Tyrkir vilji hleypa nýju pólitísku andrúmslofti inn

Tyrkland | 2. apríl 2024

Tyrkir vilji hleypa nýju pólitísku andrúmslofti inn

Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Tyrklands, Repúblikanaflokkurinn CHP, fagnaði stórsigri í sveitarstjórnarkosningum í stórborgum landsins: Istanbúl og höfuðborginni Ankara.

Tyrkir vilji hleypa nýju pólitísku andrúmslofti inn

Tyrkland | 2. apríl 2024

Niðustöður sveitarstjórnarkosninganna eru stærsti ósigur á ferli Erdogans og sá …
Niðustöður sveitarstjórnarkosninganna eru stærsti ósigur á ferli Erdogans og sá mesti hjá Ekrem Imamoglu og Repúblikanaflokknum síðan árið 1977. Samsett mynd/AFP

Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Tyrklands, Repúblikanaflokkurinn CHP, fagnaði stórsigri í sveitarstjórnarkosningum í stórborgum landsins: Istanbúl og höfuðborginni Ankara.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Tyrklands, Repúblikanaflokkurinn CHP, fagnaði stórsigri í sveitarstjórnarkosningum í stórborgum landsins: Istanbúl og höfuðborginni Ankara.

Auk þeirra vann flokkurinn aftur í Izmir, Adana og Antalya og varð í meirihluta í fjórðu stærstu borg landsins Bursa ásamt Balikesir og Adiyaman sem varð hvað verst fyrir barðinu á mannskæðum jarðskjálftum í fyrra. 

Samkvæmt frétt BBC voru úrslitin stórt högg fyrir forseta landsins, Recep Tayyip Er­dog­an, og flokk hans AKP en Erdogan hefur verið við völd í 21 ár.

Undir stjórn hans hefur forseti öðlast ýmis völd þar á meðal skyldur og völd forsætisráðherra. Hafa kjörnir borgarstjórar aftur á móti enn töluverð ítök, þá sérstaklega í Istanbúl en þar býr fimmtungur Tyrkja sem nemur um 85 milljónum manns. 

Ekrem Imamoglu tryggði CHP sigur í borgarstjórnarkosningum í Istanbúl árið 2019 en Erdogan, sem er fæddur í borginni og gegndi sjálfur embætti borgarstjóra þar á árum áður, beitti sér mikið fyrir sigri AKP í kosningunum í ár – en án árangurs.

Stjórnarandstöðuflokkurinn CHP fagnaði sigri í fjölda stórborga Tyrklands.
Stjórnarandstöðuflokkurinn CHP fagnaði sigri í fjölda stórborga Tyrklands. AFP

Ólíklegra að Erdogan geti átt við stjórnarskrána

Forsetinn hefur í kjölfarið viðurkennt að kosningarnar hafi vissulega ekki farið að vonum hans en tjáði stuðningsmönnum sínum í Ankrara að niðurstöðurnar mörkuðu ekki endalok heldur þvert á móti tímamót.

Kvaðst hann ávallt hafa reitt sig á vilja fólksins og að hann hygðist því einnig virða vilja kjósenda nú.  

Erdogan sigraði með naumindum í forsetakosningum landsins í fyrra og tilkynnti í mars á þessu ári að kjörtímabilið, sem er hans þriðja, yrði einnig hans hinsta.

Voru gagnrýnendur hans þó ekki ýkja sannfærðir um að Erdogan hygðist raunverulega láta af völdum og töldu hann vísan til að breyta stjórnarskrárákvæði til að gera sér kleift að sitja lengur. Er það þó talið ólíklegra í ljósi niðurstaðna kosninganna. 

Kjósandi CHP kveðst vongóð um aukin réttindi kvenna og barna …
Kjósandi CHP kveðst vongóð um aukin réttindi kvenna og barna í kjölfar kosninganna. AFP

Breyta ásýnd Tyrklands

Að sögn stjórnmálafræðinga er þetta stærsti sigur CHP síðan árið 1977 og stærsti ósigur á ferli Erdogans. Formaður CHP, Ozgur Ozel, hrósaði kjósendum fyrir að ákveða að breyta ásýnd Tyrklands.

„Þeir vilja opna dyrnar fyrir nýju pólitísku andrúmslofti í landinu okkar.“

Ræddi fréttastofa BBC einnig við einn kjósanda CHP-flokksins sem kvaðst vongóð um framtíð landsins í ljósi kosninganna. Kvaðst hún einnig vongóð um að aðskilnaður á milli ríkis og kirkju yrði meiri í landinu og virðing fyrir mannréttindum og réttindum kvenna og barna yrði meiri. 

„Þetta eru aðeins sveitarstjórnarkosningar en sigur stjórnarandstöðunnar í stórborgunum er skýr afstaða gegn stjórnarflokknum,“ sagði Yesim Albayrak, hjúkrunarfræðingur og stuðningskona CHP. 

CHP flokkurinn var stofnaður af Mústafa Kemal Atatürk í kjölfar innleiðingar hans á lýðveldi í landinu. Fór hann fyrir byltingu í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar þar sem höfuðborgin var flutt frá Istanbúl til Ankara og soldánaveldið leyst upp. Lagði hann ríka áherslu á aðskilnað ríkis og kirkju - eða mosku í þessu tilfelli.

mbl.is