Agnes Líndal er 26 ára nýbökuð móðir úr Reykjanesbæ með brennandi áhuga á öllu sem tengist innanhússhönnun og ljósmyndun, sérstaklega filmuljósmyndun.
Agnes Líndal er 26 ára nýbökuð móðir úr Reykjanesbæ með brennandi áhuga á öllu sem tengist innanhússhönnun og ljósmyndun, sérstaklega filmuljósmyndun.
Agnes Líndal er 26 ára nýbökuð móðir úr Reykjanesbæ með brennandi áhuga á öllu sem tengist innanhússhönnun og ljósmyndun, sérstaklega filmuljósmyndun.
„Ég er oftar en ekki með einhvers konar myndavél á mér og reyni að vera dugleg að fara svolítið út fyrir þægindarammann, sem hefur svo sannarlega skilað sér,“ segir Agnes.
Hvað ertu að fást við þessa dagana?
„Ég er í fæðingarorlofi og reyni að njóta þess í botn. Svo erum við kærastinn minn, Þórhallur, í framkvæmdum í litlu íbúðinni okkar sem hefur verið skrautlegt og tímafrekt með lítið barn.“
Hvernig myndir þú lýsa heimilisstílnum þínum?
„Ég er ótrúlega spennt fyrir „mid-century modern“ en tekk, málmur, gler og djarfir litir einkenna svolítið heimilið mitt sem er á sama tíma undir skandinavískum áhrifum. Flestallt sem ég hef keypt fyrir íbúðina er „second-hand“ – maður finnur ótrúlegustu hluti í Góða hirðinum og öðrum nytjamörkuðum, og auðvitað á Facebook Marketplace.“
En fatastílnum þínum?
„Þægilegar og „oversized“ flíkur einkenna helst fatastílinn minn núna en ég er enn að reyna að átta mig á hvernig ég á að klæða mig eftir meðgöngu þar sem ég nota ekkert af fötunum sem ég klæddist áður, sem eflaust margir tengja við. Það er ákveðin tilhlökkun í því að finna fatastílinn minn upp á nýtt og hvað virkar best fyrir mig.“
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég er svo treg þegar kemur að morgunmat. Ég fæ mér yfirleitt bara það sem ég „kreiva“ þegar ég vakna – hvort sem það er kornflex, ristað brauð, bakarísmatur eða eitthvað annað gott. Það er engin rútína á þessu hjá mér, frekar slæmur vani.“
Ertu að safna þér fyrir húsgagni?
„Ég er sjúk í fallega stóla en efst á óskalistanum mínum er CH24-stóllinn hans Hans J. Wegner. Ég get svo ekki hætt að hugsa um Panton Wire, sem er einskonar „teningur“ sem kemur í tveimur stærðum. Það er nefnilega mikið notagildi í því og hægt að nota þá sér eða með fleiri teningum, á gólfi, sem hillur eða jafnvel sófaborð.“
Hvaða bók last þú seinast?
„Bók sem heitir Fyrstu mánuðirnir, annars hef ég ekki verið nógu dugleg að lesa bækur og langar að bæta það.“
Hvernig skipuleggur þú daginn þinn?
„Það er pínu erfitt að skipuleggja dagana mína í fæðingarorlofi þar sem kærastinn minn er verktaki og fer því allt eftir því hvort hann er að vinna eða ekki. Annars eyði ég flestum dögum heima með strákinn minn og fer líka reglulega í heimsóknir og er dugleg að kíkja á allt besta fólkið mitt.“
Hvernig núllstillir þú þig?
„Ég elska að eyða tíma með sjálfri mér og gera það sem gerir mig glaða, hvort sem það er að kíkja á nytjamarkaði, leggja mig eða horfa á uppáhaldsþættina mína. Svo elska ég reyndar að taka til og þrífa, það róar mig alltaf.“
Uppáhaldsborg í Evrópu?
„Ætli það sé ekki Kaupmannahöfn. Ég er ein af mörgum Íslendingum sem hafa búið í Danmörku sem mun alltaf eiga stað í hjartanu mínu. Svo eru Danir algjörir töffarar og alltaf einu skrefi á undan okkur í tísku að mínu mati.“
Hvað reynir þú að forðast í lífinu?
„Ég reyni eins og ég get að forðast óraunhæfar væntingar og bera mig saman við aðra. Það hefur aldrei komið neitt gott út úr því. Það eru bara allir að gera sitt besta í lífinu.“
Hvaða þætti eru að horfa á núna?
„Við erum á Dexter-vagninum, þeir voru loksins að koma á Netflix. Ég hef mjög gaman af spennuþáttum, svo erum við eins og allur heimurinn að jafna okkur eftir Baby reindeer á Netflix – þeir voru rosalegir!“
Hvernig hugsar þú um heilsuna?
„Ég viðurkenni það alveg að eftir að ég átti strákinn minn Marínó þá hef ég ekki hugsað eins vel um heilsuna og ég hefði viljað. Ég er samt sem áður dugleg að fara í göngutúra þegar veður leyfir. Við erum líka dugleg að panta hjá Eldum rétt – það hefur alveg bjargað geðheilsunni okkar að þurfa ekki að spá mikið í hvað við eigum að borða öll kvöld.“
Er eitthvert lag sérstaklega mikið í spilun hjá þér núna?
„Rush með söngkonunni Arya Starr – tónlist sem kallast „afrobeat“ á ensku. Það kemur mér í gott skap í hvert skipti sem ég hlusta á það.“
Hvaða flík er á óskalistanum fyrir sumarið?
„Mögulega einhver klæðileg skyrta sem hægt er að dressa upp og niður, það er alveg ómissandi að eiga góða skyrtu. Mér finnst Sporty&Rich-skyrturnar til dæmis geggjaðar. Ég væri líka til í sæta gollu sem hægt er að setja yfir sig þegar maður stekkur út. Svo eru það New Balance-skór, 530-serían klikkar ekki – það er ekki hægt að eiga of mörg pör af þeim.“
Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?
„Birgitta – tvíburasystir mín og besta vinkona mín. Hún er mín helsta fyrirmynd og stuðningsmaður númer eitt og hefur alltaf verið. Hún er alltaf tilbúin að hlusta á röflið í mér og gefur alltaf bestu ráðin. Ég veit hreinlega ekki hvar ég væri án hennar, það er meira að segja henni að þakka að ég kynntist kærastanum mínum Þórhalli.
Svo er hann líka sú manneskja sem hefur haft mest áhrif á mitt líf, en ég kynntist honum árið 2022 á Valdimars-tónleikum á bar í Keflavík sem Birgitta bauð mér á, en kærastinn hennar er einn af gítarleikurum hljómsveitarinnar. Það vill svo til að Þórhallur er hljóðmaður og var að vinna á því giggi. Eftir það kvöld breyttist allt og við eigum saman einn strák og alveg yndislegt líf.“