Reykjavíkurborg veitti olíufélögum undanþágur á gjöldum sem nema milljörðum króna. Tillaga um að innri endurskoðun rýni aðdraganda samninganna var frestað á fundi borgarráðs í dag.
Reykjavíkurborg veitti olíufélögum undanþágur á gjöldum sem nema milljörðum króna. Tillaga um að innri endurskoðun rýni aðdraganda samninganna var frestað á fundi borgarráðs í dag.
Reykjavíkurborg veitti olíufélögum undanþágur á gjöldum sem nema milljörðum króna. Tillaga um að innri endurskoðun rýni aðdraganda samninganna var frestað á fundi borgarráðs í dag.
Í samningunum sem um ræðir þá þurfa olíufélög ekki að greiða innviðagjald né byggingaréttargjald á reitum sem þeir hyggjast byggja á.
Þetta segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is.
„Þarna eru boðin óeðlileg kjör – kjör sem við höfum ekki séð áður og við skiljum ekki ástæðurnar sem liggja þar að baki. Þetta eru ríflega 6 hektarar af landi þegar allt er talið og byggingarétturinn sem þarna er gefinn afsláttur af nemur fleiri milljörðum, sem við vitum að borgarsjóður hefði gott af að fá í kassann,“ segir Hildur.
Málið á rætur að rekja til ársins 2019 þegar borgarráð samþykkti að fækka eldsneytisstöðvum um 50% fyrir árið 2025.
Reykjavíkurborg gerði þá samninga við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík sem eru þannig að olíufélögin fara í annars konar uppbyggingu á reitunum sem nú eru eldsneytisstöðvar. Þeir samningar voru samþykktir árið 2021.
„Við höfum frá upphafi talið þessa samninga mjög óeðlilega og ekki fordæmi fyrir því að samið sé um svona gríðarlega hagstæði kjör eins og lá að baki þessum samningum. Þarna þurfa olíufélögin ekki að greiða byggingaréttargjald af húsnæðisuppbyggingu og ekki svokallað innviðagjald – eins og allir aðrir uppbyggingaraðilar hér í borginni. Við skiljum ekki hvaða sjónarmið liggja þar að baki,“ segir Hildur.
„Við teljum eðlilegt að innri endurskoðun verði falið að framkvæma úttekt á aðdragandanum að þessari samningsgerð og að samningunum sjálfum. Kanna hvort að eðlileg sjónarmið hafi legið þarna að baki og hvort að bestu hagsmunum borgarinnar hafi raunverulega verið gætt við samningsgerðina,“ segir Hildur.
Hún segir að ekkert tilefni hafi verið til að veita olíufélögunum svona hagstæð kjör, sérstaklega ekki í ljósi þess að öðrum hafi ekki áður verið veittar undanþágur á fyrrnefndum gjöldum.
„Þetta eru auðvitað verulega verðmætar lóðir og mikilvægir uppbyggingareitir í borginni, í einhverjum tilfellum mjög umdeildir – hvort að þar eigi að rísa íbúðabyggð eða hvort þá skuli nýta í þágu nærþjónustu í hverfunum. Það er bara mjög óeðlilegt hvernig að þessu var staðið og við drögum í efa að þarna hafi bestu hagsmuna borgarinnar og borgarbúa verið gætt,“ segir Hildur.
Eins og fyrr segir þá frestaði meirihlutinn atkvæðagreiðslu um málið í borgarráði fyrr í dag en Hildur kveðst vonast til þess að kosið verði um tillögu sjálfstæðismanna á næsta borgarráðsfundi.