Ríkissaksóknari hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að hætta rannsókn á Páli Steingrímssyni skipstjóra vegna meintra hótana.
Ríkissaksóknari hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að hætta rannsókn á Páli Steingrímssyni skipstjóra vegna meintra hótana.
Ríkissaksóknari hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að hætta rannsókn á Páli Steingrímssyni skipstjóra vegna meintra hótana.
Þetta kemur fram í ákvörðun ríkissaksóknara sem mbl.is hefur undir höndum.
Málið á rætur sínar að rekja til þess að þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Heimildinni, og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kærðu Pál haustið 2022 fyrir meintar hótanir í garð þeirra.
Páll hafði fyrr um sumarið sent þeim tölvupóst þar sem hann fór þess á leit við þá að þeir létu fyrrverandi eiginkonu hans í friði. Í umræddum tölvupósti nefndi Páll að ef ekki yrði látið af háttseminni myndi hann neyðast til að grípa til annarra ráða til að stoppa þá.
Sem kunnugt er höfðu Kjarninn og Stundin, sem nú hafa sameinast undir nafni Heimildarinnar, unnið að umfjöllun um Pál og aðra samstarfsmenn hans. Áður hefur komið fram í umfjöllun um málið að fréttir miðlanna kunni að byggja á gögnum úr síma Páls sem hafði ratað í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins (Rúv).
Nokkuð hefur verið fjallað um það mál en bæði fyrrverandi starfsmenn Rúv sem og starfsmenn Heimildarinnar hafa í dag réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglu á á meintum brotum um friðhelgi einkalífsins.*
Þeir Þórður Snær, Aðalsteinn og Stefán kærðu Pál sem fyrr segir fyrir hótanir í september 2022. Í kærum sínum sögðust þeir hafa upplifað fyrrnefndan tölvupóst sem hótun. Þá vísuðu þeir einnig til facebookfærslu Páls frá því í desember 2020 máli sínu til stuðnings.
Lögreglan tók skýrslu af Páli undir lok september 2022 þar sem hann neitaði sök. Hann sagðist hafa sent umræddan tölvupóst þar sem fyrrverandi kona hans væri að glíma við mikil veikindi og óskaði þess að fjölmiðlamennirnir hættu samskiptum við hana í ljósi þess. Þá sagðist hann hafa ætlað að beita löglegum leiðum til að stöðva ágang fjölmiðla en ekki ólöglegum leiðum.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, sem hafði málið til rannsóknar, felldi málið niður að lokinni rannsókn í lok desember 2023. Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að langsótt sé að ætla að tengja fyrrnefndan tölvupóst, sem sendur var sumarið 2022, við facebook færslu frá því í desember 2020. Ekki var litið þannig á að tölvupósturinn fæli í sér hótun sem væri til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð eins og lögin kveða á um.
„Ekki verður talið að orðalag það sem hér að ofan greinir feli í sér hótun í skilningi almennra hegningarlaga um að fremja refsiverðan verknað enda engum refsiverðum verknaði lýst,“ segir í rökstuðningi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, sem felldi sem fyrr segir niður rannsókn málsins.
Þeir Þórður Snær og Aðalsteinn kærðu þá ákvörðun til ríkissaksóknara. Athygli vekur að Stefán Eiríksson, sem sjálfur er fyrrverandi lögreglustjóri, kærði ekki ákvörðun um að fella málið niður.
Ríkissaksóknari tekur aftur á móti undir sjónarmið lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og telur ólíklegt að það orðlag sem notað sé í tölvupóstinum sé þess eðlis að heimfæra megi það undir brot í skilningi hegningarlaga sem snýr að því að hóta öðrum. Af þeirri ástæðu staðfestir ríkissaksóknari ákvörðun um að fella málið niður.
*Árétting. Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að fyrrnefndir fjölmiðlamenn, sem sagðir voru í samstarfi, hefðu réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglu á því hvernig síminn rataði í hendur fjölmiðlamanna og hvernig efni sem afritað var úr símanum var dreift í kjölfarið. Hið rétta er að þeir hafa réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglu á meintum brotum á friðhelgi einkalífsins. Beðist er velvirðingar á ónákvæmu orðalagi.