Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir er ítölskukennari í MH og í FÁ á veturna en á sumrin fer hún með hópa í náms- og skemmtiferðir til Ítalíu. Jóhanna flutti til Ítalíu eftir menntaskóla af því hún vildi gera eitthvað annað en allir aðrir.
Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir er ítölskukennari í MH og í FÁ á veturna en á sumrin fer hún með hópa í náms- og skemmtiferðir til Ítalíu. Jóhanna flutti til Ítalíu eftir menntaskóla af því hún vildi gera eitthvað annað en allir aðrir.
Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir er ítölskukennari í MH og í FÁ á veturna en á sumrin fer hún með hópa í náms- og skemmtiferðir til Ítalíu. Jóhanna flutti til Ítalíu eftir menntaskóla af því hún vildi gera eitthvað annað en allir aðrir.
„Það var voða mikið móðins að fara sem au pair eða í tungumálaskóla til Frakklands svona í kringum 1989. Ég og vinkona mín vildum ekki vera móðins þannig við fórum til Ítalíu 19 ára. Auðvitað kynntist ég einhverjum Fabio og svona. Hann varð síðan maðurinn minn. Við erum skilin núna en erum mjög góðir vinir,“ segir Jóhanna og hlær.
Til að byrja með var Jóhanna að vinna en ákvað svo að skella sér í háskólanám á Ítalíu en hún útskrifaðist með meistaragráður í erlendum tungumálum og bókmenntafræði frá La Sapienza í Róm árið 1999. Hún segir að það hafi verið töluvert flóknara en það er í dag enda var Ísland ekki í EES á þessum tíma. „Það var rosa erfitt að komast inn í háskóla þannig við ákváðum bara að giftast og þá var ekkert mál að komast inn í háskóla,“ segir hún meðal annars um hjónabandið við Ítalann.
Í dag er Jóhanna gift Guðjóni Haukssyni og eru þau með sterka tengingu við Ítalíu.
„Við hittumst í fyrsta skipti í Róm. Hann var að flytja til Rómar af því að hann var að fara í skiptinám en hann var í meistaranámi í viðskiptafræði í CBS. Hann hafði frétt af mér þar sem hann hitti vinkonu mína í partíi og hún gaf honum netfangið mitt,“ segir Jóhanna um hvernig þau kynntust. Jóhanna var þó flutt heim en fór reglulega sem leiðsögumaður til Rómar og sendi Guðjóni ítarlegar upplýsingar um hvað hann ætti að gera. Í október var hún síðan á leiðinni til Rómar og datt í hug að hitta hann. „Síðan eru liðin 13 ár,“ segir Jóhanna.
Jóhanna og Guðjón passa vel saman og bæta hvort annað upp, á meðan hún er fiðrildið sér hann um Exel-skjölin. Það kemur sér vel þegar kemur að því að skipuleggja námsferðir og skemmtiferðir um Ítalíu á vegum Initalia.is. Þau leggja áherslu á að kynna héraðið Marche fyrir Íslendingum sem er ekki í alfaraleið.
„Árið 2007 fór ég endurmenntun sem kennari til Ítalíu. Ég hafði áður nýtt þessa styrki til þess að fara til Rómar og þessara stórborga. En svo datt mér í hug að fara til Marche,“ segir Jóhanna og segir að hún hafi upplifað alvöru ítalska stemningu í skólanum. Kennslan var góð og um helgar var farið í skoðunarferðir.
„Þú bjóst bara í litlu þorpi sem heitir Castelraimondo í nágrenni Macerata og svo var skólinn með ferðir eins og lengri ferðir til Rómar, Feneyja og Napólí og stuttar ferðir inn í héraði. Ári síðar ákvað ég að búa til hóp fyrir Íslendinga til að leyfa þeim að upplifa þetta. Árið 2008 varstu ekki einu sinni á netinu. Ég var bara með plaköt. Ég var auðvitað að kenna og var í nánu samneyti við fólk sem hafði áhuga á Ítalíu,“ segir Jóhanna sem hefur farið á hverju ári síðan með hópa í mánuð í senn í ítölskuskóla fyrir utan kórónuveiruárin.
Jóhanna ætlar að breyta aðeins til í ár en auk þess að vera með málaskólann er hún með styttri ferðir til Ítalíu.
„Í ágúst ætlum við að bjóða upp á vikuferð til Marche. Farið er í styttri ferðir um héraðið en dvalið er á hótelinu Borgo Lanciano sem við uppgötvuðum þegar við giftum okkur þar. Þetta er í Sibillini-þjóðgarðinum,“ segir Jóhanna um hótelið. Í fyrra komu 80 manns í veisluna sem þau héldu og vildu helst ekki fara heima. Jóhanna segir hótelið vera eitt glæsilegasta spa-hótelið í þessu héraði.
Hvað er svona sérstakt við þetta hérað?
„Ég myndi segja að það er ekki svona traðkað niður af túrisma. Þetta er sérstaklega gróðursælt og enda teygir það sig upp í Appenínifjallgarðinn þar sem frjósemi jarðarinnar er einstök. Þeir framleiða mikið af ólífuolíu og sérlega góð vín. Það er stutt í ströndina sem snýr út að Adríahafinu.“
Jóhanna segir að hvert hérað hafi sinn sjarma en á sumum stöðum hafi ferðamenn tekið yfir. „Það er voða gaman að fara að Garda-vatni og allt það en þá get ég alveg eins farið til Þýskalands. Þjóðverjar eru búnir að kaupa upp svo mikið. Mörg héruð eru orðin eins og gistiheimili fyrir túrista og mér finnst það ekkert skemmtilegt,“ segir Jóhanna sem segir það ekki eiga við um Marche.
Þegar Jóhanna ferðast með Íslendinga er hún dugleg að fræða fólk um matarvenjur Ítala en mikið er um óskrifaðar reglur.
„Það gilda strangar reglur á Ítalíu sem Íslendingar eiga það til að brjóta. Fiskréttir með mozzarella, ég held að Ítalir myndu kasta sér fram af björgum. Þeir halda blýfast í sínar hefðir í matargerð, svo vægt sé til orða tekið! Ostur og fiskur, nei. Rjómi í pasta – það er eitthvað sem maður gerir yfirleitt ekki,“ segir Jóhanna til að nefna eitthvað.
Kaffi eru líka mikið drukkið á Ítalíu. Jóhanna ráðleggur fólki að standa við barinn þegar það fær sér kaffi í stað þess að setjast niður. Það getur munað nokkrum evrum. „Þú ert að láta mann í einkennisbúning sem er þjónn, þjóna þér til borðs. Þess vega sjáum við Ítala standa við barborðið,“ segir Jóhanna.
Hvers saknar þú frá Ítalíu?
„Ég sakna útiverunnar. Ég er miklu meira úti á Ítalíu. Svo ertu í nánari samskiptum við fólk. Veðráttan er allt önnur.“
Auk þess að fara í ferðir með fólk til Ítalíu eru hjónin Jóhanna og Guðjón að vinna í að flytja inn ólífuolíu. Ólífuolíuna rakst Jóhanna á fyrir tilviljun í lítilli verslun í Gubbio. Olían var svo góð að hún hafði í kjölfarið samband við framleiðendur. Hún segir skipta gríðarlega miklu máli að eiga góða ólífuolíu. „Ef ég er óhamingjusöm þá er það af því það er ekki til parmiggiano og það er ekki til ólífuolía heima hjá mér,“ segir Jóhanna en ef allt gengur eftir stefnir í að hún eigi alltaf góða ólífuolíu ásamt fleiri gæðahráefni frá Ítalíu og verði þar með alltaf hamingjusöm.