Tíramisú frægasti ítalski eftirrétturinn

Uppskriftir | 20. apríl 2024

Tíramisú frægasti ítalski eftirrétturinn

Uppskriftin fyrir helgarbaksturinn að þessu sinni kemur úr smiðju Finns Guðbergs Ívarssonar verðandi bakara en hann hefur reglulega opnað uppskriftabækur sínar fyrir lesendum Morgunblaðsins.

Tíramisú frægasti ítalski eftirrétturinn

Uppskriftir | 20. apríl 2024

Tíramisú er dásamlegur eftirréttur, bæði léttur og sætur, fullkominn til …
Tíramisú er dásamlegur eftirréttur, bæði léttur og sætur, fullkominn til að njóta eftir þunga máltíð. mbl.is/Árni Sæberg

Uppskriftin fyrir helgarbaksturinn að þessu sinni kemur úr smiðju Finns Guðbergs Ívarssonar verðandi bakara en hann hefur reglulega opnað uppskriftabækur sínar fyrir lesendum Morgunblaðsins.

Uppskriftin fyrir helgarbaksturinn að þessu sinni kemur úr smiðju Finns Guðbergs Ívarssonar verðandi bakara en hann hefur reglulega opnað uppskriftabækur sínar fyrir lesendum Morgunblaðsins.

Finnur hefur mikið dálæti á að vinna með hágæðahráefni og nýta það vel. Hann elskar að baka og matreiða fyrir sig og sína og er iðinn við að bjóða upp á heimagerðar kræsingar. Finnur er líka listrænn og ber kræsingarnar sínar ávallt fram á fallegan og aðlaðandi hátt.

Finnur sviptir hér hulunni af sinni uppáhaldsuppskrift að tíramisú sem er tilvalið að bjóða upp á í eftirrétt í matarboðinu um helgina. Uppskriftin er hugsuð fyrir tólf en það er lítið mál að helminga uppskriftina. En af hverju tíramisú? Finnur heldur mikið upp á ítalska eftirrétti og sérstaklega tíramisú sem hefur farið sigurför um heiminn.

Finnur Guðberg Ívarsson verðandi bakari er listrænn og vandvirkur og …
Finnur Guðberg Ívarsson verðandi bakari er listrænn og vandvirkur og hefur mikið dálæti á því að bera fram fallegar kræsingar fyrir sig og sína. mbl.is/Árni Sæberg

Upprunalega frá Norður-Ítalíu

Tíramisú er upprunalega frá norðurhluta Ítalíu og sérstaklega borginni Veneto og svæðinu í kring. Tíramisú er einn vinsælasti ítalski eftirrétturinn og löngu orðinn vinsæll um allan heim eins og áður sagði. Hann er uppbyggður með kexi sem hefur legið í kaffi, oft kallað ladyfingers eða frúarfingur, síðan kremi úr mascarpone-osti og rétturinn er ávallt toppaður með kakódufti.

„Sumir telja að tíramisú eigi að vera stíft eins og hlaup en aðrir að það eigi að vera meira laust í sér og kremað.

Ég persónulega er á þeirri skoðun og finnst það bæði bragðbetra og áferðin einnig skemmtilegri. Aftur á móti verður það ekki alveg eins fallegt en þá er hægt að setja eftirréttinn í lítil glös í stað eldfasts móts ef maður vill hafa þetta meira fyrir augað,“ segir Finnur og hvetur hvern og einn til að hafa sinn háttinn á hvernig rétturinn er framreiddur.

Þegar verið er að leggja lokahönd á verkið og strá …
Þegar verið er að leggja lokahönd á verkið og strá kakódufti yfir tíramisúið verður löngunin sterk í þennan ítalska eftirrétt sem slær öll met. mbl.is/Árni Sæberg

Tíramisú

Fyrir 12

Frúarfingur (ladyfingers)

  • 120 g sykur
  • 4 egg
  • 140 g hveiti
  • 30 g kartöflumjöl

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 210° C.
  2. Skiljið eggjarauður frá -hvítunum og setjið rauðurnar til hliðar.
  3. Setjið eggjahvítur og sykur saman í hrærivél og þeytið eins og marens.
  4. Bætið síðan rauðunum út í í nokkrum hlutum og hafið hrærivélina á meðalhraða.
  5. Hrærið síðan hveiti og kartöflumjöl varlega saman við blönduna með sleikju.
  6. Takið síðan blönduna og setjið í sprautupoka og sprautið í lengjur á smjörpappír eða smyrjið út ef þið eigið ekki sprautupoka.
  7. Stráið síðan sykri yfir deigið og bakið í 10-15 mínútur eða þar til lengjurnar eru eins og svampur viðkomu.

Mascarpone-krem

  • 8 eggjarauður
  • 240 g sykur
  • saltklípa
  • 400 g mascarpone-ostur
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 300 ml rjómi

Aðferð:

  1. Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan verður til létt og ljós.
  2. Bætið marscarpone og vanilludropum út í og þeytið í 1-2 mínútur.
  3. Hellið loks rjómanum út í, ísköldum og óþeyttum, í mjórri bunu og hafið hrærivélina á miðlungshraða.
  4. Þeytið í 2-4 mínútur eða þar til blandan þykknað töluvert, vert er að hafa í huga að hún verður aldrei jafn þykk og þeyttur rjómi.

Samsetning

  • 5 skot espressokaffi
  • 2 msk. romm (má sleppa)
  • frúarfingurnir nýbökuðu
  • kakóduft eftir þörfum
  • mascarpone-krem

Aðferð:

  1. Byrjið á því að dýfa frúarfingrunum í kaffi- og rommblönduna og raðið í botn á eldföstu móti, smyrjið síðan helmingi kremsins yfir.
  2. Setjið þá annað lag af fingrum ofan á og afganginn af kreminu.
  3. Sigtið síðan kakó yfir og kælið í að minnsta kosti sex klukkustundir.
mbl.is