„Það má byrja að róa 2. maí og það verður sjósett á morgun,“ segir Sr. Karl V. Matthíasson, fyrrverandi alþingismaður, prestur og trillukarl, og tilhlökkunin leynir sér ekki í röddinni.
„Það má byrja að róa 2. maí og það verður sjósett á morgun,“ segir Sr. Karl V. Matthíasson, fyrrverandi alþingismaður, prestur og trillukarl, og tilhlökkunin leynir sér ekki í röddinni.
„Það má byrja að róa 2. maí og það verður sjósett á morgun,“ segir Sr. Karl V. Matthíasson, fyrrverandi alþingismaður, prestur og trillukarl, og tilhlökkunin leynir sér ekki í röddinni.
Hann hefur stundað sjóinn á lítilli trillu gerðri út frá Arnarstapa á sunnanverðu Snæfellsnesi við annan mann síðan 2019.
„Við erum bara á litlum bát, gamalli trillu, sem gamall maður átti hérna. Þetta er enginn ofurbátur og ég er ekki þannig mikill sjómaður. Ég er ekki einhver rosa töffari - fer hægar yfir má segja. Mér finnst nú að það ætti að tala við öflugri trillukarla en mig,“ segir hann.
Karl segir, í samtali við Morgunblaðið, smábát ekki bara vera smábát. Það sé hægt að skipta þeim í flokka. Það séu bátar sem sigli fleiri fleiri mílur á klukkustund á meðan aðrir bátar sigli 5-6 mílur á sama tíma.
Segist Karl ekki vita hvort hann sé drifinn áfram af fortíðarþrá en hann hafi gaman að sjómennskunni.
„Á sjónum tengist maður við lífið, náttúruna og söguna. Þetta er bras og ævintýramennska. Það er gaman að vera á bryggjunni og hitta félagana, sem eru á hinum bátunum. Þetta eru síðustu leifar náttúrulegs lífs á Íslandi,“ segir Karl, hlær glaðlega og bætir því við að búið sé að ofurvélvæða og ofurtæknivæða allt sem miði að hámarks gróða og hámarks arðsemi.
Talið berst að strandveiðikerfinu, sem hann segist ekki hafa hugsað mjög djúpt út í. Rói ekki til að sækja sér lífsviðurværi en fyrir öðrum kunni sjómennskan að vera mikið tekjuspursmál.
„Maður fer bara eftir þeim lögum og reglum sem sett eru rétt eins og stórútgerðirnar fara eftir þeim reglum og lögum sem þær hafa í höndunum. Stundum sé það auðvitað þannig að það sé mánudagur og bræla eða fimmtudagur og búin að vera bræla alla vikuna.
„Það getur stundum staðið þannig á lægðum að góða veðrið er um helgar þegar þú mátt ekki róa.“
Fyrrverandi þingmaðurinn segir kerfið niðurnjörvað og veltir því fyrir sér hvort það ætti að leyfa hverjum bát að hafa ákveðna daga og meira frjálsræði. Þá komi aftur upp spurningin um löndun og vigtun á fiski og ýmis útfærsluatriði sem þurfi að huga að.
Telur hann þó að leyfa mætti smábátum að veiða meira magn en samkvæmt reglugerð fyrir fiskveiðiárið 2023-2024 og almanaksárið 2024 er strandveiðum ráðstafað heimildir fyrir tíu þúsund tonnum af þorski, eitt þúsund tonnum af ufsa og eitt hundrað tonnum af karfa. Sýnist Karli ágætt að leyfa til dæmis veiðar á helmingi meiri þorski eða 15 þúsund tonnum.
Þá bendir hann sérstaklega á þær aðstæður sem geti skapast þegar menn séu í mokfiskeríi úti á sjó og geti hæglega veitt eitt og hálft tonn en þurfi að koma í land með 800 kíló þar sem Fiskistofa taki allt umfram það magn á hverjum degi.
„Það mætti hækka markið yfir daginn, skammturinn mætti vera meiri,“ segir hann og spyr blaðamann einnig hvaða sanngirni sé í því ef smábátasjómenn á vestanverðu landinu væru ef til vill búnir að veiða megnið af því sem mætti veiða á strandveiðitímabilinu áður en fiskurinn færði sig austur fyrir land.
Karl segist merkja að margir séu farnir að sækja í strandveiðarnar. Möguleika fólks til að verða sjálfstæðir atvinnurekendur og stofna lítil fyrirtæki. Segir hann að í gamla daga, upp úr 1970, hafi fleiri þúsund sjómenn verið á Íslandi en núna séu þeir tiltölulega fáir.
„Sjórinn var alltaf svo mikið tækifæri fyrir unga duglega menn en nú eru fleiri hundruð manns á biðlista fyrir plássi á togara.“
Lífið á sjónum segir hann afskaplega gott en það megi þó alveg segja að hann sakni þeirra daga þegar hann gat gengið niður í fjöru, skrapað bátinn og málað. Þá hafi komið einn skoðunarmaður. Í dag sé aftur miklu meira eftirlit.
„Það eru drónar að svífa yfir þér. Þú hendir einum ufsa og færð hótun um að vera sviptur veiðileyfi. Þú ert að veiða á grunnu vatni og færð kannski lítinn ufsatitt sem er að sprikla í höndunum á þér og þú þarft að taka hann um borð í stað þess að leyfa honum að lifa. Reglur verða svo öfgafullar,“ segir hann.
Segist hann bara hafa farið út á sjó og veitt fisk og komið með hann í land. Stundum hafi fiskurinn verið flattur en stundum menn komið og keypt hann, sótt hann.
„Mitt hjarta stendur með smábátaútgerðinni og hversu vistvæn hún er. Smábátaútgerð skapar mikla vinnu. Það iðar allt af lífi á höfninni; það er fólk í vinnu við að taka á móti fiski, flytja hann og vinna. Sum pláss, sem eru orðin kvótalaus, hafa af þessu mikinn ábata,“ segir Karl.
Karl sagði frá því á samfélagsmiðlum í vikunni að strandveiðar ársins færu að hefjast og því að þegar hann leggi í ferð fari andlegt rót af stað. Þá hugsi hann um fjölskyldu sína og finni hvað hann elski. Hann biðji fyrir þeim öllum og þakki. Þá biðji hann fyrir landi sínu og þjóð og þess að Guð leiði öll hvar sem þau séu stödd á lífsins ferðalagi óháð viðfangsefnum.
Segir presturinn um skrifin að þegar einhver skil séu í lífi manns þá hugsi hann oft um sitt fólk og tilveruna - dýpstu rökin. „Hvort sem þú ert að fara nokkrar mílur út á sjó eða í flug til Buenos Aires kemur það einhverju róti á hugann. Kannski einnig því það er tóm til að hugsa um það, segir hann og það má heyra hann glotta á línunni.“
Segir hann aðspurður boðskap skrifa sinna í vikunni alls ekki tengjast hafinu eða þeim hættum sem þar hafa sögulega leynst en sjálfur lenti hann í kröppum dansi á þessum tíma síðasta árs þegar hann féll útbyrðis.
Atvikið átti sér stað við bryggju í Arnarstapa en þar liggja oft margir bátar að og lítið annað hægt að gera en að stökkva á milli þeirra til að koma sér til og frá bryggju. Karli til happs voru vitni að óhappinu og skipsfélagi hans bjargaði honum heilu og höldnu á þurrt.
„Nei síður en svo, alls staðar getur komið eitthvað fyrir, hvort sem maður er á sjó, landi eða fer um loftsins vegu,“ segir guðsmaðurinn að lokum, rétt í þann mund sem hann heldur inn í nýtt strandveiðitímabil - heldur til sjós.