Deividas Matkevičius er 28 ára gamall ævintýramaður frá Litháen sem varð algjörlega heillaður af Íslandi eftir fyrstu heimsókn sína til landsins í mars árið 2016. Ári síðar flutti hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan, en í dag starfar hann sem ljósmyndari, upptökumaður og jöklaleiðsögumaður og á sitt eigið jöklaleiðsögufyrirtæki, Frosty Tours.
Deividas Matkevičius er 28 ára gamall ævintýramaður frá Litháen sem varð algjörlega heillaður af Íslandi eftir fyrstu heimsókn sína til landsins í mars árið 2016. Ári síðar flutti hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan, en í dag starfar hann sem ljósmyndari, upptökumaður og jöklaleiðsögumaður og á sitt eigið jöklaleiðsögufyrirtæki, Frosty Tours.
Deividas Matkevičius er 28 ára gamall ævintýramaður frá Litháen sem varð algjörlega heillaður af Íslandi eftir fyrstu heimsókn sína til landsins í mars árið 2016. Ári síðar flutti hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan, en í dag starfar hann sem ljósmyndari, upptökumaður og jöklaleiðsögumaður og á sitt eigið jöklaleiðsögufyrirtæki, Frosty Tours.
Aðspurður segir Deividas ákvörðunina um að flytja til Íslands hafa verið knúna af ástríðu hans fyrir ljósmyndun og myndbandsgerð. Á þeim tíma var hann að spara peninga til að geta fjárfest í alvöru myndavélabúnaði og sá strax að Ísland væri hinn fullkomni staður til að ná lengra í ljósmynduninni.
„Frá því ég flutti til Íslands hef ég varið miklum tíma í ljósmyndun og hef eytt næstum öllum helgum í að ferðast um landið til að kanna bestu útsýnisstaðina og fanga þetta stórkostlega landslag í gegnum linsuna mína. Dvöl mín á Íslandi hefur einkennst af ævintýrum, uppgötvunum og listrænum vexti, en ég hef getað sokkið mér inn í fegurð og undur þessa einstaka og hrífandi lands,“ segir Deividas.
Deividas hefur náð að fanga mögnuð augnablik á Íslandi á filmu, en hann segir ljósmyndun hafa verið mikla ástríðu hjá sér síðastliðin sex ár. „Ljósmyndun er fjölhæf listgrein sem gerir mér kleift að tjá mig á skapandi máta og fanga fegurð heimsins sem er allt í kringum mig. Mér finnst skemmtilegast að taka myndir af landslagi og ævintýralegri útivist, en þannig næ ég bæði að kanna og fanga náttúruna í allri sinni dýrð með hjálp myndavélarinnar eða iPhone-símans,“ segir hann.
„Landslagsljósmyndun felur í sér að fanga víða og opna staði, stórkostlegar aðstæður og töfrandi landslag á filmu. Það krefst oft þolinmæði að ná áhrifaríkri mynd sem bæði fangar augað og vekur undrun, en það krefst einnig skilnings á ljósi og birtu,“ útskýrir Deividas.
„Útivistarljósmyndun felst hins vegar í því að skrásetja útivist og ævintýri, svo sem gönguferðir, klifur, skíði, útilegur og fleira. Ég einbeiti mér oft að því að fanga spennuna, adrenalínið og tilfinninguna sem tengist útivistinni á filmu, en einnig stórkostlega landslagið sem ævintýrin eiga sér stað á.
Báðar þessar tegundir ljósmyndunar bjóða upp á endalaus tækifæri til sköpunar og könnunar sem gerir ljósmyndaranum kleift að tengjast náttúrunni og deila reynslu sinni með öðrum á sjónrænan máta. Hvort sem það er að fanga glæsileika fjallagarðs við sólarupprás eða spennu brimbrettakappans að grípa ölduna, þá nær ljósmyndarinn að sökkva sér niður í fegurð og spennu náttúrunnar,“ bætir hann við.
Hvernig kanntu við þig á Íslandi?
„Ég kann vel við mig á Íslandi og það hefur verið mjög ánægjulegt að búa hér. Landið minnir mig óneitanlega á Litháen, heimalandið mitt, en líkindin milli þessara tveggja þjóða hefur gert það að verkum að ég hef upplifað kunnugleika og þægindi sem hefur stuðlað að því að mér hefur gengið vel að komast inn í íslenskt samfélag.“
Hefur þú þurft að takast á við einhverjar áskoranir hér á Íslandi?
„Það hafa komið upp áskoranir, sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar veðrið getur verið stormasamt. Veðuraðstæður á Íslandi krefjast aðlögunarhæfni, en þær skapa líka tækifæri til spennandi útivistar. Gönguferðir, ísklifur og ferðalög um landið verður enn meira spennandi og gerir áskoranir vetrarins að lokum gefandi og eftirminnilegar.
Þegar á heildina er litið þá hefur þessi blanda af áskorunum og ævintýrum gefið mér mikla og dýrmæta reynslu og auðgað tengsl mín við þetta fallega og kraftmikla land.“
Hvað er það sem heillar þig við Ísland?
„Ísland er sannarlega heillandi staður fyrir margar sakir. Þar má nefna töfrandi landslag, þar á meðal tignarlega jökla, eldfjöll og fossa, og hrjúfar strandlengjur sem bjóða upp á stórkostlegt og fjölbreytt umhverfi til að kanna. Svo eru það einstök jarðfræðileg einkenni landsins, svo sem hverir, hraun og goshverir, sem veita manni innsýn í náttúruöfl jarðarinnar.“
„Þá má einnig nefna ríkan menningararf Íslands sem hefur mótast af aldagamalli norræni goðafræði, víkingasögum og þjóðsögum, sem vekur áhuga og forvitni um landið. Íslenska þjóðin er líka þekkt fyrir hlýju sína, sköpunargáfu og seiglu, sem skapar lifandi og velkomið samfélag fyrir gesti til að upplifa. Svo má ekki gleyma skuldbindingu Íslands til sjálfbærni og umhverfisverndar sem er afar hvetjandi.
Það má því segja að þetta sé samblanda af hrífandi landslagi Íslands, ríkum menningararfi og skuldbindingu til sjálfbærni sem gerir landið að svona heillandi og spennandi áfangastað að skoða.“
Áttu þér uppáhaldsárstíð á Íslandi?
„Ég get ekki sagt að ég eigi mér uppáhaldsárstíð þar sem mér finnst hver árstíð bjóða upp á sinn einstaka sjarma og fegurð. Margir heillast að sumarmánuðunum á Íslandi, þá sérstaklega vegna dagsbirtunnar og miðnætursólarinnar sem gefa manni tækifæri til að tjalda á tjaldstæðum og fara í ævintýraferðir. Sumarið er líka vinsæll tími til að upplifa líflegar hátíðir og viðburði á Íslandi, sem og töfrandi landslag í fullum blóma.“
„Á hinn bóginn er veturinn ekki síður heillandi á Íslandi, með stórkostlegu snævi þöktu landslagi sínu, glitrandi jöklum og dáleiðandi norðurljósum sem dansa um næturhimininn. Veturinn býður einnig upp á spennandi tækifæri til afþreyingar eins og að fara í jöklagöngu, heimsækja íshella og hlýja sér í heitum náttúrulaugum í kuldanum.“
„Haustið færir landinu friðsæld með gullnu landslagi og færri ferðamönnum. Það er tími fyrir friðsælar gönguferðir, dýralífsskoðun og til að njóta stórkostlegrar litadýrð laufanna. Og loks markar vorið svo upphaf nýs lífs á Íslandi með endurkomu farfuglanna, villiblómin springa og snjórinn bráðnar – en þá koma í ljós faldir fossar og gróskumikið grænt landslag.“
Deividas hefur unnið að hinum ýmsu spennandi ljósmynda- og upptökuverkefnum á undanförnum árum. Spurður hvort hann eigi sér uppáhaldsverkefni nefnir Deividas tvö sem hann segir standa upp úr, en hann segir verkefnin bæði hafa gert honum kleift að kanna sköpunargáfu sína og kennt honum dýrmætar lexíur.
„Fyrsta verkefnið sem er í algjöru uppáhaldi hjá mér er þegar ég fangaði svokallað „time-laps“ af Norðurljósunum sem vakti mikla athygli á Instagram. Að sjá dáleiðandi dans Norðurljósanna þróast í rauntíma og deila því síðan með heiminum var sannarlega ógleymanleg tilfinning, en myndbandið hefur fengið yfir 1,5 milljón áhorf og verið endurdeilt af yfir fimm þúsund notendum. Sú staðreynd að myndbandið hafi náð til þessa fjölda er ótrúlega gefandi og ótrúlegt að hugsa til þess að þetta hafi fangað athygli svona breiðs hóps.
Annað verkefni sem á sérstakan stað í hjarta mínu er röð bílaauglýsinga sem ég tók upp fyrir Bílasölu Akureyrar. Að vinna með svona flott ökutæki og finna skapandi leiðir til að sýna hönnun þeirra og kosti var spennandi áskorun, en það að búa til sjónrænt grípandi atriði þar sem lögð er áhersla á kjarnann í hverjum bíl var bæði spennandi og ánægjulegt. Auk þess var gaman að vita að starf mitt hafi stuðlað að því að kynna þetta fararækti og um leið efla ímynd vörumerkisins.“
Hvernig lítur hefðbundinn dagur í lífí þínu út á Íslandi?
„Dæmigerður dagur í lífi mínu hér á Íslandi hefst þegar ég vakna upp við kyrrð og fegurð íslenska landslagsins. Eftir að hafa notið staðgóðs morgunverðar ásamt rjúkandi kaffibolla til að koma mér af stað í daginn þá hefst vinnudagurinn sem ljósmyndari og upptökumaður. Á milli verkefna gef ég mér tíma til að huga að heilsunni með því að skella mér í ræktina og taka æfingu – hvort sem það er að lyfta lóðum eða fara að hlaupa. Hreyfing gefur mér klárlega aukna orku og einbeitingu yfir daginn.
Af og til tek ég mér svo frí frá vinnunni til að hitta vini og njóta gæðastunda með þeim, hvort sem það er að fara á nýtt kaffihús eða veitingastað, fara í ferðalag og stunda útivist, eða einfaldlega slaka á og spjalla. Að eyða tíma með vinunum bætir án efa gleði og jafnvægi við líf mitt hér á Íslandi.“
Ertu með einhver ferðaplön fyrir sumarið?
„Planið er að fara Laugaveginn og Fimmvörðuhálsinn í sumar. Þetta eru göngur um töfrandi landslag með stórkostlegu útsýni yfir litrík fjöll og jökla þar sem farið er yfir ár, horft yfir fallega fossa og tjaldað í náttúrunni í nokkra daga – ógleymanlegt ævintýri fyllt með magnaðri náttúrufegurð og spennandi upplifunum!
Svo stefni ég á að taka þátt í hálfum járnkarli. Ég vann og var í fyrsta sæti í byrjendaflokki í hálfum járnkarli árið 2020, en ég hef mjög gaman að bæði líkamsrækt og þrekþjálfun og þáttöku í slíkum keppnum.“
„Ég er líka að spá í að fara í stutta ferð til útlanda til að bæta smá auka spennu í sumarið mitt! Hvort sem valið er að heimsækja nálægan evrópskan áfangastað eða fara lengra þá getur maður alltaf verið viss um að það verði auðgandi upplifun full af nýrri menningu og ævintýrum.
Ferðalön mín fyrir sumarið stefna því í að vera full af ævintýrum, uppgötvunum og ógleymanlegum minningum. Ég mun njóta hverrar stundar, bæði á hálendi Íslands og víðar!“