefðu „fyrirskipað“ árásina, væri vitað að árásarmennirnir voru á leið til Úkraínu og hefði verið tekið á móti þeim þar sem hetjum.

„Við teljum að árásirnar hafi verið undirbúnar bæði af róttæku íslamistunum sjálfum og að sjálfsögðu með aðstoð frá vestrænum ríkjum. Öryggisþjónusta Úkraínu hefur sjálf bein tengsl við þetta,“ er haft eftir Bortnikov af rússneskum fréttastofum.

Öryggisþjónustur landsins gagnrýndar

Stjórnvöld í Úkraínu hafa hafnað öllum ásökunum frá Moskvu um tengsl landsins við árásina. Helsti aðstoðarmaður Volodimír Selenskí forseta hefur sagt að Kreml reyni með þessum málflutningi að hylma yfir „vanhæfni“ leyniþjónustustofnana sinna.

Öryggisstofnanir Rússlands hafa síðustu daga reynt að útskýra hvernig árásarmönnunum tókst að framkvæma árásina, sem er sú mannskæðasta í yfir tvo áratugi í landinu.

Ríkisstjórn Rússlands hefur lýst yfir trausti á öflugum öryggisstofnunum landsins, þrátt fyrir spurningar um hvernig þeim hafi ekki tekist að koma í veg fyrir fjöldamorðin eftir viðvaranir frá Bandaríkjunum. 

mbl.is