Niðurstaða MDE kallar á breytingar

Alþingiskosningar 2021 | 16. apríl 2024

Niðurstaða MDE kallar á breytingar

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir mína umbjóðendur en á sama tíma býsna hryggileg, að það gangi dómur hjá Mannréttindadómstólnum á broti á þessari kjarnareglu lýðræðisríkja um frjálsar kosningar.“

Niðurstaða MDE kallar á breytingar

Alþingiskosningar 2021 | 16. apríl 2024

Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður.
Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir mína umbjóðendur en á sama tíma býsna hryggileg, að það gangi dómur hjá Mannréttindadómstólnum á broti á þessari kjarnareglu lýðræðisríkja um frjálsar kosningar.“

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir mína umbjóðendur en á sama tíma býsna hryggileg, að það gangi dómur hjá Mannréttindadómstólnum á broti á þessari kjarnareglu lýðræðisríkja um frjálsar kosningar.“

Þetta segir Sig­urður Örn Hilm­ars­son, lögmaður þeirra Magnúsar D. Norðdahl og Guðmundar Gunnarssonar sem fögnuðu fullnaðarsigri fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu gegn ís­lenska rík­inu.

Samkvæmt Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu braut íslenska ríkið gegn rétti borg­ara til frjálsra kosn­inga sem og gegn meg­in­reglu um skil­virk réttar­úr­ræði í kosn­ing­un­um til Alþing­is árið 2021.

Niðurstaðan kom ekki á óvart

Sigurður segir niðurstöðuna vera í samræmi við þau sjónarmið sem þeir tefldu fram í málinu bæði hérlendis og fyrir Mannréttindadómstólnum.

„Það hefði verið skynsamlegt ef það hefði verið hlustað betur á þeirra sjónarmið strax í upphafi. Þannig hefði kannski verið hægt að draga úr og minnka áhrifin af þeirri stöðu sem var upp komin.“

Sigurður segir það skipta máli í framhaldinu að allir sem eiga hlut að málinu, hvort sem það er löggjafinn eða ráðuneytin, gaumgæfi þessa úrlausn og vandi til verka þegar kemur að úrvinnslunni. 

Niðurstaðan kom honum ekki á óvart. Hann og umbjóðendur hans hefðu alltaf verið vissir um að einhverjir annmarkar hefðu verið á framkvæmd kosninganna og töldu þeir nauðsynlegt að fá úr því skorið og klára þannig málið. 

„Þetta hefur alltaf verið prinsippmál hjá mínum umbjóðendum. Ég held að þeim hafi ekki fundist annað hægt en að láta á þetta reyna, gera það litla sem þeir þó gátu gert, og fara með málið til Mannréttindadómstólsins. 

Alþingismenn skera sjálfir úr um kjör sitt

Spurður hvort dómurinn kalli á einhverjar breytingar á stjórnarskrá segir Sigurð svo vera. Hann segir það regluverk sem er nú í gildi vera ósamræmanlegt þeim meginreglum sem voru til skoðunar hjá Mannréttindadómstólnum.

„Það gengur ekki til framtíðar að alþingismönnum sé falið að skera sjálfir úr um kjör sitt, sérstaklega þegar upp geta komið svona ágallar á kosningum.“ 

Dómurinn kallar á breytingar

Þá segir Sigurður að forsætisráðuneytið og fyrrverandi forsætisráðherra hafi unnið að breytingum á stjórnarskránni, þar með talið á greinargerð um alþingiskafla stjórnarskrárinnar. Þar eru tillögur um breytingar á þessu fyrirkomulagi þar sem lagt er til að úrskurðarvaldið verði fært frá Alþingi til Hæstaréttar.

Spurður hvort hann telji það nauðsynlegt í ljósi niðurstöðu dagsins segist hann eiga erfitt með að sjá hvað annað væri hægt að gera, en miklu máli skipti að vanda til verka. 

Varðandi næstu skref segir Sigurður þau verða að koma í ljós. Dómurinn hafi verið birtur í morgun og nú taki við að rýna vel í niðurstöðuna og forsendur hennar. 

mbl.is