Bæði bankaráðsmenn og starfsfólk Landsbankans unnu að undirbúningi að tilboði í TM af fullum heillindum, að mati Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, fráfarandi formanns bankaráðs.
Bæði bankaráðsmenn og starfsfólk Landsbankans unnu að undirbúningi að tilboði í TM af fullum heillindum, að mati Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, fráfarandi formanns bankaráðs.
Bæði bankaráðsmenn og starfsfólk Landsbankans unnu að undirbúningi að tilboði í TM af fullum heillindum, að mati Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, fráfarandi formanns bankaráðs.
Telur ráðið kaupin vera góða fjárfestingu, en það sé miður að kaupin hafi orðið jafn umdeild og raun bar vitni.
Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Helgu á aðalfundi Landsbankans í dag. Hún sagðist harma það að „stjórnarformaður Bankasýslunnar vegi að bankaráðsmönnum í fjölmiðlum með orðum sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem aðdróttunum. Ég skora á Bankasýsluna að fjalla um þetta mál á ábyrgari hátt en gert hefur verið þannig að það skaði starfsemi bankans ekki frekar.“
Helga sagði að bankaráð hafi lengi velt fyrir sér kostum þess að kaupa eða stofna tryggingafélag.
Bankastjóra Landsbankans hafi verið falið að að kanna möguleika á kaupum á TM af Kviku, eftir að kom í ljós að Kvika myndi ekki sameinast Íslandsbanka, síðasta sumar. Þær viðræður skiluðu ekki árangri.
Kvika tilkynnti formlegt söluferli á TM 16. nóvember 2023. Áætlað var af bankaráði að sú fjárfesting gæti skilað Landsbankanum innri ávöxtun umfram 18%.
„Með því að grípa frekari samlegðartækifæri yrði fjárfestingin enn álitlegri. Eftir að við birtum greinargerðina bauð bankaráð Bankasýslunni að fá ítarlegri kynningu en stofnunin þáði ekki það boð,“ sagði Helga.
Hún sagði einnig að bankaráð væri ósammála gagnrýni sem beinst hefur að því að kaupin á tryggingafélaginu séu andstæð eigendastefnu ríkisins.
Grundvöllur viðskiptanna hafi verið að hámarka virði eignarhluta ríkisins í Landsbankanum í samræmi við eigandastefnuna.
„Þótt Landsbankinn sé nánast að öllu leyti í eigu ríkisins, er honum í eigandastefnunni gert að starfa á markaðsforsendum og hlýtur því að taka fullan þátt í samkeppni á fjármálamarkaði, hér eftir sem hingað til.
Ætli Landsbankinn sér ekki að starfa líkt og hvert annað fyrirtæki á samkeppnismarkaði, er hættan sú að smátt og smátt dragist hann aftur úr keppinautum sínum sem ekki eru bundnir af sömu takmörkunum.
Ef hluthafar telja hlutverk Landsbankans eiga að vera annað og að hann eigi ekki að taka fullan þátt í samkeppni á fjármálamarkaði og á markaðsforsendum er nauðsynlegt að sú stefnumörkun komi skýrt fram með breytingu á tilgangi félagsins í samþykktum eða með annarri ákvörðun á hluthafafundi.“
Helga segir umgjörð um rekstrarfyrirkomulag bankans og fyrirkomulag samskipta hafa verið skýr. Engar athugasemdir hafi borist frá Bankasýslunni fyrr en eftir að tilboðsferli lauk.
„Síðastliðið sumar létum við Bankasýsluna vita af því að bankinn ætti í viðræðum við Kviku um kaup á TM. Í desember síðastliðnum létum við vita af því að bankinn hefði gert óskuldbindandi tilboð í TM.
Í hvorugu tilfellinu lét Bankasýslan í ljós þá skoðun sína að möguleg kaup bankans á TM stönguðust á við eigandastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Hún gerði ekki heldur aðrar athugasemdir, bað um frekari gögn eða óskaði eftir að hlutirnir væru gerðir með tilteknum hætti fyrr en eftir að tilboðsferlinu lauk.“
Helga brást við gagnrýni þess efnis að tilboðið hafi ekki verið lagt fram með fyrirvara um samþykki hluthafafundar.
Það hafi verið mat allra þeirra sem komu að málinu að tilboð sem fæli í sér greiðslu með peningum eingöngu myndi styrkja tilboð bankans.
„Ekki var þörf á útgáfu nýs hlutafjár, enda verða eiginfjárhlutföll bankans vel yfir lögbundnum mörkum. Af þeim sökum einum var ekki gert ráð fyrir samþykki hluthafafundar.“