Einar Hannesson og Guðbjörg Einarsdóttir eru eigendur og stofnendur Eyju vínstofu & bistro á Akureyri. Staðurinn hefur vakið mikla athygli fyrir vönduð og góð vín ásamt vínpörun með mat.
Einar Hannesson og Guðbjörg Einarsdóttir eru eigendur og stofnendur Eyju vínstofu & bistro á Akureyri. Staðurinn hefur vakið mikla athygli fyrir vönduð og góð vín ásamt vínpörun með mat.
Einar Hannesson og Guðbjörg Einarsdóttir eru eigendur og stofnendur Eyju vínstofu & bistro á Akureyri. Staðurinn hefur vakið mikla athygli fyrir vönduð og góð vín ásamt vínpörun með mat.
Mikið er lagt upp úr persónulegri og góðri þjónustu sem og að heimsóknin á veitingastaðinn verði eftirminnileg og skapi einstaka upplifun.
Á Eyju vínstofu gegnir Einar því mikilvæga hlutverki að vera „altmuligtmand“ eða maður sem gengur í öll störf. Einar hefur alltaf haft ástríðu fyrir mat og drykk.
Fyrir nokkrum árum kviknaði áhugi hans á léttvínum, bæði eiginleikum þeirra og ekki síður sögu þeirra og víngerðarhúsanna. Síðan þá hefur hann verið að smakka sig áfram og í dag aðallega til að finna skemmtileg og sælkera vín til að bjóða upp á Eyju.
Einar er 32 ára sjávarútvegsfræðingur, viðskiptafræðingur og skipstjóri. Guðbjörg hefur gengið í flest störf sem tengjast rekstrinum, hvort sem það er að sjá um samfélagsmiðlana, bókanir, standa vaktina svo fátt sé nefnt. Hún er 28 ára með BA í frönskum fræðum og MA í alþjóðasamskiptum og má vel finna fyrir frönskum áhrifum.
Guðbjörg var búsett í Frakklandi í nokkur ár, bæði í París og Lyon og þar kviknaði einmitt áhugi hennar á vínum og matargerð. Bæði Einar og Guðbjörg velja vín sem þeim finnst góð og áhugaverð, hvort sem þau séu titluð náttúruvín eða hefðbundin vín.
„Hvert vínhús á sína sögu og aðferð, þannig að vínin sem við erum með á Eyju eru mjög ólík, og sum þeirra jafnvel einungis í boði hjá okkur hér fyrir norðan. Við elskum freyðivín og það er alltaf hægt að finna einhver áhugaverð búbbluvín í kælunum hjá okkur,“ segja Einar og Guðbjörg.
Þegar Guðbjörg er spurð um tilurð þess að þau hafi ákveðið að opna staðinn segir Guðbjörg aðspurð að sér hafi fundist vanta góðan vínbar á Akureyri sem væri með fjölbreytt úrval af vínum, sérstaklega lífrænum og bíódýnamískt ræktuðum.
„Einari hafði ávallt langað til að hefja sinn eigin rekstur og fannst því kjörið tækifæri að láta til skara skríða og fá reynslu á því sviði. Við byrjuðum strax að leita að húsnæði en fundum ekkert sem hentaði, þangað til að Hafnarstræti 90 kom á sölu. Húsnæðið kom á sölu á fullkomnum tíma og auk þess að vera draumahúsið okkar sem staðsett er á frábærum stað í miðbænum. Í félagi við foreldra Einars festum við kaup á húsinu og við tók nokkurra mánaða þrotlaus vinna við uppbyggingu staðarins í þeirri mynd sem hann er nú. Húsið var byggt árið 1898 af Kaupfélagi Eyfirðinga (KEA) og er því 126 ára, þannig að það ríkir mikill sjarmi og glæsileiki yfir þessu sögufræga húsi,“ segir Guðbjörg dreymin á svip.
Eyja vínstofa opnaði í byrjun apríl árið 2022 og hefur blómstrað síðan.
„Árið 2023 notuðum við í að þróa og móta staðinn að því sem hann er í dag. Upprunalega var hugmyndin að opna lítinn sætan vínbar með smáréttum en fljótlega breyttum við aðeins um stefnu og vorum komin út í „fine dining“ á tímabili. Það var skemmtileg og góð reynsla en heldur dýrkeypt svo við sveigðum inn á upphaflega braut og fókuserum nú á vínin og rétti sem parast vel með vínum. Það hefur gengið vonum framar og við erum alltaf að auka úrvalið bæði á vínum og smáréttum hjá okkur. Við vorum að ráða inn nýjan yfirkokk hjá okkur sem heitir Jón Arnar Ómarsson sem er í þessum töluðu orðum að hanna nýjan matseðil fyrir sumarið,“ segja Einar og Guðbjörg og eru orðin spennt að taka á móti gestum í sumar.
Þegar Guðbjörg er spurð út í nafngift staðarins segir hún að þau hafi hugsað um nærumhverfið og kosið að hafa það íslenskt nafn.
„Okkur langaði að finna hljómfagurt íslenskt nafn sem myndi sæma virðulegu húsinu vel. Húsið er jafnframt í Eyjafirði og auk þess stendur það svolítið eitt og sér eins og eyja milli húsanna í kring og er því dálítil skírskotun til þess sem ég vitna til hér framangreint. Eyja vínstofa varð fyrir valinu því við viljum fyrst og fremst fókusa á vín og hafa hlýlegt og heimilislegt andrúmsloft í húsinu sem okkur finnst nafnið bera svo vel með sér.“
Aðspurð ítrekar Guðbjörg að sérstaða staðarins er sú að þau séu með síbreytilegt úrval af vínum og lifandi vínseðil.
„Eyja er staðurinn sem að fólk getur komið og smakkað áhugaverðar tegundir af vínum í glasi og fengið sér nokkra vel valda smárétti með. Við bjóðum upp á 2-3 aðalrétti núna en aðal áherslan er á smárétti. Einnig erum við með gott úrval af bjórum og kokteilum. En markmiðið er að gestum líði vel á staðnum, fái góða og hlýlega þjónustu, ásamt eðal víni og mat. Þegar kemur að matargerðinni þá erum við með smáa- og miðlungsstóra rétti sem er tilvalið að deila eða raða saman í skemmtilegan sérsniðinn matseðil eftir smekk hvers og eins. Einnig finnst okkur gaman að ráðleggja gestum hvaða vín hentar með hverjum rétt.
Það er líka áhugavert að prófa mismunandi vín með sama réttinum og sjá hvernig bæði rétturinn og vínið breytast eftir pörun.“
Mikið var lagt upp með hönnunina á staðnum og metnaðurinn var í fyrirrúmi.
„Þegar við fórum af stað í verkefnið þá fengum við hana Sirrý Örvars með okkur í lið til að hanna og útfæra staðinn. Hún á eitt af huggulegustu heimilum norðan heiða og er sjálf mikil listakona sem hefur gott auga fyrir innanhúshönnun og glæsileika. Í samvinnu við hana gerðum við Eyju að dökkleitum, huggulegum og bistrólegum stað. Það má segja að það ríki franskur blær yfir staðnum sem gerir hann sérstaklega aðgengilegan fyrir góða vínbars stemningu.
Útkoman endaði á að vera mjög glæsileg og Eyja hefur fengið mikið lof fyrir útlit sitt og huggulegheit og það var akkúrat markmiðið. Við keyptum svarta TON stóla og ítalskar marmaraborðplötur. Sem skraut á borðunum gáfum við gömlum gylltum kertastjökum nýtt líf og við setjum blóm í litla vasa. Gólfið á Eyju er upprunalegt sem við pússuðum allt upp og máluðum og lökkuðum.
Liturinn á veggjunum og loftunum er Hrafnagrár frá Slippfélaginu og á vínstofunni prýða listaverk listakonunnar Kötlu Karlsdóttur. Hún málar konur undir nafninu Allar Heimsins Maríur. Hún valdi antíkramma fyrir myndirnar til að þær falli fullkomlega inn í gamaldags stíl hússins. Í minni salnum á Eyju má finna stærri verk eftir Vikar Mar Valsson. Bæði Katla og Vikar eru mjög hæfileikaríkar einstaklingar á sínu sviði og eru að norðan sem gerir þetta ennþá sætara,“ segir Guðbjörg og er í skýjunum með útkomuna.
Viðtökurnar á staðnum hafa verið með eindæmum góðar, bæði síðastliðið sumar og í vetur og Einar og Guðbjörg horfa björtum augum til framtíðar.
„Þetta hefur gengið vel þegar á heildina er litið. Við höfðum aldrei rekið veitingastað áður en við opnuðum Eyju þannig við renndum dálítið blint í sjóinn í byrjun en við lærðum með tímanum, bæði af mistökum, reynslunni og með góðri hjálp. Síðasta sumar byrjaði Eyja að blómstra sem veitingastaður og það er gaman að sjá hvað staðurinn er byrjaður að eignast marga fastagesti sem venja komur sínar aftur og aftur. Akureyri er með frekar árstíðabundnar vertíðir í veitingageiranum en í vetur hefur þetta verið frekar jafnt og þétt og nóg að gera um helgar. Við erum með lokað frá sunnudegi til miðvikudags vegna þess að það er yfirleitt mjög rólegt að gera á þeim dögum yfir veturinn en þá einbeitum við okkur á að taka við prívat hópum. Gaman er líka að segja frá því að við vorum að opna annan veitingastað sem heitir Mói bistro í Menningarhúsinu Hofi. Í sumar ætlum við að gera frábært útisvæði sem fólk getur komið og fengið sér ljúfenga drykki í fallegu umhverfi með útsýni á hafið. Sá staður er í 350 m göngufæri frá Eyju þannig það er um að gera byrja í fordrykk á Móa í sumar og enda síðan um kvöldið í mat og drykk á Eyju,“ segir Guðbjörg að lokum.
Á næstu dögum og vikum munu birtast leyndardómsfullar uppskriftir úr frá kokkinum í eldhúsinu sem Guðbjörgu og Einari langar að deila með lesendum matarvefsins. Vert er að fylgjast vel með og missa ekki af guðdómlegu uppskriftum sem gefa tóninn fyrir sumarið.