Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem er ósáttur við fyrrverandi eiginkonu sína og hvernig hún vill hafa hlutina eftir skilnaðinn.
Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem er ósáttur við fyrrverandi eiginkonu sína og hvernig hún vill hafa hlutina eftir skilnaðinn.
Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem er ósáttur við fyrrverandi eiginkonu sína og hvernig hún vill hafa hlutina eftir skilnaðinn.
Hæ
Ég er rúmlega fertugur karlmaður sem er nýskilinn. Ég og fyrrverandi kona mín eigum 3 börn saman, tvö á grunnskólaaldri og eitt á framhaldsskólaaldri. Ég hef rekið eigið fyrirtæki og unnið langa daga allt frá því að börnin okkar fæddust, stundum þarf ég að vinna kvöld og helgarvinnu. Ég var tekjuhærri einstaklingurinn í hjónabandinu og þar af leiðandi borgaði ég meira til heimilisins, húsbúnað, mat og nauðsynjar fyrir börnin. Þegar við skildum skiptum við öllu jafnt nema börnunum. Mín fyrrverandi segir að hún hafi rétt á að umgangast börnin meira en ég því hún hafi eytt meiri tíma með þeim þegar ég var úti að vinna fyrir heimilinu og meira „barnastúss“ lent á henni. Mig langar að deila umgengninni 50/50 en hún neitar því, hvert get ég leitað og hver er réttur minn og barnanna til að umgangast foreldra sína jafnt?
Kveðja,
GMB
Góðan daginn!
Í bréfinu spyrðu hver réttur þinn er gagnvart börnunum. Mín skoðun er sú að við þurfum að setja rétt barnanna ofar rétt foreldrana og skoða hver réttur þeirra er. Það sem er best fyrir börnin ykkar er að þau fái að halda góðum og innihaldsríkum tengslum við ykkur bæði. Rannsóknir sýna að skilnaður þarf ekki að vera slæmur fyrir börnin ef foreldrar eru samstíga og styðja við börnin á þeirra forsendum.
Það er því mjög brýnt að þið foreldrarnir fái aðstoð við það að koma á sáttum ykkar á milli. Þið þurfið að fá þjálfun í að tala saman út frá sanngjörnum samskiptum með hag barna ykkar í forgrunni.
Til eru sérfræðingar í sáttamiðlun sem geta aðstoðað ykkur foreldrana og einnig verið til staðar fyrir börnin líka. Ég get bent á Foreldrahús sem dæmi um stofnun sem býður upp á þessa þjónustu.
Ég skoðaði sérstaklega áhrif skilnaðar á börn á sínum tíma í námi mínu í sálfræði og það sem ég sé í dag kom glögglega fram í rannsóknum. Börn sem eiga forelda sem hafa skilið fá oft minni aðgang að foreldrum sínum og það verður til einskonar rof í samskiptum sem veldur því að þau þurfa að læra að bíða með þarfir sínar eða jafnvel að slökkva alveg á þeim. Þetta getur einnig gerst í fjölskyldum þar sem báðir búa á heimilinu en aðilar eru fjarverandi vegna vinnu og fleira. Samfélagið okkar er ekki byggt upp með þarfir barna okkar í huga, sem mér þykir miður.
Hér á árum áður var stundum nóg að annar aðilinn væri fyrirvinnan. Í dag þurfa hins vegar oft báðir að vinna úti, fyrirtækin okkar eru orðin fínni en heimilin og til er ætlast að fólk stundi vinnu sína eins og hún skipti mestu máli. Sem er ekki raunveruleikinn, því börnin eru það sem við þurfum fyrst og fremst að vernda og passa upp á. Vinna er nauðsynleg en hún á aldrei að vera miðpunkturinn.
Þú útskýrir mjög vel í bréfinu þínu hvernig þú hafir unnið lengi og þá barnauppeldið farið meira á móðurina. Ég myndi segja það mjög mikilvægt fyrir börnin að þú fáir tækifæri til að halda áfram að mynda tengsl við þau, því allir þurfa á báðum foreldrum sínum að halda til að mynda örugg geðtengsl.
Til eru fjölskyldur sem hafa fundið upp kerfi þar sem báðir foreldrar eru í miklum tengslum við börnin sín, þrátt fyrir að til skilaðar hafi komið. Það krefst mikillar vinnu og vilja til að setja þarfir barnanna í fyrsta sætið.
Ég er ótrúlega ánægð að lesa svona bréf eins og frá þér þar sem feður skipta mjög miklu máli fyrir börn sín. Ég tel mikilvægt að vinna svona sáttarvinnu með aðstoð fagfólks.
Ég óska fjölskyldu þinni og þá sér í lagi börnunum allt hins besta og hvet þig til að gefast ekki upp heldur vinna þetta mál áfram með sátt og samlyndi fyrir börnin í huga.
Gangi þér alltaf sem best.
Kær kveðja,
Elínrós Líndal ráðgjafi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR.