Býr til upplifun við matarborðið

Páskar | 29. mars 2024

Býr til upplifun við matarborðið

Magnea Ýr Gylfadóttir, viðskiptastjóri hjá Artasan, er menntaður dansari og mikill fagurkeri.  Hún fær í auknum mæli útrás fyrir sköpunargleðina þegar hún gerir fallegt á heimilinu. Í dag á Magnea tvær ungar dætur og er smátt og smátt að koma upp eigin páskahefðum án allrar pressu þó.

Býr til upplifun við matarborðið

Páskar | 29. mars 2024

Magnea Ýr Gylfadóttir er mínimalísk í skreytingum en skellti sér …
Magnea Ýr Gylfadóttir er mínimalísk í skreytingum en skellti sér samt í gulan jakka í tilefni þess að það voru að koma páskar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnea Ýr Gylfadóttir, viðskiptastjóri hjá Artasan, er menntaður dansari og mikill fagurkeri.  Hún fær í auknum mæli útrás fyrir sköpunargleðina þegar hún gerir fallegt á heimilinu. Í dag á Magnea tvær ungar dætur og er smátt og smátt að koma upp eigin páskahefðum án allrar pressu þó.

Magnea Ýr Gylfadóttir, viðskiptastjóri hjá Artasan, er menntaður dansari og mikill fagurkeri.  Hún fær í auknum mæli útrás fyrir sköpunargleðina þegar hún gerir fallegt á heimilinu. Í dag á Magnea tvær ungar dætur og er smátt og smátt að koma upp eigin páskahefðum án allrar pressu þó.

„Ég hef ekki haft það sem hefð að skreyta mikið um páskana en ég er voða mínimalísk. Mér finnst fallegt að vera með fersk blóm eða greinar í vasa. Nú þegar stelpurnar mínar eru orðnar aðeins eldri langar mig að prófa að búa til krans úr eggjum og mála,“ segir Magnea þegar hún er spurð hvernig hún skreytir um páskana.

Magnea var með fallegt grænt þema í matarboði um daginn sem passar vel við vorið og páskana.

„Ég var með matarboð um daginn þar sem ég var með hvítan dúk og grænar diskamottur. Ég var með grænan renning á miðju borði og lagði ferskar eucalyptus yfir hann. Það er hægt að leika sér með alls konar græn blóm en það kemur svo dásamleg lykt frá eucalyptus. Síðan er hægt að láta hugmyndaflugið fara af stað en ég setti sprittkerti í kertastjaka sem voru grænir á lit og glærir. Það myndaðist ótrúlega róleg stemning þegar það fór að dimma og loginn kom á milli greinanna. Þá setti ég líka lítil páskaegg sem voru vafin inn með grænum pappír og setti það einnig á renninginn. En það er alltaf gaman að geta teygt sig í smá súkkulaði. Ég lagði síðan grænar og hvítar servéttur á diskana og til að vera extra þá var ég með pistasíumakkarónur og Lindor-súkkulaði á þeim. Svo að lokum kom rosalega vel út að vera með græn kokteilglös en það setti smá punktinn yfir i-ið.“

Magnea skreytti grænt matarborð með makkarónum, grænum páskaeggjum og konfekti.
Magnea skreytti grænt matarborð með makkarónum, grænum páskaeggjum og konfekti. Ljósmynd/Aðsend

Ertu almennt dugleg að skreyta og gera fallegt í kringum þig?

„Mér hefur alltaf þótt ofboðslega gaman að gera fallegt í kringum mig og pælt mikið í skreytingum. Ég dett í eitthvert flæði og þarf stundum að stoppa mig af. Mér finnst svo gaman að skapa, búa til upplifun og skilja eitthvað eftir sem er minnisstætt. Ég er lærður dansari og hef kennt frá því ég var 17 ára. Ég hef sett upp margar sýningar og þetta er stór partur af mér. Nú þegar ég er ekki að kenna svona mikið né setja upp sýningar þá hefur sköpunargleðin teygt sig meira í þessa áttina. Ég fæ innblástur úr öllum áttum, frá góðri vinkonu, veitingahúsi, hóteli, náttúrunni, tónlist, svo auðvitað þetta klassíska en við Pinterest erum góðar vinkonur líka.“

Græn kokteilglös settu punktinn yfir i-ið.
Græn kokteilglös settu punktinn yfir i-ið. Ljósmynd/Hildur Erla

Hvað ætlar þú að gera um páskana?

„Ég ætla hafa það rólegt og njóta með fjölskyldunni minni. Við erum dugleg að hittast foreldrar, systkini og börn. Við borðum saman góðan mat, spilum og erum menningarleg. Ég elska páskana en mér finnst þetta svo notalegir dagar, ekkert stress og gott frí.“

Hafa páskarnir breyst eftir að þú varðst móðir?

„Nei, í rauninni ekki, allavega ekki jafn mikið og jólin. En það er alltaf þetta klassíska að fela páskaeggið, vinkona mín er með mastersgráðu í að búa til ratleik sem ég þyrfti að fá uppskrift að en það hefur alltaf slegið í gegn hjá hennar börnum. Mér finnst hefðirnar vera að myndast meira núna eftir því sem stelpurnar mínar verða eldri en sú yngsta er aðeins tveggja ára og ég hef alltaf sleppt því að setja pressu á mig að búa til eða halda í einhverja hefð á meðan það er svo margt annað í gangi.“

Það er mikið stuð á heimilinu enda á Magnea tvær …
Það er mikið stuð á heimilinu enda á Magnea tvær ungar dætur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætlar þú að vera dugleg að hreyfa þig um páskana?

„Mér finnst nauðsynlegt að taka hvíldardaga og finn fyrir endurheimt og aukinni orku þegar ég gef líkamanum frí. Ég hef þó alltaf verið með mikla hreyfiþörf og mín andlega líðan liggur í hreyfingunni svo ég mun alltaf taka æfingu yfir páskana en aftur, ekki með pressu á sjálfa mig heldur þegar mig langar. Ég er með námskeið sem kallast Dansstyrkur og er hjá GoMove-stöðinni úti á Kársnesi. Ég kenni þar tvisvar í viku og er það alfarið mín hreyfing í dag. Áður en ég átti stelpurnar var meiri tími til að æfa oftar í viku en nú þegar tíminn varð svona dýrmætur þá set ég meiri fókus á að velja mér hreyfingu sem ég hef ánægju af og finnst skemmtileg.“

Hvað finnst þér ómissandi að borða um páskana?

„Lambalæri, kartöflur, brúna sósu og gott meðlæti. Ekki skemmir ef það er ostakaka í eftirrétt.“

Ætlar þú að fá þér páskaegg?

„Ég hef aldrei verið mjög hrifin af páskaeggjum en það var alltaf strumpurinn ofan á eggjunum sem mig langaði meira í þegar ég var barn. Mig hefur lengi langað að búa til mitt eigið egg og ætli ég láti ekki verða af því nú þegar ég er hægt og rólega að búa til mínar hefðir tengdar páskunum,“ segir Magnea að lokum.

mbl.is