Fyrstu kynni Elísu Mjallar Guðsteinsdóttur og Helga Kristjánssonar voru á kaffihúsi hinn 1. ágúst árið 2017 eftir að hafa sent fáein Tinder-skilaboð sín á milli. Í dag eru þau gift, eiga saman tvö börn og reka skartgripaverslunina mjöll sem selur handsmíðaða skartgripi.
Fyrstu kynni Elísu Mjallar Guðsteinsdóttur og Helga Kristjánssonar voru á kaffihúsi hinn 1. ágúst árið 2017 eftir að hafa sent fáein Tinder-skilaboð sín á milli. Í dag eru þau gift, eiga saman tvö börn og reka skartgripaverslunina mjöll sem selur handsmíðaða skartgripi.
Fyrstu kynni Elísu Mjallar Guðsteinsdóttur og Helga Kristjánssonar voru á kaffihúsi hinn 1. ágúst árið 2017 eftir að hafa sent fáein Tinder-skilaboð sín á milli. Í dag eru þau gift, eiga saman tvö börn og reka skartgripaverslunina mjöll sem selur handsmíðaða skartgripi.
Elísa Mjöll og Helgi voru búin að vera saman í fimm ár þegar þau ákváðu að gifta sig. „Við áttum orðið tvö börn saman, heimili, fyrirtæki og ekki ennþá komin með nóg hvort af öðru, svo við vissum að við værum komin saman til að vera. Svo finnst okkur gaman að halda gott partí,“ útskýra þau.
Spurð út í bónorðið segja hjónin það hafa verið eins hversdagslegt og heimilislegt og það gerist. „Við settum upp hringa um hábjartan dag í eldhúsinu okkar yfir kaffibolla þegar dóttir okkar var um eins árs.“
Athöfnin fór fram á fallegum haustdegi 21. október 2023 í Garðakirkju í Garðabæ. „Við hefðum ekki getað verið heppnari með veður! Mjög góðir vinir okkar sungu í athöfninni og presturinn er líka tengdur okkur í gegnum fjölskyldu, þannig að þetta var mjög persónulegt, eins og við vildum hafa það. Við fórum með okkar eigin heiti sjálf sem að okkar mati gerði athöfnina,“ rifjar Elísa Mjöll upp.
„Það voru nokkur börn með í athöfninni og var dóttir okkar stór partur af deginum. Að hennar mati var hún líka að gifta sig svo hún fékk lítinn gullhring eftir að við vorum búin að setja upp okkar hringa,“ bætir hún við.
Að athöfn lokinni röltu gestirnir yfir í Garðaholt, sem er rótgróið félagsheimili rétt hjá Garðakirkju, þar sem veislan var haldin. „Við vorum búin að fara í myndatöku fyrir athöfnina þannig að gestirnir þurftu ekki að bíða lengi eftir okkur. Okkur fannst þessi staðsetning, Garðakirkja og Garðaholt, bjóða upp á mikla sveitatilfinningu.
Kirkjan er rétt við sjóinn og hestar og gæsir á túnunum í kring. Bestu vinir okkar voru veislustjórar. Þau eru fæddir skemmtikraftar sem þekkja okkur betur en við sjálf sem gerði veisluna svo skemmtilega og eftirminnilega,“ segir Elísa Mjöll.
Hvað stóð upp úr á brúðkaupsdaginn?
„Dagurinn frá a til ö. Það kom okkur báðum svo á óvart hvað dagurinn sprengdi alla tilfinningaskala. Við vorum umkringd okkar besta fólki sem við erum svo þakklát fyrir og þetta var hreinlega fullkominn dagur. Þetta verður alltaf einn eftirminnilegasti dagur lífs okkar! Við undirbúninginn reyndum við að vera eins meðvituð og við gátum um það að hafa daginn persónulegan og í okkar anda. Það var okkur mikilvægt og lukkaðist nokkuð vel.“
Hvernig föt urðu fyrir valinu á brúðkaupsdaginn?
„Ég var í stílhreinum By Malina-kjól úr Loforði sem er opinn í bakið og hátt upp í hálsinn að framanverðu. Skórnir voru ólífugrænir og þaktir perlum. Helgi var í sérsaumuðum jakkafötum með vesti og slaufu og í breskum leðurskóm.“
Hvernig giftingarhringar urðu fyrir valinu?
„Við völdum klassíska giftingarhringa sem voru að sjálfsögðu smíðaðir í mjöll. “
Hvernig brúðarskart varst þú með?
„Ég var með lafandi perlulokka sem ég smíðaði sérstaklega fyrir brúðkaupið. Þeir eru mjög líkir lokkum sem við bjóðum upp á í mjöll en ég bætti bara við nokkrum perlum. Þegar maður smíðar skartgripina sjálfur þá er maður alltaf eitthvað að breyta til!“
Elísa Mjöll og Helgi stofnuðu mjöll árið 2019 og hafa í dag opnað tvær verslanir, annars vegar í Hamraborg í Kópavogi og hins vegar á Laugavegi í miðbæ Reykjavíkur. Tímalaus og falleg hönnun einkennir skartgripina sem Elísa Mjöll hannar og smíðar ásamt teymi sínu á verkstæðum sem eru til húsa aftan við verslunarrýmin.
Á þessum árstíma er nóg að gera hjá hjónunum í mjöll, en þau eru með úrval af fallegu skarti fyrir stóra daginn, allt frá trúlofunar- og giftingarhringum yfir í brúðarskart úr sérstakri brúðarlínu sem var hönnuð með tímalausan glæsileika í huga. Þá bjóða þau einnig upp á ráðgjöf fyrir brúðhjón í verslunum sínum.
Aðspurð segir Elísa Mjöll mikilvægt að hönnun trúlofunar- og giftingarhringa sé tímalaus og að skartgripirnir séu smíðaðir úr gæðaefnum. „Trúlofunar- og giftingarhringar eru hringar sem þú leggur upp með að ganga með alla ævi og tekur sjaldnast af þér, þannig að það er mikilvægt að velja hönnun sem stendur af sér alla tískustrauma og að hringarnir séu smíðaðir úr eðalmálmum sem þola vel hversdagsnotkun.
Það er mikilvægt að hugsa ekki um hvað aðrir gera eða hvað sé vinsælt, heldur velja út frá ykkur, sem einstaklingar og sem par, hvað þið viljið. Það er enginn annar en þið að fara að ganga með giftingarhringana ykkar,“ útskýrir hún.
Að mati Elísu Mjallar er mikilvægt að brúðarskartið tali vel við kjólinn eða fötin sem brúðurin ætlar að vera í. „Að mínu mati er líka mjög gott að hafa það í huga að velja skartgripi sem þú sérð fram á að nota áfram eftir brúðkaupið. Ég nota mína eyrnalokka reglulega og verður mér alltaf hugsað til brúðkaupsins þegar ég set þá upp, sem mér finnst mjög gaman,“ segir hún.
Í brúðarlínunni hjá mjöll eru perlur ríkjandi, bæði reglulegar og óreglulegar, en að sögn Elísu Mjallar hafa perlur verið afar vinsælar undanfarin ár og eru það enn. „Núna er kannski meira um stórar, óreglulegar perlur. Það getur verið mjög skemmtilegt að velja sér einn „statement’“-skartgrip sem talar vel við brúðarkjólinn,“ segir hún.
„Mér finnst perlur svo tímalausar og „elegant“, þær virka ótrúlega vel við hvíta eða ljósa brúðarkjóla. Ég vildi hanna lafandi eyrnalokka sem gefa smá hreyfingu, þannig að þeir njóti sín þegar gengið er inn kirkjugólf eða tjúttað á dansgólfinu,“ bætir hún við.
„Við hönnun á hálsmenunum í brúðarlínunni hafði ég í huga að hálsmálið á brúðarkjólum getur verið mjög mismunandi og maður vill að hálsmenið og kjóllinn tali vel saman. Svo finnst mér armbönd oft vanmetin, en það getur verið mjög fallegt við ermalausa kjóla, t.d. að hafa fíngert armband sem dansar á úlnliðnum,“ segir Elísa Mjöll um hönnunina.
Bæði Elísa Mjöll og Helgi minnast brúðkaupsdagsins með hlýhug og skemmtu sér konunglega. „Það var sjúklega gaman að gifta okkur og halda brúðkaup. Við mælum með því!“ segja þau að lokum.