Lambahryggurinn hennar Kristínar hússtjórnarkennara

Uppskriftir | 31. mars 2024

Lambahryggurinn hennar Kristínar hússtjórnarkennara

Anna Björk Eðvarðsdóttir matgæðingur nýtur þess að elda góðan mat og hefur gaman að öllu matartengdu. Á páskunum býður hún fjölskyldunni ávallt upp á íslenskt lambakjöt og í ár verður það lambahryggur með ljúffengu meðlæti. Hún deilir hér með lesendum matarvefsins uppskriftinni af páskamáltíðinni sinni í ár ásamt hugleiðingum sínum um páskana.

Lambahryggurinn hennar Kristínar hússtjórnarkennara

Uppskriftir | 31. mars 2024

Anna Björk Eðvaldsdóttir matgæðingur býður fjölskyldunni ávallt upp á íslenskt …
Anna Björk Eðvaldsdóttir matgæðingur býður fjölskyldunni ávallt upp á íslenskt lambakjöt og í ár verður það lambahryggur með ljúffengu meðlæti. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir

Anna Björk Eðvarðsdóttir matgæðingur nýtur þess að elda góðan mat og hefur gaman að öllu matartengdu. Á páskunum býður hún fjölskyldunni ávallt upp á íslenskt lambakjöt og í ár verður það lambahryggur með ljúffengu meðlæti. Hún deilir hér með lesendum matarvefsins uppskriftinni af páskamáltíðinni sinni í ár ásamt hugleiðingum sínum um páskana.

Anna Björk Eðvarðsdóttir matgæðingur nýtur þess að elda góðan mat og hefur gaman að öllu matartengdu. Á páskunum býður hún fjölskyldunni ávallt upp á íslenskt lambakjöt og í ár verður það lambahryggur með ljúffengu meðlæti. Hún deilir hér með lesendum matarvefsins uppskriftinni af páskamáltíðinni sinni í ár ásamt hugleiðingum sínum um páskana.

Anna Björk segir að eina hefðin sem hún haldi í …
Anna Björk segir að eina hefðin sem hún haldi í um páskana sé íslenska páskalambið. mbl.is/Árni Sæberg

Anna Björk er formaður Hringsins og hefur verið það síðastliðin sex ár.  Hún er mikil fjölskyldumanneskja og leggur mikla rækt við að sinna fjölskyldunni sem er sístækkandi.

„Ég er eiginkona, móðir þriggja dætra og amma, sem er yndislegt.  Við hjónin eigum fimm barnabörn, það fimmta, er nokkra vikna gamall gullmoli.  Það er mikil blessun og ríkidæmi að eiga þennan hóp.  Ég nýt þess að elda mat og bjóða til veislu. Auk þess hef ég gaman af öllu matartengdu, svo mér til skemmtunar held ég úti vefsíðunni minni sem ber heitið Anna Björk matarblogg þar sem ég birti mínar uppáhaldsuppskriftir.

Páskalambið eina hefðin um páskana hjá Önnu Björk

Þegar kemur að hefðum og siðum um páskana segir Anna Björk að þær séu mun frjálslegri heldur en um jólin. „Eins og ég er fastheldin á jólahefðir, eru páskahefðirnar lausari í sér. Það kemur til af því að við fjölskyldan höfum alltaf verið saman í einhverri útivist um páskana. Verið á skíðum, í sumarbústaðnum eða í hesthúsinu. Dæturnar eru löngu farnar að heiman og eiga sjálfar sínar fjölskyldur og tengda fjölskyldur, svo við náum ekki alltaf að hittast yfir páskana. Dæturnar og tengdasynirnir eru öll í einhverju sporti sem þau stunda yfir hátíðina, svo það getur verið flókið að ná öllum saman. Ég held að þetta sé ekki einsdæmi. Það eina sem er hefð í um páskana, er páskalambið, það er ómissandi og eggjaréttir. Núna erum við hjónin í fjallaferðum á jeppa, svo í ár miðast páskarnir okkar við það, ef veðurguðirnir leyfa. Svo kannski elda ég páskalambið á fjöllum, hver veit,“ segir Anna Björk og brosir.

Með lambahryggnum er boðið upp á Hasselback-kartöflur, Waldorf salat og …
Með lambahryggnum er boðið upp á Hasselback-kartöflur, Waldorf salat og ljúffenga sósu sem unnin er upp úr soðinum af hryggnum. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir

Klippi niður greinar ef ég man eftir því í tíma

Aðspurð segir Anna Björk skreyta aðeins kringum sig á páskunum. „Ég skreyti með páskagreinum, páskaliljum og máluðum eggjum. Ef ég man eftir því í tíma, þá klippi ég birki- og aspargreinar, set í vatn svo þær laufgist og skreyti þær. Það er skemmtilegast, það er svo góð lykt af þeim. Áður fyrr föndraði ég aðeins en ekki lengur. Ég gerði það með dætrunum, þegar þær voru litlar, en hver veit nema ég geri það aftur, með litlu ungunum mínum fimm.“

Súkkulaðipáskaeggin eru ávallt á boðstólum um páskana en áður fyrr var mikið umstang kringum eggin. „Okkar uppáhalds eru Nóa eggin. Þegar dæturnar bjuggu heima, var mikið atriði að fela páskaeggin. Þær helltu sér í  leikinn fullar af spenningi og við hjónin skemmtum okkur konunglega, á meðan á leitinni stóð. Ég lagði mikinn metnað í að finna flóknari felustaði fyrir páskaeggin þeirra, eftir því sem árin liðu og þær urðu eldri.  Ég var orðin mjög góð í að fela þau og þurfti stundum að gefa vísbendingar, til að eggin myndu finnast.“  

Byrjaði að bráðna í fanginu á mér

Bernskuminningarnar sækja gjarnan að þegar hátíðisdagar eins og páskarnir bera upp hjá Önnu Björk. „Ég man sérstaklega eftir því, þegar ég fékk fyrsta stóra páskaeggið mitt, stærsta eggið sem var til í búðinni. Ég fékk það afhent kvöldið fyrir páska, en mátti ekki opna það. Ég var svo spennt, að ég sat með það í fanginu allt kvöldið, svo það var byrjaði að bráðna. Svo er það alvarleikinn, sem var yfir öllu í gamla daga. Hann var svolítið þrúgandi, sem betur fer er það ekki þannig í dag. Nú nýtur fólk þess að vera saman og gera það sem því finnst skemmtilegt, fara í langar göngur, á skíði, í sumarbústaði.  Svona langt frí er dýrmætt fyrir fólk sem er á fullu alla daga, í vinnu eða skóla,“ segir Anna Björk.

Páskalambið er í raun eina fasta hefðin tengt páskunum hjá Önnu Björk og það er misjafnt hvaða hluti lambsins er valinn. „Í ár verður það hryggur, íslenska lambakjöt er dásamlega gott. Ég leyfi því að njóta sín án þess að vera með krefjandi krydd, sem taka frá náttúrulega góða bragði. Meðlætið verður Waldorf salat og Hasselback-kartöflur, sem mér finnast hátíðlegar. En engin máltíð er fullkomin án þess að það sé góð sósa með og mér finnst þessi himnesk með lambi.

Síðan býð ég upp á Páskatertu, sem er draumur súkkulaði aðdáenda. Þetta er dásamleg súkkulaðimús, sem situr ofan á geggjuðum brownie botni, er nokkuð betra?  Hún er falleg á borði og sómir sér sem eftirréttur eða terta á fermingarborðinu líka. Það er auðvelt að búa hana til og geyma þar sem það má frysta hana. Vert er að hafa í huga að gera tertuna daginn áður en það á að bera hana fram, í það minnsta.“

Páskatertan skartar sínu fegursta á borðinu hjá Önnu Björk.
Páskatertan skartar sínu fegursta á borðinu hjá Önnu Björk. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir

Uppskriftin gömul og margnotuð á mínu heimili

„Uppskriftin að lambahryggnum er gömul og margnotuð á mínu heimili. Hún er frá Kristínu Andrésdóttur, hússtjórnarkennara og var birt í dagblaðinu Vísi árið 1981. Ég man enn, hvað mér fannst þetta geggjaður hryggur þegar ég smakkaði hann í fyrsta sinn, svo mikil tilbreyting frá þeim gamla sem var alltaf á borðum. Ég eldaði hann mjög oft árum saman, notaði stundum læri í staðinn fyrir hrygginn en svo gleymdi ég honum alveg. Síðan var ég að fara í gegnum bunka af gömlum uppskriftum um daginn og fann ljósritið af uppskriftinni og prófaði hana aftur og kolféll fyrir henni enn og aftur,“ segir Anna Björk að lokum.

Páskalambið klikkar ekki.
Páskalambið klikkar ekki. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir

Lambahryggurinn hennar Kristínar

Fyrir 5-6

  • 1 stk. lambahryggur (2,3 kg)
  • 6 sóló hvítlaukar, saxaðir miðlungs gróft

Rósmarín smjör

  • 120 g smjör, mjúkt
  • 2 tsk. þurrkað rósmarín
  • ½ tsk. þurrkað timian
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Í ofnskúffuna

  • 2 stórir laukur
  • 5-6 gulrætur
  • ½ flaska þurrt hvítvín, eða 3-4 dl soð (má vera blanda af báðu)

Sósa

  • Sigtað soðið úr steikarfatinu
  • 1 ¼ tsk. þurrkað rósmarín
  • 1 tsk. þurrkað timian
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
  • 2 ½ -3 dl rjómi
  • Sósujafnari eftir smekk

Aðferð

  1. Munið að taka hrygginn úr frystinum 3-4 dögum áður en þið ætlar að elda hann ef hann er frosinn. 
  2. Látið hann standa á borði yfir nótt til að afþíða. 
  3. Þerrið hann og setjið í nýtt plast og geymið í ísskápnum, þar til morguninn sem þið ætlið að elda hann. 
  4. Takið hann þá út og látið bíða á eldhúsborðinu, fram að eldunartíma. 
  5. Gerið rósmarínið smjörið klárt, setjið allt hráefnið í skál og blandið vel saman. 
  6. Hitið ofninn í 250°C
  7. Þerrið hrygginn mjög vel með eldhúspappír, saltið og piprið á neðri hliðinni.  
  8. Skerið rauf ofan á hrygginn niður í bein með fram lengdinni á hryggnum, beggja vegna. Opnið skurðinn og þrýstið söxuðum hvítlauk í skurðina.
  9. Saltið og piprið hrygginn og smyrjið síðan er rósmarín smjörinu yfir húðina.
  10. Skerið laukinn í meðal þykkar sneiðar og skerið gulræturnar sneiðar líka.
  11. Leggið grænmetið í miðjuna á steikarfatinu og setjið hrygginn ofan á það. 
  12. Hellið víninu í skúffuna og setjið hrygginn inn í ofninn og steikið í 15 mínútur.
  13. Lækkið síðan hitann í 170°C og steikið áfram í 1 klukkustund og 15-30 mínútur, eftir því hvað þið viljið hafa hrygginn mikið steiktan. 
  14. Ausið soðinu í skúffunni yfir hrygginn á meðan hann steikist. 
  15. Takið hrygginn úr ofninum og látið hann standa og hvílast á meðan þið klárið að gera sósuna.

Sósan

  1. Hellið soðinu og grænmetinu úr steikarskúffunni í stórt sigti yfir potti og pressið allan safann úr grænmetinu.  Síðan er grænmetinu hent.
  2. Látið suðuna koma upp í pottinum og smakkið til með rósmarín og timian. 
  3. Bætið rjóma út í sósuna eins og ykkur finnst passa, þykkið síðan er sósuna til með sósujafnara að ykkar smekk. 
  4. Berið fram á fallega dekkuðu páskaborið með Waldorf salati og Hasselback kartöflum. 

Páskaterta

Fyrir 12-14

Botninn

  • 80 g suðusúkkulaði
  • 100 g hveiti
  • 40 g kakó
  • 100 g sykur
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ¼ tsk. salt
  • 90 ml olía
  • 1 egg
  • 90 ml mjólk
  • 80 ml nýsoðið vatn

Súkkulaðimúsin

  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g mjólkursúkkulaði
  • 4 egg, aðskilin
  • 3 dl rjómi

Skraut

  • Súkkulaði smá egg
  • Ferskir túlípanar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 160°C hita.
  2. Smyrjið 22 cm lausbotna form að innan og sniðið pappír í botninn og í háan hring, innan í forminu, smyrjið líka pappírinn.  
  3. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. 
  4. Takið af hitanum og látið kólna aðeins. 
  5. Blandið saman hveiti, kakói, sykri, lyftidufti og salti í rúmgóðri skál. 
  6. Þeytið saman létt saman olía og egg í könnu eða skál, blandið síðan mjólkinni saman við.  Blandið saman blauta hráefninu, ásamt brædda súkkulaðinu saman við þurrefnin, síðan blandið þið soðna vatninu út í.
  7. Hellið deiginu út í formið og sléttið úr því. 
  8. Stingið inn í ofninn og bakið í 16-18 mínútur eða þar til prjónn kemur nærri hreinn upp úr miðjunni. 
  9. Setjið formið til hliðar og látið kólna. 

Súkkulaðimús

  1. Bræðið báðar gerðir af súkkulaði yfir vatnsbaði. 
  2. Takið af hitanum og látið kólna í líkamshita. 
  3. Stífþeytið eggjahvíturnar í hreinni skál og setjið til hliðar.
  4. Þeytið rjómann annarri skál í næstum því mjúka toppa, ekki ofþeyta rjómann. 
  5. Þeytið eggjarauðurnar upp í súkkulaðið, blandið síðan saman við þeytta rjómann og í lokin blandið eggjahvítunum varlega saman við súkkulaðirjómann. 
  6. Hellið síðan músinni í formið og jafnið út.
  7. Stingið í ísskápinn yfir nótt eða lengur. 
  8. Þegar þið ætlið að bera kökuna á borð, takið hana þá varlega úr forminu og takið pappírinn utan af henni.
  9. Skreytið að vild.
Þessa tertu munu allir súkkulaði unnendur elska enda spilar súkkulaðið …
Þessa tertu munu allir súkkulaði unnendur elska enda spilar súkkulaðið aðalhlutverkið. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir
mbl.is