Kynntust á Vestfjörðum og giftu sig þar

Brúðkaup | 28. apríl 2024

Kynntust á Vestfjörðum og giftu sig þar

Ævintýra- og útivistarhjónin Ásta Karen Helgadóttir og Filip Polách giftu sig á Vestfjörðum í ágúst í fyrra. Það var draumur þeirra beggja að halda lítið, einfalt og fallegt brúðkaup úti í íslenskri náttúru.

Kynntust á Vestfjörðum og giftu sig þar

Brúðkaup | 28. apríl 2024

Ásta Karen Helgadóttir og Filip Polách kynntust fyrir vestan og …
Ásta Karen Helgadóttir og Filip Polách kynntust fyrir vestan og kom ekki annað til greina en að ganga í hjónaband þar. Ljósmynd/Víðir Björnsson

Ævintýra- og útivistarhjónin Ásta Karen Helgadóttir og Filip Polách giftu sig á Vestfjörðum í ágúst í fyrra. Það var draumur þeirra beggja að halda lítið, einfalt og fallegt brúðkaup úti í íslenskri náttúru.

Ævintýra- og útivistarhjónin Ásta Karen Helgadóttir og Filip Polách giftu sig á Vestfjörðum í ágúst í fyrra. Það var draumur þeirra beggja að halda lítið, einfalt og fallegt brúðkaup úti í íslenskri náttúru.

Ásta og Filip höfðu vitað hvort af öðru í gegnum brimbretta- og fjallaskíðaiðkun sína áður en þau kynntust. „Fyrsta skiptið sem ég sá Filip var hann að koma upp úr sjónum eftir að hafa fengið brimbretti í andlitið og vinur hans keyrði hann upp á heilsugæslu til að fá nokkra sauma. Hann er með lítið ör fyrir ofan aðra augabrúnina til að minna hann á daginn,“ segir Ásta um hvernig þau kynntust.

Bónorð á toppi Snæfellsjökuls

Ásta segir þau hins vegar hafa kynnst almennilega fyrir tilviljun á Flateyri sumarið 2020 en til að byrja með voru þau aðeins vinir. „Ég var í spontant helgarferð með nokkrum vinum, meðal annars góðum sameiginlegum vinum okkar Filips, og hann var þar með vini sínum að leita að öldum og íhuga að flytja á Vestfirði. Við hópurinn fylgdumst að í tvo daga, elduðum saman, leituðum að öldum og kveiktum varðeld um kvöldið á ströndinni,“ segir Ásta. Í lok ágúst sama ár kviknaði neistinn í fjallaskíðaferð á Snæfellsjökli. Tveir vinir höfðu óvænt hætt við að fara í ferðina og þau Filip voru bara tvö saman.

Einu og hálfu ári seinna bað Filip Ástu á toppi Snæfellsjökuls. „Þó að við hefðum rætt um það að gifta okkur, þá náði Filip virkilega að koma mér á óvart. Þegar við komum upp á topp eftir að hafa skinnað upp í fjórar klukkustundir um hávetur, var svo kalt (örugglega -20°C með vindkælingu) að bónorðið gerðist mjög hratt og við urðum að flýta okkur að græja okkur og leggja af stað niður. Það tók mig því smástund að meðtaka hvað hafði gerst og ég held að ég hafi skíðað skælbrosandi með tár í augunum alla leið niður.“

Ákváðu staðsetninguna fyrst

Ásta og Filip völdu að gifta sig á Vestfjörðum enda landshlutinn sem þau kynntust fyrst á og urðu vinir. „Filip var nýfluttur á Ísafjörð þegar við byrjuðum að hittast, en ég var þá nýbúin að kaupa íbúð í Reykjavík. Við vorum þó greinilega það hrifin hvort af öðru að við keyrðum á milli landshluta aðra hverja viku til að hittast,“ segir Ásta en í kórónuveirufaraldrinum átti hún þess kost að vinna heima og gat varið góðum tíma fyrir vestan með Filip, bróður hans Lucas og Nicole, kærustu Lucas en þau búa á Flateyri í dag.

Veislugestir komu saman yfir helgina heima hjá bróður og mágkonu …
Veislugestir komu saman yfir helgina heima hjá bróður og mágkonu Filips á Flateyri. Ljósmynd/Aðsend

„Staðsetning brúðkaupsins var þannig í raun ákveðin á undan öllu öðru og allt annað hannað með það í huga að við gætum gift okkur á Vestfjörðum. Það setti okkur líka þann ramma frá upphafi að skipuleggja lítið brúðkaup og hafa það heila helgi, þar sem margir gestir voru að koma langt að og við vildum vera viss um að við gætum hugsað vel um alla,“ segir Ásta en þau buðu 20 manns í brúðkaupið. Þeirra nánasta fólk fékk því gott tækifæri til að kynnast yfir helgina og brúðhjónin gátu notið sín vel. „Út af kórónuveirufaraldrinum og vegna þess að foreldrar okkar beggja bjuggu erlendis, mínir í Hollandi og Filips í Tékklandi, höfðu þau aldrei hist fyrr en viku fyrir brúðkaupið.“

Fjölskyldur hjónanna voru að hittast í fyrsta skipti og fannst …
Fjölskyldur hjónanna voru að hittast í fyrsta skipti og fannst Ástu og Filip dásamlegt að sýna þeim Vestfirðina. Ljósmynd/Víðir Björnsson

Athöfn að heiðnum sið í Dýrafirði

Allir gestirnir komu sér á Flateyri á föstudeginum og þá hófust hátíðarhöldin. „Við byrjuðum á smá grilli í garðinum hjá Lukasi og Nicole. Þegar leið á kvöldið færðum við okkur mörg yfir á Vagninn, þar sem var karókíkvöld. Sumir þurftu að drekka í sig meira hugrekki en aðrir en allir enduðu á að taka lagið, sem var ótrúlega skemmtilegt,“ segir Ásta.

Hjónin giftu sig í laugardeginum og fór athöfnin og hádegisverðarhlaðborð fram á Alviðru í Dýrafirði. „Dýrafjörður er ótrúlega magnaður fjörður, með falleg fjöll og hreinan sjó. Við höfum varið miklum tíma þar og erum svo heppin að hafa kynnst Árna, sem á Alviðru í Dýrafirði ásamt systkinum sínum. Staðsetning þess er ein sú fallegasta á landinu, útsýni yfir tún, strendur, fjörðinn og fjöllin. Þar er gömul hlaða sem hefur verið nýtt áður í böll og tónleika, og er alveg ótrúlega skemmtilega innréttuð með gömlum húsgögnum, heimasmíðuðum listaverkum úr rekavið og alls konar öðru. Í huga okkar beggja var þetta alltaf hinn fullkomni staður til að halda brúðkaup, svo það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina,“ segir Ásta.

„Athöfnin fór fram að heiðnum sið á fallegri hvítri sandströnd á Alviðru fyrir hádegi. Við erum hvorugt trúuð, en okkur finnst tengingin við náttúruna, sem ásatrú heldur mikið upp á, mjög falleg. Filip hjálpaði goðanum að kveikja lítinn varðeld á ströndinni og svo stóðum við og allir gestirnir í kringum hann á meðan við vorum blessuð af guðunum og tókum að eiga hvort annað.“

Hjónin eru ekki trúuð en fannst við hæfi að gifta …
Hjónin eru ekki trúuð en fannst við hæfi að gifta sig að heiðnum sig þar sem trúin er nátengd náttúrunni. Ljósmynd/Víðir Björnsson
Það átti vel við að geyma hringana í fallegri skel.
Það átti vel við að geyma hringana í fallegri skel. Ljósmynd/Aðsend

Gestirnir hoppuðu í sjóinn með brúðhjónunum

Vinur þeirra Víðir Björnsson myndaði hjónin og brúðkaupsgestina eftir athöfnina. Eftir það var haldið af stað í hádegishlaðborð í hlöðunni.

„Fólk fékk sér á diska og flestir settust svo út á bekki eða í grasið, spjölluðu og nutu sín. Systkini mín voru veislustjórar og mamma hélt fallega ræðu. Ég var búin að undirbúa smá pub-quiz fyrir gestina um okkur Filip og mágur minn var spyrill. Við vorum þarna heillengi, en ég hafði viljandi ekki planað of mikið yfir daginn svo fólk gæti lagt sig eða tekið pásu eftir þörfum. Systir mín var með einn níu mánaða snúð með sér og mágkona mín var komin sex mánuði á leið svo ég vildi taka tillit til þeirra,“ segir Ásta.

Systkini Ástu voru veislustjórar og móðir hennar héltu ræðu í …
Systkini Ástu voru veislustjórar og móðir hennar héltu ræðu í hlöðunni á Alviðru. Ljósmynd/Víðir Björnsson

„Á leiðinni aftur á Flateyri komum við við á Holtsbryggju til að hoppa í sjóinn og hressa okkur við eftir að hafa legið í sólinni allan eftirmiðdaginn. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þá minningu og að hafa náð að plata svona marga úr hópnum með í þetta. Um kvöldið áttum við svo bókaðan kvöldmat á Vagninum. Þau gerðu rosalega fínan mat fyrir okkur og það var ofboðslega þægilegt að vinna með þeim og skipuleggja þetta. Pabbi minn og bróðir Filips sögðu nokkur orð og svo var okkur komið á óvart með spurningaleik um hversu vel við þekktum hvort annað. Svo var bara ennþá svo gott veður að við færðum okkur eftir kvöldmatinn aftur yfir í garð þeirra Lukas og Nicole. Við kveiktum lítinn eld, Elín vinkona okkar kenndi öllum gestunum dans, við skárum brúðkaupstertuna en það hafði gleymst um daginn og höfðum það gott þangað til seint um kvöldið.“

Eftir hádegisverðarhlaðborðið hoppuðu brúðhjónin og veislugestir í sjóinn.
Eftir hádegisverðarhlaðborðið hoppuðu brúðhjónin og veislugestir í sjóinn. Ljósmynd/Víðir Björnsson

Sunnudagurinn var líka draumur

Veislan hélt áfram á sunnudeginum en þó með sama afslappaða yfirbragði og daginn áður. „Flestir sváfu út og tóku því rólega. Við áttum fullt af góðum afgöngum frá deginum áður og þurftum því ekkert að elda. Fólk fór í göngutúra, hjólatúra, sund, kíkti í Bryggjukaffi, bókabúðina, eða á hjólabretti. Seinnipart dags vorum við búin að skipuleggja að fara aftur á ströndina við Holtsbryggju ef veður leyfði. Við tókum með teppi, hátalara, frisbídisk, blautgalla og nokkur SUP-bretti og nutum þess að vera í lautarferð á ströndinni – á Íslandi! Þegar leið á kvöldið og fór aðeins að kólna og tíndist fólk aftur yfir á Flateyri. Það var enginn vindur og sólin farin að síga aðeins. Við Filip og Elín sáum fullkomið tækifæri til að SUP-pa frá Holtsbryggju yfir á Flateyri í fyrsta skiptið. Við tókum sitt hvorn bjórinn í nesti, klæddum okkur í blautgalla og rerum yfir í rólegheitunum. Þetta var svo fallegt kvöld og sólin einmitt að setjast þegar við komum að Flateyri, þar sem fjölskyldan tók á móti okkur og hjálpaði okkur að halda á brettunum yfir í garðinn hjá Lukasi og Nicole.“

Hjónin fóru á róðrabretti með vinkonu sinni frá Holtsbryggju yfir …
Hjónin fóru á róðrabretti með vinkonu sinni frá Holtsbryggju yfir á Flateyri. Ljósmynd/Aðsend

Skipulögðu sig vel og föndruðu sjálf

Er flókið að skipuleggja brúðkaup?

„Ég var svolítið hrædd um að gleyma einhverju eða hafa ekki nóg af mat. Ég held að það sé mikilvægast að passa upp á að allar grunnþarfir fólks séu uppfylltar: vera með nóg af mat og drykk, passa að fólk hafi góðan stað til að gista, það sé gott aðgengi að salerni og tími fyrir rólegheit á milli dagskrárliða. Á Íslandi er líka sérstaklega mikilvægt að fólk fái kaffið sitt, og svo vorum við líka með ágætis magn af bjór og víni.

Eftir nokkur skipulags- og föndurkvöld til að undirbúa hluti heima vorum við Filip komin á Flateyri á fimmtudaginn fyrir brúðkaupið til að klára undirbúning, skreyta hlöðuna á Alviðru, klára að græja matinn og kíkja á Vagninn.

Við sáum sjálf um mikið af matnum fyrir hádegishlaðborðið, en svo aðstoðuðu fjölskyldur okkar okkur líka. Mamma mín kom með mjög gott salat, systir mín gerði avókadóídýfu, bróðir Filips og kærasta bökuðu svo fallegt brauð, skreytt með grænmeti sem leit út eins og blóm, og síðast en ekki síst höfðu mamma og amma hans Filips bakað ótrúlega margar og fallegar tékkneskar smákökur. Við sjálf bökuðum litla brúðkaupstertu sem var vegan-vanillukaka með smjörkremi, vegan-sítrónuostaköku frá Veganistum, gerðum annað stórt salat og fullt af hummusi.“

Fjölskyldan hjálpaðist að við að búa til matinn.
Fjölskyldan hjálpaðist að við að búa til matinn. Ljósmynd/Víðir Björnsson
Brauðið var eins og listaverk.
Brauðið var eins og listaverk. Ljósmynd/Aðsend
Það var mikið heimagert þar á meðal glasamiðarnir.
Það var mikið heimagert þar á meðal glasamiðarnir. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem er gott að hafa í huga þegar brúðkaup fer fram fjarri heimilinu?

„Það þarf að telja allt vel! Ég var búin að telja allt leirtauið sem ég tók með margoft en hafði ekki tekið með alveg nógu mikið „auka“. Sem betur fer gat ég fengið nokkra kaffibolla og teskeiðar lánaðar, svo það gekk allt upp á endanum. Þar sem það er engin stór matvöruverslun á Flateyri og ekki alltaf hægt að fá allt á Ísafirði, var líka mikilvægt að taka með megnið af matnum.“

Ásta og Filip mættu með borðbúnað með sér vestur.
Ásta og Filip mættu með borðbúnað með sér vestur. Ljósmynd/Aðsend

Prjónaði brúðkaupspeysuna sjálf

Hvernig gekk að finna föt fyrir stóra daginn?

„Það gekk hálferfiðlega hjá mér. Ég hefði hugsanlega leigt kjól, en það er engin brúðarkjólaleiga lengur á landinu! Þess vegna ákvað að kaupa einfaldan hvítan kjól á netinu, en lenti í því að pantanir misheppnuðust á einhvern hátt tvisvar, áður en þriðja tilraunin heppnaðist loksins. Ég fann ótrúlega fallegan og þægilegan kjól. Mamma hjálpaði mér að aðlaga hann aðeins og taka ermarnar af. Svo, af því við búum á Íslandi, prófaði ég að prjóna hvíta peysu sem myndi passa yfir kjólinn, og ég var mjög ánægð með útkomuna hjá mér! Ég var í peysunni eiginlega allan daginn.

Filip hefur hannað föt við og við í mörg ár, og því kom ekkert annað til greina fyrir hann en að láta sérsauma á sig jakkaföt í Tékklandi. Hann valdi fallegan blágrænan lit og allt smellpassaði á hann.“

Ásta og Filip á brúðkaupsdaginn sinn í fyrra. Ásta var …
Ásta og Filip á brúðkaupsdaginn sinn í fyrra. Ásta var í peysu sem hún prjónaði sjálf og Filip lét sauma fötin í heimalandi sínu Tékklandi. Ljósmynd/Víðir Björnsson

Ekkert einnota skraut og heimatilbúnar veitingar

Öll brúðkaupshelgin endurspeglaði fyrir hvað þau Ásta og Filip standa, allt frá vali á staðsetningu yfir í borðbúnað og veitingar.

„Náttúran á þessum stöðum er okkur ótrúlega dýrmæt og það var ógleymanlegt að fá tækifæri til að deila þeim með okkar kærasta fólki. Sýna þeim fjöllin og firðina sem við elskum. Það var algjör gjöf að geta verið svona mikið úti alla helgina og hvað allt var fallegt. Við þorðum auðvitað ekki að gera ráð fyrir svona góðu veðri, svo það var ógleymanlegt að geta haldið athöfnina á hvítri strönd, berfætt í sólinni. Við erum hvorugt mikið fyrir að vera miðpunktur athyglinnar, svo við vildum hafa afslappaða stemningu og einbeita okkur að því að njóta gæðastunda með nánasta fólkinu okkar. Markmiðið mitt var að fá sem flesta til að hoppa út í sjó og það tókst!

Við vildum líka hafa allt sem umhverfisvænst og ekki taka þátt í neinni ofneyslu. Við vorum mestmegnis með heimatilbúinn og að miklu leyti veganmat og ég kom með fallegt leirtau að heiman og fjárfesti í tauservíettum til að geta notað fyrir veisluna – og fleiri veislur í framtíðinni. Við notuðum ekkert einnota plastskraut, ég hafði föndrað smá pappírsskraut með nöfnum gestanna til að merkja glös og bolla, svo tíndum við blóm í vasa og hengdum upp skraut sem er hægt að nota aftur. Ég pantaði kökuskraut með nöfnunum okkar Filips hjá Partýbúðinni fyrir brúðkaupstertuna, og það var það eina.“

Blómin tíndu þau sjálf.
Blómin tíndu þau sjálf. Ljósmynd/Aðsend

Hvað stóð upp úr að ykkar mati?

„Ég er svo þakklát fyrir það að hafa náð að njóta sjálf alla helgina! Að það var ekki mikið stress, allt var vel skipulagt, og svo að við vorum svona ótrúlega heppin með veður! Allir gestirnir voru líka í svo góðu skapi, afslappaðir, hjálpsamir og til í allt! Þrátt fyrir smá tungumálaörðugleika, þá var líka magnað að sjá foreldra okkar og fjölskyldur tengjast og finna kærleika sem ríkti á milli allra,“ segir Ásta að lokum.

Boðið var upp á tékkneskar smákökur
Boðið var upp á tékkneskar smákökur Ljósmynd/Víðir Björnsson
mbl.is