„Ég á þetta ekki, ég má þetta“

Dagmál | 18. apríl 2024

„Ég á þetta ekki, ég má þetta“

Enn harðnar hnútukastið milli fráfarandi bankaráðs Landsbankans og formanns stjórnar Bankasýslu ríkisins.

„Ég á þetta ekki, ég má þetta“

Dagmál | 18. apríl 2024

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 0:00
Loaded: 0%
Stream Type LIVE
Remaining Time 0:00
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
    • Quality

    Enn harðnar hnútukastið milli frá­far­andi bankaráðs Lands­bank­ans og for­manns stjórn­ar Banka­sýslu rík­is­ins.

    Enn harðnar hnútukastið milli frá­far­andi bankaráðs Lands­bank­ans og for­manns stjórn­ar Banka­sýslu rík­is­ins.

    Það ger­ist í kjöl­far ít­ar­legs viðtals við Tryggva Páls­son, formann stjórn­ar Banka­sýsl­unn­ar í Dag­mál­um sem birt var á mbl.is á miðviku­dag.

    Í kjöl­far þess sá bankaráð Lands­bank­ans sig knúið til þess að bregðast við og sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu, enda ljóst að þeir sem það skipa telja vegið að mann­orði sínu í þess­um hjaðninga­víg­um sem eiga sér vart hliðstæðu í ís­lenskri banka­sögu.

    And­ar köldu

    Ekki er laust við að köldu hafi andað milli bankaráðsins og Banka­sýsl­unn­ar síðustu vik­ur en allt ætlaði um koll að keyra þegar Lands­bank­inn til­kynnti það 17. mars að hann hefði fest kaup á Trygg­inga­fé­lag­inu TM fyr­ir tæpa 30 millj­arða króna. Selj­and­inn er Kvika banki.

    Þótti mörg­um sér­stakt að þessi viðskipti hefðu gengið í gegn, ekki síst í ljósi þess að þáver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, hafði nokkru áður lýst þeirri ein­dregnu skoðun sinni, í hlaðvarpi Þjóðmála, að hún væri mót­fall­in því að bank­inn keypti TM.

    Vísaði hún í því sam­bandi til stefnu stjórn­valda um að minnka um­svif hins op­in­bera á fjár­mála­markaði.

    Þá hef­ur síðar verið upp­lýst að Þor­dís Kol­brún átti fund með Lilju Björk Ein­ars­dótt­ur, banka­stjóra Lands­bank­ans þann 21. fe­brú­ar þar sem hún ít­rekaði þá skoðun sína að hún teldi ekki rétt að auka um­svif rík­is­ins á fjár­mála­markaði. Átti sá fund­ur sér stað degi fyr­ir bankaráðsfund.

    Hef­ur Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar spurt hvort þarna megi glitta í bein af­skipti ráðherra af bank­an­um, en Banka­sýslu rík­is­ins var komið á fót upp­haf­lega til að tryggja „arms­lengd“ milli stjórn­mál­anna og þeirra fjár­mála­fyr­ir­tækja sem enduðu í fangi rík­is­ins í kjöl­far banka­áfalls­ins 2008.

    Í fyrr­nefndu viðtali í Dag­mál­um lét Tryggvi Páls­son þau orð falla að margt í þessu máli benti til þess að viðhorf stjórn­enda Lands­bank­ans væri það að þótt þeir ættu ekki bank­ann þá gætu þeir farið sínu fram.

    Ræður eig­and­inn för?

    Í kjöl­far banka­hruns­ins, þegar stærstu eig­end­ur end­ur­reistra banka voru skila­nefnd­ir í nafni kröfu­hafa, varð vart við þá hugs­un meðal stjórn­enda bank­anna að þeir gætu farið sínu fram án þess að spyrja kóng eða prest. Tryggvi er í viðtal­inu spurður hvort eimt hafi eft­ir af slík­um þan­ka­gangi í Lands­bank­an­um þegar bankaráðið lagði fram skuld­bind­andi til­boð í trygg­inga­fé­lagið TM þann 15. mars síðastliðinn.

    „Ég vil ekki al­veg full­yrða það. En þó er rétt að rifja upp hvert var mottóið fyr­ir hrun hjá ýms­um. Það var, „ég á það, ég má það“. Spurn­ing­in er, er nýtt að „ég á það ekki en ég má það?“

    Ljóst er að það stefnir í kraftmikinn aðalfund Landsbankans á …
    Ljóst er að það stefn­ir í kraft­mik­inn aðal­fund Lands­bank­ans á morg­un.

    Nokk­ur umræða skapaðist um af­stöðu stjórn­enda bank­ans til þess hver ráði í raun för á þeim bæn­um, dag­inn sem til­kynnt var um kaup­inn. Voru það ekki síst um­mæli banka­stjór­ans, Lilju Bjark­ar Ein­ars­dótt­ur, sem rýnt var í.

    Hafði hún í há­deg­is­frétt­um RÚV verið spurð að því hvort eðli­legt væri að rík­is­banki stæði í fjár­fest­ingu af þessu tagi á trygg­inga­markaði, ákvað hún að út­skýra hvernig í eign­ar­hald­inu lægi. Full­yrti hún að Lands­bank­inn væri ekki rík­is­banki held­ur al­menn­ings­hluta­fé­lag þar sem rík­is­sjóður væri mjög stór hlut­hafi.

    Að vera, eða ekki vera

    Var Ásgeir Jóns­son, seðlabanka­stjóri, innt­ur viðbragða við þessu í þætt­in­um Spurs­mál­um nokkr­um dög­um síðar og tók hann þar af all­an vafa um að Lands­bank­inn væri í raun rík­is­banki eft­ir allt sam­an.

    Tvö atriði sem skera í aug­un

    Tvennt hef­ur verið nefnt til sög­unn­ar til marks um að bankaráðið hafi viljað tryggja kaup­in á TM án þess að eig­and­inn eða Banka­sýsl­an fyr­ir hans hönd, gæti brugðist við. Ann­ars veg­ar sú staðreynd að til­boðið sem Lands­bank­inn gerði Kviku í fyr­ir­tækið var fyr­ir­vara­laust, þ.e. að ekki var gerður áskilnaður um samþykki hlut­hafa­fund­ar Lands­bank­ans fyr­ir kaup­un­um.

    Hitt er, og það nefndi Tryggvi sér­stak­lega í viðtal­inu, að stjórn­end­ur bank­ans ákváðu að ráðast í skulda­bréfa­út­gáfu til að fjár­magna kaup­in á TM í stað þess að kanna t.d. mögu­leik­ann á hluta­fjáraukn­ingu sem einnig hefði verið fær leið. Fyrr­nefnda leiðin var þeirr­ar gerðar að ekki þurfti að leita til hlut­hafa, en með hluta­fjáraukn­ingu hefði alltaf komið til þeirra kasta. Þar er rík­is­sjóður með hvorki meira né minna en 98,2% hlut.

    Í fyrr­nefndri yf­ir­lýs­ingu frá­far­andi bankaráðs er sér­stak­lega tekið fram að skulda­bréfa­leiðin hafi ekki verið far­in í því augnamiði sem Tryggvi gef­ur til kynna, held­ur aðeins til þess að styrkja eig­in­fjár­grunn fyr­ir­tæk­is­ins. Sagði m.a. í yf­ir­lýs­ing­unni:

    „Sú leið var val­in vegna þess að hún er til þess fall­in að viðhalda getu bank­ans til að greiða reglu­leg­ar arðgreiðslur til framtíðar, í sam­ræmi við mark­mið eig­anda­stefnu rík­is­ins. Þessi leið var tal­in hag­stæðust fyr­ir bank­ann og eig­end­ur hans. Ekki var þörf á út­gáfu nýs hluta­fjár, enda verða eig­in­fjár­hlut­föll bank­ans vel yfir lög­bundn­um mörk­um og mark­miðum bank­ans.“

    Var Banka­sýsl­an upp­lýst?

    Í mál­inu öllu hef­ur verið deilt um hvort bankaráð Lands­bank­ans hafi upp­lýst Banka­sýsl­una um fyr­ir­huguð kaup með þeim hætti sem kveðið er á um að það geri sam­kvæmt samn­ingi sem gerður var árið 2010 og varðar sam­skipti rík­is­ins sem eig­anda við hinn end­ur­reista banka.

    Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
    Lilja Björk Ein­ars­dótt­ir er banka­stjóri Lands­bank­ans. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

    Banka­sýsl­an, bæði formaður stjórn­ar og for­stjóri, hafa haldið því fram að ekk­ert hafi verið upp­lýst um fyr­ir­ætl­an bank­ans. Því hafnaði bankaráðið og í bréfa­skipt­um sem af mál­inu leiddu vísaði formaður bankaráðsins til sím­tals milli sín og Tryggva Páls­son­ar þann 20. des­em­ber í fyrra þar sem hún upp­lýsti hann um áhuga Lands­bank­ans á TM.

    Hef­ur Tryggvi bent á að sím­talið hafi varað í þrjár mín­út­ur og fyrst og fremst snú­ist um launa­bón­us til starfs­fólks bank­ans. Ekk­ert hafi komið þar fram um skuld­bind­andi til­boð. Í fyrr­nefndu viðtali í Dag­mál­um lýs­ir hann auk þess undr­un á því að Lands­bank­inn, stærsta fjár­mála­fyr­ir­tæki lands­ins, hafi tekið ákvörðun sem þessa, í trássi við aug­ljós­an vilja eig­and­ans og ekki bókað nokkuð um málið í sam­skipt­um við Banka­sýsl­una. Ekki sé að finna nein tölvu­póst­sam­skipti, bréf eða annað slíkt sem geri mönn­um kleift að rekja málið.

    Trúnaðarbrest­ur

    Viðskipt­in með TM hafa leitt af sér djúp­stæðan trúnaðarbrest milli bankaráðs Lands­bank­ans ann­ars veg­ar og Banka­sýsl­unn­ar og rík­is­sjóðs hins veg­ar. Þáver­andi fjár­málaráðherra var raun­ar mjög af­drátt­ar­laus í sín­um viðbrögðum og sagði að kaup­in myndu ekki ganga í gegn með sínu samþykki. Síðan þá hef­ur Þór­dís Kol­brún haft stóla­skipti við Sig­urð Inga Jó­hanns­son, formann Fram­sókn­ar­flokks­ins. Hef­ur hann verið nokkuð loðnari í svör­um og sagt að málið sé í hönd­um nýs bankaráðs.

    En skip­an þess hef­ur einnig valdið nokkr­um titr­ingi. Í kjöl­far þess að til­kynnt var um kaup­in á TM krafðist Banka­sýsl­an þess að aðal­fundi Lands­bank­ans, sem halda átti í mars, yrði frestað. Í kjöl­farið gerði Banka­sýsl­an nýja til­lögu um stjórn og í stað þess að skipta út hluta bankaráðins er til­lag­an sú að ryðja aðal­bekk­inn með öllu.

    Hef­ur Banka­sýsl­an til­nefnt sjö nýja aðal­menn í ráðið en auk þeirra hafa þau Ásgeir Brynj­ar Torfa­son og Krist­ín Vala Ragn­ars­dótt­ir til­kynnt um fram­boð til bankaráðsins. Í ljósi þess að Banka­sýsl­an fer með 98,2% hlut í bank­an­um fyr­ir hönd rík­is­sjóðs verður að telj­ast helst til bjart­sýnt af hálfu hinna tveggja síðast­nefndu að sækj­ast eft­ir sæti í ráðinu.

    Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans eru með glæsilegustu byggingum landsins. Ætli TM …
    Nýj­ar höfuðstöðvar Lands­bank­ans eru með glæsi­leg­ustu bygg­ing­um lands­ins. Ætli TM verði komið fyr­ir í sömu sal­arkynn­um? mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

    Nokkra at­hygli vek­ur að þótt all­ir aðal­menn­irn­ir hverfi úr bankaráðinu þá mun Sig­urður Jón Björns­son, sem setið hef­ur sem varamaður í því, sitja sem fast­ast í því sæti sínu. Ekki hafa komið fram nein­ar skýr­ing­ar á því af hverju hann sit­ur þar einn eft­ir en senni­legt má telja að hann hafi ekki haft neina aðkomu að ákvörðun­inni um kaup­in á TM og því ekki í hópi þeirra sem Banka­sýsl­an telji bera rík­asta ábyrgð í mál­inu.

    Hver er staða banka­stjór­ans?

    Tals­vert er skrafað um stöðu Lilju Bjark­ar Ein­ars­dótt­ur, banka­stjóra, í kjöl­far þessa at­gangs alls. Ljóst er að nýtt bankaráð þarf að taka af­stöðu til henn­ar verka og annarra stjórn­enda bank­ans, í tengsl­um við kaup­in á TM.

    Tryggvi Páls­son hef­ur verið af­drátt­ar­laus um að Banka­sýsla rík­is­ins álíti það ekki hlut­verk sitt að hlutast til um það hver stýri bank­an­um frá degi til dags. Það sé í verka­hring bankaráðsins. Í þessu til­liti er Tryggvi öll­um hnút­um kunn­ug­ur, enda var hann stjórn­ar­formaður Lands­bank­ans á sín­um tíma, m.a. þegar skarst í odda vegna brottrekst­urs Steinþórs Páls­son­ar úr stóli banka­stjóra.

    Sagði þá allt bankaráðið af sér, utan tveggja full­trúa sem sátu sem fast­ast. Ann­ar þeirra full­trúa var Helga Björk Ei­ríks­dótt­ir, frá­far­andi formaður bankaráðsins, sem nú hef­ur lent sam­an við fyrr­um sam­stjórn­ar­mann sinn, Tryggva Páls­son.

    Ekki gott að skipta allri áhöfn­inni út

    Í sam­töl­um sem mbl.is hef­ur átt við gam­al­reynda ein­stak­linga á banka­markaði hef­ur komið fram að það styrki nokkuð stöðu Lilju Bjark­ar að nú hafi verið ákveðið að skipta öllu bankaráðinu út. Ekki þyki traust­vekj­andi að yfir bank­ann verði sett­ur hóp­ur stjórn­ar­manna og æðsta stjórn­anda sem all­ir séu nýir við borðið.

    Hins veg­ar verður að taka til­lit til þess að stjórn­in nýja er langt í frá reynslu­laus. Jón Þ. Sig­ur­geirs­son á að baki ára­tuga lang­an fer­il í ís­lensku banka­kerfi og á alþjóðavett­vangi og margþætt reynsla kem­ur inn með hinum bankaráðsmönn­un­um sex.

    Hvað sem þess­um vanga­velt­um líður er ljóst að það stefn­ir í kraft­mik­inn aðal­fund Lands­bank­ans á morg­un og ekki örgrannt um að nokkur­ar spennu gæti fyr­ir hon­um. Þykir lík­legt að stríðandi fylk­ing­ar inn­an bank­ans og utan muni vilja koma sín­um sjón­ar­miðum á fram­færi við þetta til­efni. Ger­ist það, mun mbl.is flytja les­end­um frétt­ir af vett­vangi.

    Dr. Ásgeir Brynjar Torfason hefur boðið sig fram í stjórn …
    Dr. Ásgeir Brynj­ar Torfa­son hef­ur boðið sig fram í stjórn Lands­bank­ans. Hann er ekki í hópi hinna til­nefndu frá Banka­sýsl­unni. Ljós­mynd/​Krist­inn Ingvars­son
    mbl.is