Laugavegur hjólaferðamannsins að fæðast

Hjólreiðar | 28. apríl 2024

Laugavegur hjólaferðamannsins að fæðast

Sumarið 2018 héldu tveir Ítalir í ferð frá Akureyri og þveruðu Ísland frá norðri til suðurs á hjóli. Um haustið settu þeir ferðasögu sína með ítarlegum myndum og upplýsingum inn á vinsæla heimasíðu fyrir hjólaferðalanga og vinsældirnar láta ekki standa á sér.

Laugavegur hjólaferðamannsins að fæðast

Hjólreiðar | 28. apríl 2024

Fegurðin sem finna má í auðninni er alveg einstök og …
Fegurðin sem finna má í auðninni er alveg einstök og hjólaferðamenn eru í auknum mæli farnir að sækja í þá upplifun. Ljósmynd/Parker Kempf

Sumarið 2018 héldu tveir Ítalir í ferð frá Akureyri og þveruðu Ísland frá norðri til suðurs á hjóli. Um haustið settu þeir ferðasögu sína með ítarlegum myndum og upplýsingum inn á vinsæla heimasíðu fyrir hjólaferðalanga og vinsældirnar láta ekki standa á sér.

Sumarið 2018 héldu tveir Ítalir í ferð frá Akureyri og þveruðu Ísland frá norðri til suðurs á hjóli. Um haustið settu þeir ferðasögu sína með ítarlegum myndum og upplýsingum inn á vinsæla heimasíðu fyrir hjólaferðalanga og vinsældirnar láta ekki standa á sér.

Núna sex árum síðar nýtur leiðin, sem þeir kölluðu Iceland divide, talsverðra vinsælda og fara tugir, ef ekki hundrað hjólaferðamanna þessa leið árlega. Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands segir þetta áhugaverða viðbót við ferðamennsku á hálendinu og hjálpa til við að dreifa álagi.

Leiðin sem um ræðir hefst á Akureyri og eftir að hafa hjólað yfir Víkurskarð og Ljósavatnsskarð er haldið inn Bárðardalinn. Farið er upp á hálendið frá Svartárkoti, austan við Skjálfandafljót, en þar taka fljótlega við fyrstu fjallaskálarnir, Stóraflesja og síðar Botni, en sá síðarnefndi er í eigu Ferðafélags Akureyrar. Þarna fer að styttast í Ódáðahraun og græni litur hálendisins að breytast í dökkan eða alveg svartan.

Vatnssnauðir kaflar

Haldið er áfram inn á hálendi og er næsti áfangastaður skálinn Dyngjufell í Dyngjufjalladal, sem einnig er skáli í eigu Ferðafélags Akureyrar. Þegar komið er inn á Austurleið er svo ekki haldið til vesturs um Þríhyrningsleið, heldur farið aðeins austar í átt að Jökulsá á Fjöllum og Holuhrauni og beygt inn á Gæsavatnaleið. Þar tekur við líklega vatnssnauðasti kafli leiðarinnar og aðeins einkaskálar við Kistufell og Gæsavötn og leiðin mjög torfær á köflum, meðal annars yfir Urðarháls.

Iceland divide leiðin eins og ítalirnir Giorgio Frattale and Francesco …
Iceland divide leiðin eins og ítalirnir Giorgio Frattale and Francesco D’Alessio, sem kalla sig Mountanus, fóru upphaflega árið 2018. Fjölmargir hafa fylgt í hjólför þeirra síðan þá. Kort/mbl.is

Að lokum er aftur komið inn á Austurleið norðaustur af Tungnafellsjökli og haldið í vesturátt þangað til komið er að vaðinu við Hagakvísl og gatnamótum Sprengisandsleiðar. Þar rétt sunnar er einn stærsti skáli Ferðafélags Íslands, Nýidalur. Haldið er suður Sprengisandsleið, og framhjá Versölum og síðar virkjununum og alla leið niður Landveg þangað til beygt er inn á Fjallabak við Landmannaleið (Dómadal). Stuttu fyrir Landmannahelli er svo haldið upp Krakatindaleið, framhjá Dalakofa og Laufafelli og beygt inn á Syðra-Fjallabak í átt að Álftavatni og Hvanngili.

Næst er svo förinni heitið yfir Mælifellssand og niður Öldufellsleið alla leið á Hrífunesveg og síðar hringveg þangað sem stefnan er tekin í átt að Vík í Mýrdal, svo hægt sé að klára þverunina. Allt í allt tók ferðin Ítalina níu daga, en þeir fóru á breiðhjólum (e. fat bike).

Hjólaleið fæðist

Líkt og fram kemur á öðrum stað í blaðinu var ég á ferð yfir hálendið síðasta sumar, meðal annars yfir hluta Sprengisands og gisti í Nýjadal. Á þeim stutta kafla og á rúmlega sólarhring urðu á vegi mínum þrír hópar og tveir einstaklingar sem allir voru á þessari leið, þó sumir með smá útúrdúrum og einn á leið þvert á leið Ítalanna, samtals um tíu manns. Staðfesti skálavörður að algengt væri að erlendir ferðamenn væru á þessari leið yfir sumarið og að þeim hefði fjölgað undanfarin ár.

Sjálfur hafði ég rekist á þessa ferðasögu og upplýsingar um leiðina á bikepacking.com nokkrum árum fyrr og séð fólk ræða hana í Facebook-hópum. Ég tók hins vegar eftir að ferðalýsingunni hafði verið deilt nokkur þúsund sinnum og umræður um hana á Facebook urðu alltaf umfangsmeiri eftir því sem árin liðu. Ég fór því að velta fyrir mér hvort hér væri, án þess að nokkur innfæddur kæmi að máli eða undirbúningi, að fæðast hjólaleið sem gæti orðið að Laugavegi hjólaferðamannsins, ekki síst í ört stækkandi heimi malarhjólamennsku.

Páll Guðmundsson formaður Ferðafélags Íslands.
Páll Guðmundsson formaður Ferðafélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Ekta grasrótarstarf

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að þar á bæ hafi fólk skynjað að fleiri og fleiri ferðamenn séu að koma gagngert til að hjóla þessa leið eftir að hafa fundið hana á þessari síðu. „Við fögnum þessu og þetta er dæmigert grasrótarstarf eins og við viljum hafa, þótt þarna sé um erlenda ferðamenn að ræða,“ segir Páll.

Bendir hann á að oftast eigi vinsælar útivistarleiðir það til að þróast með svipuðu sniði og vísar til þess þegar Laugavegurinn varð fyrst að gönguleið. „Nokkrir voru að ganga þar og svo varð leiðin þekkt, en það hafði sinn tíma og gang og úr varð þessi þekkta leið,“ segir hann. „Þetta er ekta grasrótarstarf þar sem fólk kemur sinni hugmynd á framfæri og aðrir fylgja í kjölfarið og úr verður virkilega flott leið eins og þessi hjólaleið.“

Spurður hvort Ferðafélagið horfi til hjólaferðamennsku meðal annars við að dreifa umferð og álagi á skála félagsins svarar Páll því játandi. „Við höfum tekið þátt í umræðu um að byggja upp sérstakar hjólaleiðir á hálendinu og tökum því fagnandi að umferðin sé að aukast og það er auðvitað breiður hópur að stunda útivist á hálendinu með mismunandi hætti.“

Á ferð norður Sprengisand urðu þessir þrír ferðamenn á vegi …
Á ferð norður Sprengisand urðu þessir þrír ferðamenn á vegi blaðamanns við Versali. Þeir stefndu suður og voru ánægðir með ferðina, en leiðinni höfðu þeir kynnst á bikepacking.com. mbl.is/Þorsteinn

Aðkoma FÍ kæmi til greina

Hann segir það ánægjulegt ef fólk sjái tækifæri í að nýta skála félagsins, sérstaklega þá sem almennt eru minna nýttir. Hann tekur þó fram að Ferðafélagið hafi sjálft ekki farið í uppbyggingu hjólaleiða, en að til greina komi að félagið komi að slíkri uppbyggingu. „Já algjörlega og sérstaklega í samstarfi við t.d. hjólreiðafélög eða aðra. En við sæjum helst fyrir okkur að koma að slíku sem samstarfsverkefni, m.a. við Umhverfisstofnun eða Vatnajökulsþjóðgarð og fleiri,“ segir Páll.

„Það myndi styrkja umferðina í skálana og við værum til í að leggja þessu lið eins og við getum. Setja upp skilti, gefa út kort og koma að slíku í samstarfi við aðra,“ segir Páll um það hver hagur og aðkoma Ferðafélagsins gæti verið af verkefni sem þessu.

Rétt er þó að taka fram að stór hluti þeirra sem fara þessa leið í dag er sjálfbjarga um gistingu og gistir í tjaldi. Slíkt á þó jafnan við áður en leiðir eru almennilega byggðar upp, auk þess sem þeir sem ég hitti á mínu ferðalagi virtust ánægðir að komast í snyrtiaðstöðu í Nýjadal eftir tveggja daga för norðan Vatnajökuls.

Þeim ferðamönnum fjölgar jafnt og þétt sem ferðast gagngert til …
Þeim ferðamönnum fjölgar jafnt og þétt sem ferðast gagngert til Íslands til þess að takast á við þær krefjandi áskoranir sem kunna að bíða á hálendi Íslands. Ein leið hefur öðlast vinsældir umfram aðrar. Ljósmynd/Parker Kempf

Útkoman ekki alltaf árangursrík

Páll segir hluta af starfi Ferðafélagsins vera nýsköpun og frumkvöðlavinnu við að byggja upp leiðir og þótt það hafi hingað til að mestu verið gönguleiðir þá komi vel til greina að horfa til hjólaleiða á hálendinu. „Þessi leið t.d. er alveg frábær sem slík fyrir Ísland sem ferðamannaland. Að hjóla í þessu stórbrotna umhverfi, sem er eins og að vera á tunglinu, en um leið með allskonar sögu og merkilega jarðfræði.“

Undanfarin ár og áratugi hefur Ferðafélagið komið að því að byggja upp ýmsar gönguleiðir og oftast í samstarfi við ferðafélög í héraði, sveitarfélög eða aðra hagaðila. Á það meðal annars við um Kjalveg hinn forna, Jarlhettuslóð, Lónsöræfi og fleiri leiðir. Slíkt getur gefið góða raun og orðið góð viðbót í núverandi flóru, en slík vinna er þó ekki alltaf ávísun á árangursríka útkomu. Nefnir Páll að fyrir 10-15 árum hafi verið farið af stað með að setja upp gönguleið í kringum Vatnajökul. Þá hefði fólk getað gengið hluta eða alla leiðina eftir atvikum. „Þetta var áhugaverð og spennandi hugmynd, en umhverfið og stjórnsýslan var of flókin. Það var rekist á veggi og ákveðnir hagsmunir um hver ætti að gera hvað og mætti gera hvað. Það starf lognaðist því út af.“

Parker er hér kominn inn á Syðra-Fjallabak. Með því að …
Parker er hér kominn inn á Syðra-Fjallabak. Með því að sameina í einni ferð svæðið norðan Vatnajökuls, Sprengisand og Fjallabak fæst einstök sýn á hálendi Íslands. Ljósmynd/Parker Kempf

Innviðir til staðar

Páll bendir þó á að með Iceland divide-leiðina séu þegar vegir, skálar og tjaldsvæði á stærstum hluta leiðarinnar, eða allavega staðir þar sem hægt er að byggja upp tjaldsvæði. Möguleikarnir séu því sannarlega til staðar. Þá opnar hann á þá hugmynd að Ferðafélagið gæti komið að því að opna nýja skála á svæðum þar sem einhver sérstök hjólaleið er byggð upp, ef áhugi og eftirspurn sé eftir því.

Hann tekur þó fram að framundan sé endurnýjun og endurbygging fjölmargra skála Ferðafélagsins. Þannig sé verið að fara í að byggja nýjan Skagfjörðsskála í Þórsmörk, svo nýja skála í Álftavatni og Emstrum og Laugaveginum. Svo bíði það verkefni að endurnýja alla skála á Kjalvegi. Hvort og þá hversu mikið svigrúm er fyrir aðra uppbyggingu alveg á næstunni verður því að koma í ljós og helgast það líka af því hvort þessi leið muni stækka meira á komandi árum.

Upplifun sem fjölmargir hjólaferðalangar sækjast sérstaklega í. Auðnin mikilfenglega.
Upplifun sem fjölmargir hjólaferðalangar sækjast sérstaklega í. Auðnin mikilfenglega. Ljósmynd/Parker Kempf

„Landslagið leit ótrúlega vel út“

Slökkviliðsmaðurinn Parker Kempf býr í Washington-ríki á vesturströnd Bandaríkjanna. Hann er mikill áhugamaður um útivist, ekki síst klifur ýmiss konar og hjólreiðar. Hann hefur ferðast víða til að sinna þessum áhugamálum sínum, eða til samtals fjórtán landa. Í fyrra var förinni heitið til Íslands til að þvera landið eftir að hann las um „Iceland divide“-leiðina á heimasíðunni bikepacking.com.

Fyrir utan að vera fáránlega hress og jákvæður í þeim myndböndum sem hann hafði sett á netið úr ferð sinni lék mér forvitni á að heyra í honum um hvað lá að baki þeirri ákvörðun að koma hingað til lands og velja þessa leið um óbyggðirnar.

Þegar ég náði loks símtali við Kempf var hann auðvitað staddur í miðri hjólaferð, í þetta skiptið um óbyggðir Arizona-ríkis í Bandaríkjunum. Hann segir að Íslandshugmyndin hafi fyrst vaknað meðan hann var að fara í gegnum aukna þjálfun fyrir slökkviliðsmenn. Eftir stíft prógramm vildi hann kúpla sig aðeins út og fara á nýjan og framandi stað til að upplifa skemmtilega hjólaferð í kringum miðjan ágúst.

Parker er sjálfur mikill hjólreiðaáhugamaður þótt aðaláhugamálið sé klifur og …
Parker er sjálfur mikill hjólreiðaáhugamaður þótt aðaláhugamálið sé klifur og fjallamennska. Ljósmynd/Parker Kempf

Hann rakst á greinina á bikepacking.com, en hann hafði áður notað síðuna til að skoða leiðir og finna ráðleggingar um búnað. „Iceland divide leit út fyrir að vera leið sem mig langaði mikið að fara. Landslagið leit ótrúlega vel út,“ segir Kempf.

Með klifur- og fjallgöngubakgrunn segist Kempf vera nokkuð vel undirbúinn fyrir krefjandi aðstæður og eiga nokkuð af léttum og góðum búnaði sem passi vel fyrir hjólaferðalög. Ábendingar um að geta mögulega lent í erfiðri veðráttu á miðhálendinu hafi því ekki dregið úr honum ferðaviljann og sérstaklega hafi hann verið spenntur fyrir að upplifa fámennið og auðnina sem sagt var frá í ferðalýsingunni.

Sérstaklega hrifinn af „neongræna“ litnum á Fjallabaki

Upplifunin sveik hann svo sannarlega ekki. „Það kom fyrir að ég hitti ekki neinn í tvo daga á einum hluta leiðarinnar,“ segir hann og bætir við: „Landslagið var svo sérstakt og áhugavert. Að koma á þennan stað og sjá þetta landslag. Ég hef farið til Afríku, Suður-Ameríku og víðar og séð jökla og eyðimörk og bý við Fossafjöll (e. Cascade range) og verið mikið upp í fjöllum, en Ísland var besta ferðin mín hingað til, algjörlega.“

Krakatindur var eitt þeirra fjalla sem Parker nefndi sérstaklega sem …
Krakatindur var eitt þeirra fjalla sem Parker nefndi sérstaklega sem fallegum stað á leiðinni. Ljósmynd/Parker Kempf

Þegar hann kom til Íslands var veðrið ekki upp á marga fiska. „Það var rigning og mikill vindur og ég man að ég hugsaði að ég væri mættur í alvöru aðstæður.“ Upphaflega planið var fyrir hann að hjóla norður til Akureyrar eftir hringveginum, en hann sá að það var sex daga góður veðurgluggi framundan og því tók hann bílaleigubíl aðra leið til Akureyrar og lagði strax af stað.

Lýsir hann því hversu gaman hafi verið að fara upp frá Svartárbotnum í Botna og að Kistufelli og hvernig landslagið og umhverfið hafi breyst. Kaflinn hafi verið einstaklega afskekktur og erfiður, en á sama tíma fallegur. Svo þegar nálgaðist suðurhluta hálendisins hafi hann farið að sjá meira fólk og nefnir hann sérstaklega „neongræna“ liti Fjallabaks og Krakatind sem hann sagði minna sig mjög mikið á tönn sem skagi upp úr landslaginu. Þá hafi Mælifellssandur og Mælifell einnig verið meðal hans uppáhaldsstaða.

„Neongræni“ litur Fjallabaks heillaði mikið.
„Neongræni“ litur Fjallabaks heillaði mikið. Ljósmynd/Parker Kempf

Vel þekkt leið í hjólasamfélaginu í Washington

Kempf segir að úti í Washington-ríki og í kringum borgina Bellingham hitti hann reglulega hjólreiðafólk og allir þekki til Íslands og þessarar leiðar. Segist hann eiga vini sem hafi einnig talað um að fara þessa leið í nokkur ár og aðra í hjólasamfélaginu í kringum hann líka. „Ég veit ekki hvernig þetta varð svona vinsælt, en allir þekkja Iceland divide þegar maður tala um Ísland,“ segir hann.

Fyrir utan að lesa bikepacking.com segir Kempf að hann hafi leitað upplýsinga víðar um ýmsar nauðsynjar og skipulagsleg málefni, meðal annars hvar hægt væri að geyma hjólatösku í Reykjavík á meðan á dvölinni stóð. Þá hafi hann sökkt sér í upplýsingar um veður, snjó og lesið sér til um reynslu annarra varðandi búnað. Lýsti hann því reyndar hvernig snjóskafl hefði á einum stað norðan Vatnajökuls hjálpað honum mjög vel og að hann hefði notað kaffifilter til að hreinsa vatnið. Þó ég dáist að þessari sjálfsbjargarviðleitni er ég ekki alveg til í að mæla með þessari aðferð hans og ráðlegg lesendum að leggja helst áherslu á að skoða hvar hægt er að komast í vatn á þurrustu svæðunum og þá frekar ferðast með aðeins aukalega af vatni á þeim svæðum.

Þegar farið er frá norðri til suðurs er nauðsynlegt að …
Þegar farið er frá norðri til suðurs er nauðsynlegt að ljúka ferðinni með að dýfa tánum í hafið við Vík í Mýrdal. Ljósmynd/Parker Kempf

Í heildina reyndi ekki mikið á fatnað eða veðurreynslu Kempfs því flestir dagar reyndust mjög góðir, þó að hitastigið hefði sigið nokkuð neðarlega nokkrar nætur. Þá segir hann að árnar hafi verið mjög viðráðanlegar og hann mest þurft að vaða hnédjúpt. „Mestu mistökin voru að taka ekki með vaðskó,“ segir hann og bætir við að þar sem hann hafi verið með rafmagnsskipta hafi hann passað vel að hafa hjólið ekki ofan í og það hafi reynt bæði á jafnvægið og sársaukaþolið í fótunum.

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem lesa má í heild hér:

mbl.is