Tanja Maren Kristinsdóttir er 27 ára móðir og fyrirtækjaeigandi sem á tvo hunda af tegundinni Pomeranian, Talíu sem er fjögurra ára og Dimmey sem er tveggja ára.
Tanja Maren Kristinsdóttir er 27 ára móðir og fyrirtækjaeigandi sem á tvo hunda af tegundinni Pomeranian, Talíu sem er fjögurra ára og Dimmey sem er tveggja ára.
Tanja Maren Kristinsdóttir er 27 ára móðir og fyrirtækjaeigandi sem á tvo hunda af tegundinni Pomeranian, Talíu sem er fjögurra ára og Dimmey sem er tveggja ára.
Tanja er mikill fagurkeri og rekur verslunina Myrk Store sem selur hönnunarvörur fyrir heimilið. Sjálf á hún afar fallegt heimili og segir hundana óvænt hafa verið í stíl við heimilið. „Það var frekar mikil tilviljun að hundarnir passi svona vel inn á heimilið, en þær eru akkúrat í litapallettunni á heimilinu okkar. Talía er í stíl við parketið og Dimmey í stíl við innréttingarnar þó það hafi ekki verið ætlunin,“ segir hún.
Hvernig lágu leiðir ykkar saman?
„Mig hafði dreymt um það í mörg ár að eignast Pomeranian-hund. Þegar ég fór svo að kynna mér ræktendur þessarar tegundar á Íslandi komst ég í kynni við yndislegu Agnesi hjá Norðurdals ræktun á Egilsstöðum.
Ég fór svo í flug til Egilsstaða og sótti Talíu, leigði bíl og keyrði með hana heim frá Egilsstöðum. Tveimur árum seinna fengum við svo hana Dimmey okkar. Þær eru mér svo kærar og einstaklega góðar saman.“
Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?
„Fyrst og fremst var það hversu auðvelt var að þjálfa þær. Ég fór með þær báðar í hundaskóla hjá Hundaakademíunni og þær stóðu sig einstaklega vel. Þær eru rólegar, ljúfar og góðar. Svo er fallegt að sjá hvað þeim semur vel við son minn. Þær fara lítið úr hárum og eru með svo góða skapgerð. Ég gæti ekki ímyndað mér lífið án þeirra.“
Hverjir eru kostirnir við að eiga hunda?
„Hundar gefa manni svo mikla ást. Maður fær endalausa gleði frá þeim og þeir hjálpa manni að líða vel á góðum jafnt sem erfiðum tímum. Lífið væri frekar tómlegt án þeirra og ég er svo þakklát fyrir það að sonur minn fái að alast upp með þeim.“
En ókostirnir?
„Ókostirnir við að eiga hund er að vita að þær verði ekki alltaf hjá manni. Svo finnst mér að lög um dýrahald á Íslandi mættu vera frjálslegri – ég myndi vilja taka hundana með mér til útlanda án þess að þær þurfi að fara í einangrun við heimkomu. Í öðrum löndum má fara með hundana sína með sér í verslanir, samgöngur, hótel, veitingastaði og fleira.“
Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?
„Við eigum svo margar góðar minningar. Minning sem stendur allra mest upp úr er hversu vel þær tóku syni mínum eftir að hann fæddist. Við höldum einnig mikið upp á göngutúra og fjallgöngur með þeim.“
Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?
„Það hefur verið auðvelt þar sem þær eru svo einstaklega ljúfar og góðar. Ég myndi helst vilja taka þær með mér þegar við förum erlendis og vonast til að upplifa það með þeim einn daginn.“
Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?
„Mér finnst skipta miklu máli að ala hundana sína vel upp, fara með þá í hundaskóla, kenna þeim það sem má og má ekki. Ég er ekki hlynnt því að skamma hunda, frekar að hrósa þeim fyrir góða hegðun, það hefur skilað svo góðum árangri í uppeldinu á Talíu og Dimmey.“