Eyrún tók skyndiákvörðun og fór til Tonga

Sjóferðir | 7. apríl 2024

Eyrún tók skyndiákvörðun og fór til Tonga

Eyrún Lydía Sævarsdóttir er 28 ára náttúru- og ævintýraljósmyndari. Í fyrra tók hún skyndiákvörðun og fór til Tonga þar sem hún dansaði með hvölum og myndaði þá. Hún segir ólýsanlega upplifun að synda með hnúfubak en heimafólk á Tongo á líka stóran sess í hjarta hennar eftir ferðalagið. 

Eyrún tók skyndiákvörðun og fór til Tonga

Sjóferðir | 7. apríl 2024

Eyrún Lýdía Sævarsdóttir synti með hvölum á Tonga og myndaði …
Eyrún Lýdía Sævarsdóttir synti með hvölum á Tonga og myndaði þá. Ljósmynd/KARIM ILIYA

Eyrún Lydía Sævarsdóttir er 28 ára náttúru- og ævintýraljósmyndari. Í fyrra tók hún skyndiákvörðun og fór til Tonga þar sem hún dansaði með hvölum og myndaði þá. Hún segir ólýsanlega upplifun að synda með hnúfubak en heimafólk á Tongo á líka stóran sess í hjarta hennar eftir ferðalagið. 

Eyrún Lydía Sævarsdóttir er 28 ára náttúru- og ævintýraljósmyndari. Í fyrra tók hún skyndiákvörðun og fór til Tonga þar sem hún dansaði með hvölum og myndaði þá. Hún segir ólýsanlega upplifun að synda með hnúfubak en heimafólk á Tongo á líka stóran sess í hjarta hennar eftir ferðalagið. 

Eyrún segir myndbönd á samfélagsmiðlum hafa kveikt neistann. 

„Ég hugsaði með mér, þetta vil ég gera einn daginn og taka myndir af því. Því oftar sem ég sá þau hugsaði ég; þetta hlýtur að vera merki um að ég eigi að skella mér. Það vanalega líður ekki langur tími þangað til ég læt bara verða af því, og það er einmitt það sem ég gerði,“ segir Eyrún. 

Hún vissi af ljósmyndara, Karim Iliya, sem bauð upp á ferð þar sem synt var með hvölum eða dansað eins og hann orðar það. „Ferðin átti að vera í ágúst á Tonga í Suður-Kyrrahafi, en á þeim árstíma eru kýr að eignast kálfa og mikið að gerast á milli hnúfubakanna. Ég tók skyndiákvörðun og bókaði þessa ferð. Þetta er örugglega besta skyndiákvörðun sem ég hef tekið hingað til. Þarna eyddi ég heilli viku, sjö klukkustundum á dag með þeim og fangaði stórkostlegt myndefni,“ segir Eyrún. 

Það er hins vegar ekki auðvelt að komast til Tonga en það tók Eyrúnu tvo daga og þrjú flug að komast til paradísarinnar Vava'u á Tonga, tímamismunurinn á milli Íslands og Tonga eru 13 tímar. Það var þó vel þess virði. „Ég get varla lýst tilfinningunni að synda með hnúfubak. Hún er engu lík. Að sjá fallega sambandið milli kýr og kálfs hennar. Heyra hnúfubak syngja mörgum metrum í burtu og þú finnur víbrínginn frá hljóðinu um allan líkamann.“

Mikið fjör er í sjónum í ágúst.
Mikið fjör er í sjónum í ágúst. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir
Fallegt augnablik sem Eyrún myndaði í ferðinni.
Fallegt augnablik sem Eyrún myndaði í ferðinni. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir


Þarf alltaf að vera læra eitthvað nýtt

Eyrún fékk áhuga á ljósmyndun þegar hún byrjaði að vinna sem leiðsögumaður fyrir um átta árum. Þá varð hún strax heilluð af íslenskri náttúri og útiveru. „Ég fór að fikta við að taka myndir og fjárfesti fljótlega í almennilegri myndavél. Það gefur mér svo mikla orku að fara út og fanga falleg augnablik og vera skapandi. Fyrir mig er það eins og auka afsökun að fara út því ég þarf að „viðra myndavélina“,“ segi Eyrún. 

Eyrún Lydía fékk áhuga á ljósmyndun þegar hún starfaði sem …
Eyrún Lydía fékk áhuga á ljósmyndun þegar hún starfaði sem leiðsögumaður. Íslensk náttúra heillaði hana meðal annars. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir krefjandi verkefnið að mynda hvali. 

„Að taka myndir af hvölum er alveg rosalega spennandi, flókið og svo heilmikið adrenalín. Ég þarf að hugsa um svo margt á sama tíma og vera fljót að því. Ég þarf að synda hratt og ekki gleyma því að anda, áður en hvalirnir synda í burtu. Þessi tími er horfinn á einu augnabliki. Það getur verið alveg gríðarlegur hraði og mikill hasar á þeim. Ég ber allavega mikla virðingu fyrir dýralífs ljósmyndurum eftir þessa ferð.

Ofan á það þarf myndavélin að vera í vatnshýsingu og getur verið erfitt að breyta stillingunum í henni, svo hún þarf helst að vera með réttu stillingarnar áður en hún fer í hýsinguna. Ég lærði alveg heilmikið á hverjum degi í sjónum, bæði um myndavélina og mig. Það er það sem ég elska svo mikið við ljósmyndun, hún gefur mér svo margt og ég er ennþá að læra eitthvað nýtt. Ef ég væri ekki að læra eitthvað nýtt myndi ég eflaust fá leið á því.“

Hnúfubakur.
Hnúfubakur. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir
Eyrún komst í ótrúlega nálægð við hvalina á frábærum árstíma.
Eyrún komst í ótrúlega nálægð við hvalina á frábærum árstíma. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir

Lífið er rólegra

Auk þess að synda í sjónum naut Eyrún þess að kynnast heimafólki. 

„Ég hef aldrei upplifað land eins og Tonga og mæli eindregið með því að fólk heimsæki það ef það gefst tækifæri til. Um leið og ég lenti á Vava’u í pínulítilli flugvél blasti við mér þessi kofi sem var flugvöllurinn. Fólk gekk bara á flugbrautinni og inn í kofann og þar var starfsfólk sem tók á móti manni eins og þau hefðu þekkt mig í mörg ár. Þau koma fram við mann eins og vin og vilja allt fyrir mann gera, það er alveg magnað að upplifa. Ég smakkaði í fyrsta skipti ferskan túnfisk sem var veiddur og eldaður fyrir framan mig. Ég hef bara aldrei smakkað svona góðan fisk áður og ég held ég hafi fengið mér hann fimm kvöld í röð.

Ég hafði ekki hugmynd um að Tonga væri konungsríki fyrr en ég kom þangað og þar væri að finna eftirsóttustu vanillu í heiminum. Fólkið á Tonga ber gríðarlega mikla virðingu fyrir dýrunum sínum og hafinu, enda trúa þau á guðinn Maui.

Daginn sem ég átti að fljúga frá Tonga fékk ég að heyra að fluginu mínu væri aflýst. Ég fór samt á flugvöllinn þar sem ég hafði ekki fengið neinn tölvupóst frá flugfélaginu um þessar breytingar. Á flugvellinum sagði starfsfólkið það sama, að fluginu væri aflýst um óákveðinn tíma af því vélin hefði ekki mætt. Þegar ég spurði af hverju þá var svarið: „Ég veit það ekki, stundum kemur flugvélin bara ekki“. Seinna fékk ég að vita að vélin kom ekki frá Fiji af því maðurinn sem dælir olíunni hefði klukkað sig út og farið heim. Fólkið á Tonga vissi þetta á undan flugfélaginu og næsta dag fékk ég mjög grunsamlegan tölvupóst sem í stóð: „Mættu á flugvöllinn klukkan þrjú“ og engin önnur skýring. Ég mætti á flugvöllinn klukkan þrjú og það var rétt. Flugvélin var komin. Mér finnst þetta lýsa svo vel fólkinu og lífinu á Tonga.“

Það var margt frumstætt á Tonga en fólkið yndislegt.
Það var margt frumstætt á Tonga en fólkið yndislegt. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir
Náttúrufegurðin er einstök.
Náttúrufegurðin er einstök. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir

Hugsar um tímann í sjónum á hverjum degi

Eyrún fer oft ein í ferðalög og gerði það líka þegar hún fór til Tonga en hún segir það hafa sína kosti að ferðast einn. 

„Ég var ein á þessu ferðalagi en kynntist fullt af fólki á Tonga sem ég hef ennþá samband við. Það er einhvern veginn auðveldara að kynnast fólki frá öðrum heimshornum þannig. Ég er alveg sjálfstæð og ræð hvert ferðinni er heitið, hvað ég geri og hvar ég borða. Mér finnst ferðalagið gefa mér meira, upplifunin er allt öðruvísi að vera ein heldur en að ferðast með einhverjum sem ég þekki.“

Eyrún segir ólýsanlegt að komast í návígi við hvali.
Eyrún segir ólýsanlegt að komast í návígi við hvali. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir

Hvað skilur ferðin helst eftir sig?

„Minningarnar og myndirnar er það sem ferðin skilur eftir sig. Síðan ég kom heim líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um þennan tíma í sjónum með hvölunum. Þessi upplifun er engri lík og langar mig virkilega að fara þangað aftur sem fyrst. Ef það væri ekki fyrir hvalina þá væri það fyrir ferska túnfiskinn og fólkið.“

Eyrún myndaði saman kýr og kálfa.
Eyrún myndaði saman kýr og kálfa. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir

Dreymir um Grænland og Suðurskautslandið

Fórstu á fleiri staði?

„Þar sem þetta var svo langt ferðalag ákvað ég að vera rúmar tvær vikur á Tonga. Á leiðinni heim stoppaði ég í Bandaríkjunum til að hitta vinkonu mína. Við skelltum okkur í roadtrip saman frá Oregon, meðfram strandlengjunni í Kaliforníu og enduðum í Los Angeles. Allt í allt var ég rúman mánuð á þessu ferðalagi.“

Ertu búin að plana fleiri ævintýri?

„Það er ekkert á dagskrá á næstunni en ég er þó með opin augun fyrir hugmyndum á samfélagsmiðlum. Mig langar mjög mikið að sigla um Grænland og Suðurskautsland. Heimsækja Socotra í Jemen og fara á snjóbretti í Japan,“ segir Eyrún að lokum. 

Í sjónum mátti sjá hvalina dansa.
Í sjónum mátti sjá hvalina dansa. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir
Eyrún fann fyrir söng hvalanna.
Eyrún fann fyrir söng hvalanna. Ljósmynd/Eyrún Lýdía Sævarsdóttir
mbl.is