Egill Ásbjarnarson, einn eigenda Suitup Reykjavik, segir það færast í vöxt að karlmenn velji sérsaumuð jakkaföt. Jakkaföt sem passa vel og eru úr góðu efni endast vel og lengi. Egill ætlar að næla sér í græn jakkaföt fyrir vorið en hann mælir líka með ljósum jarðlitum
Egill Ásbjarnarson, einn eigenda Suitup Reykjavik, segir það færast í vöxt að karlmenn velji sérsaumuð jakkaföt. Jakkaföt sem passa vel og eru úr góðu efni endast vel og lengi. Egill ætlar að næla sér í græn jakkaföt fyrir vorið en hann mælir líka með ljósum jarðlitum
Egill Ásbjarnarson, einn eigenda Suitup Reykjavik, segir það færast í vöxt að karlmenn velji sérsaumuð jakkaföt. Jakkaföt sem passa vel og eru úr góðu efni endast vel og lengi. Egill ætlar að næla sér í græn jakkaföt fyrir vorið en hann mælir líka með ljósum jarðlitum
„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að karlmenn eru farnir að velja sérsaumuð jakkaföt í meiri mæli. Ein stærsta ástæðan er sú að jakkaföt eru flókin í sniðum og heyrir það til undantekninga að menn smellpassi í tilbúnar stærðir, þó þau geti passað ágætlega. Í sérsaumi tökum við inn í reikninginn alla mögulega þætti líkamsbyggingar til þess að tryggja fullkomið snið,“ segir Egill þegar hann er spurður af hverju menn kjósi sérsaumuð jakkaföt.
„Önnur ástæða er sú að karlmenn eru í meiri mæli farnir að nota klæðaburð til að endurspegla persónuleika sinn og hvaða leið er betri til þess en að klæðast jakkafötum sem eru saumuð frá grunni sérstaklega fyrir þig? Þú getur valið um hundruð eða þúsundir fjölbreyttra efna og svo stjórnað hverju einasta smáatriði.“
Egill og Jökull Vilhjálmsson hafa rekið Suitup Reykjavik í tíu ár og á þeim tíma hefur margt breyst. „Þegar við stofnuðum Suitup Reykjavik árið 2014 vorum við eina íslenska fyrirtækið sem sérhæfði sig í sérsaumuðum jakkafötum og fæstir karlmenn höfðu látið sér detta í hug að hægt væri að fá sérsaumuð jakkaföt á viðráðanlegu verði. Tækniframfarir hafa einnig verið gríðarlegar í bransanum og upp hafa sprottið verksmiðjur sem sérhæfa sig eingöngu í sérsaumi og nota blöndu af nýjustu tækni og aldagömlum klæðskerahefðum til að sameina það besta úr báðum heimum. Að lokum hefur orðið mikil hugarfarsbreyting hjá neytendum og áherslan hefur færst yfir á að kaupa gæði fram yfir magn. Vönduð, sérsaumuð flík er framleidd til þess að endast árum ef ekki áratugum saman ef vel er hugsað um hana.“
Borgar það sig að velja sérsaum?
„Í langflestum tilfellum borgar það sig. Í grunninn má miða við að sérsaumuð jakkaföt kosti um 20 prósent meira en tilbúin jakkaföt í sama gæðaflokki. Þó að tilbúnu jakkafötin okkar séu saumuð á sama hátt og úr sömu vönduðu efnum og sérsaumuðu fötin okkar er sjaldgæft að ekki þurfi að gera einhverjar breytingar til að sniðið sé fullkomið. Fatabreytingar kosta alltaf sitt og það er alls ekki sjaldgæft að verð á tilbúnum fötum slagi upp í verð á sérsaumuðum fötum ef mikið þarf að eiga við þau.“
Fyrir utan þá staðreynd að jakkaföt eru flóknar flíkur sem þurfa að passa rétt yfir alla líkamshluta. Hann segir líka erfitt að búa til snið sem passa rétt fyrir alla. „Á Íslandi getur verið enn meiri áskorun að finna tilbúin jakkaföt sem passa vel. Mikið af þeim fötum sem eru í boði er frá merkjum frá Mið- og Suður-Evrópu þar sem karlmenn eru ekki endilega eins vaxnir og Íslendingar, sem eru oft og tíðum herðabreiðari, útlimalengri og með sterkbyggðari fætur en t.d. Ítalir. Tilbúnu jakkafötin okkar eru saumuð í sniði sem við þróuðum út frá mælingum sem við höfum tekið af þúsundum Íslendinga og henta því oftar en ekki betur en jakkaföt frá erlendum framleiðendum.“
Skipta góð efni máli?
„Efnisval er klárlega mikilvægur þáttur í ferlinu og ræðst oftar en ekki af tilefninu sem fötin eru hugsuð fyrir. Við kaupum nánast öll okkar efni frá mörgum af elstu og virtustu efnaframleiðendum Ítalíu og ferðumst þangað þrisvar á ári til að setja saman efnaúrvalið okkar. Fyrir spariföt hugsuð fyrir sumarbrúðkaup eða útskriftir erum við mjög hrifnir af ullar-, silki- og hörblöndunum frá Loro Piana eða silkimjúkum Super 150's-ullarefnum frá Vitale Barberis Canonico. Slík efni væru þó ekki endilega besti kosturinn fyrir vinnuföt sem hugsuð eru fyrir daglega notkun. Þar mælum við oft með teygjanlegu ullarefnunum frá Marzotto eða Super 130's-ullarefnum frá Angelico. Fyrir þá sem eru á leið í heitara loftslag eru efni úr 100% hör alltaf skemmtilegur og afslappaður kostur.“
Hvað er í tísku fyrir vor og sumar?
„Stærsta breytingin sem við höfum tekið eftir er að sniðin eru farin að stækka jafnt og þétt, sérstaklega þegar kemur að buxum. Þessi ofboðslega þröngu, skandinavísku snið eru dottin út og mætti lýsa núverandi sniðum sem aðsniðnum en klassískum. Eins hefur áhugi á millifínum jökkum aukist mikið og eru safaríjakkarnir okkar frábært dæmi um það. Þeir eru saumaðir úr írskum hör frá Baird McNutt og eru góður kostur ef menn vilja örlítið afslappaðri jakka sem er hægt að nota í stað hefðbundins sparijakka.“
Hvernig jakkaföt eru í tísku núna?
„Síðustu ár hafa ljósir jarðlitir verið virkilega vinsælir og við eigum ekki von á því að það breytist í sumar. Árið í ár er svo árið þar sem teinóttu jakkafötin koma aftur með krafti eftir að hafa komið hægt og rólega til baka síðustu tvö til þrjú ár.“
Hvaða flík ættu menn að láta sérsauma á sig ef þeir ætla ekki að fá sér jakkaföt?
„Sérsaumaðar, dökkbláar gallabuxur úr teygjanlegu indígó-lituðu efni frá Candiani er eitthvað sem allir ættu að prófa.“
Hvaða flík þurfa allir að eiga í fataskápnum?
„Klassísk, dökkblá jakkaföt úr vönduðu ullarefni. Paraðu þau við hvíta skyrtu, dökkt bindi og dökka leðurskó og þú ert nægilega formlegur fyrir nánast öll tilefni eða paraðu þau við sparilega strigaskó, hvítan stuttermabol og litríkan vasaklút og þú ert klár í sumarpartíið.“
Er eitthvað að detta úr tísku?
„Jakkaföt með mjög stóru munstri hafa verið á undanhaldi upp á síðkastið. Tímalaus og mátulega áberandi köflótt og teinótt jakkaföt eru þó alltaf í tísku en stundum er einfaldlega nóg að láta áhugaverða áferð og skemmtilega liti njóta sín.“
Hvað langar þig í í fataskápinn fyrir vorið?
„Tvíhneppt jakkaföt úr grænu solaro-efni frá Drago.“