Tilkynningum um mansal til lögreglu fjölgað

Matvælalager í Sóltúni 20 | 15. apríl 2024

Tilkynningum um mansal til lögreglu fjölgað

Rannsókn á hugsanlegu mansali, peningaþvætti og skipulagðri brotastarfsemi miðar ágætlega, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.

Tilkynningum um mansal til lögreglu fjölgað

Matvælalager í Sóltúni 20 | 15. apríl 2024

Davíð Viðarsson hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 5. mars.
Davíð Viðarsson hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 5. mars. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Rannsókn á hugsanlegu mansali, peningaþvætti og skipulagðri brotastarfsemi miðar ágætlega, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.

Rannsókn á hugsanlegu mansali, peningaþvætti og skipulagðri brotastarfsemi miðar ágætlega, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.

Þá hefur tilkynningum til lögreglu vegna gruns um mansal fjölgað að undanförnu. Grímur vill þó ekki gefa upp hvort formleg rannsókn lögreglu sé hafin í tengslum við þær tilkynningar.

Túlkaþjónusta og forrit koma að góðum notum

Yfirheyrslur standa nú yfir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á viðskiptaveldi Davíðs Viðarssonar, áður Quang Lé. Er hann grunaður um mansal, peningaþvætti og skipulagða brotastarfsemi.

Að sögn Gríms hefur „að langmestu leyti“ gengið vel að fá fólk til að tjá sig. Alltaf séu þó einhverjir sem kjósa að ræða ekki við lögreglu.

Þá hafa tungumálaörðugleikar sett strik í reikninginn við yfirheyrslur en lögregla hefur bæði notast við þjónustu túlka og túlkunarforrits til að takast á við það vandamál. 

Í gæsluvarðhaldi í sex vikur

Davíð, fyrrverandi eiginkona hans, og bróðir Davíðs, hafa setið í gæsluvarðhaldi í tæpar sex vikur, eða frá 5. mars.

Fjölda veitingastaða í eigu Davíðs var lokað í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu sama dag, auk hótels og gistiheimilis sem hann rak sömuleiðis.

„Það hafa engin önnur fyrirtæki verið undir þessari rannsókn heldur en þau sem voru á sínum tíma,“ segir Grímur.

Vakning hjá fólki

Hefur lögregla verið að fá fleiri ábendingar núna um önnur hugsanleg mansalsmál?

„Já, það er óhætt að segja það að það hefur orðið vakning – fólk er með tilkynningar til okkar. Hver einasta tilkynning fær skoðun. Svo verður það metið í hvert sinn hvort farið er af stað í rannsókn.“

Hann segir tilkynningarnar ekki eingöngu bundnar við veitingageirann en kvaðst þó ekki geta upplýst frekar um hvers eðlis þær væru. Þá vildi hann ekki veita upplýsingar um hvort formleg rannsókn væri hafin á öðru máli 

„Það er bara dálítið erfitt fyrir mig að tjá mig um það, satt að segja.“

mbl.is