Valgerður Gréta Gröndal matarbloggari, alla jafna kölluð Valla Gröndal, er búin að gera sína eigin uppskrift af hinum sívinsæla „Subway“ bát með kjötbollum en hann er ekki lengur fáanlegur á Íslandi. Hún er meira segja komin með uppskrift að „Subway“ brauði sem er fullkomið með kjötbollunum.
Valgerður Gréta Gröndal matarbloggari, alla jafna kölluð Valla Gröndal, er búin að gera sína eigin uppskrift af hinum sívinsæla „Subway“ bát með kjötbollum en hann er ekki lengur fáanlegur á Íslandi. Hún er meira segja komin með uppskrift að „Subway“ brauði sem er fullkomið með kjötbollunum.
„Það vill svo til að ég vann á Subway þegar ég var unglingur og í þá daga var hægt að fá kjötbollur í marinarasósu á bátinn sinn. Ekki löngu seinna voru þær ekki lengur í boði og síðan þá ekki hægt að kaupa kjötbollubát hérlendis að mér vitandi. Ég viðurkenni að eftir þessa starfsreynslu hef ég ekki verið brjálaður Subway aðdáandi enda kannski borðað Subway fyrir lífstíð á þeim tíma. Dóttir mín gæti hins vegar lifað á þessum samlokum og hefur spurt nokkrum sinnum hvers vegna það sé ekki hægt að fá kjötbollur á bátinn sinn á Íslandi eins og annarsstaðar í heiminum,“ segir Valla.
Valla tók því til þess ráðs að reyna að gera kjötbollubátinn og fara alla leið. Aðspurð segir hún að þetta taki sinn tíma en það sé alveg þess virði.
Hér er á ferðinni uppskriftinni hennar Völlu að ristuðum „Subway“ bátum með kjötbollum, heimagerðri sósu og bræddum osti sem aðdáendur bátsins eiga eftir að missa sig yfir.
„Subway“ brauð
- 400 ml vatn, um 37°C heitt
- 2 tsk. þurrger
- 2 ½ tsk. sykur
- 1 ½ tsk. himalaya salt eða fínmalað sjávarsalt
- 3 msk. olía
- 600 g hveiti (rautt venjulegt, ekki brauðhveiti) + meira ef deigið er of blautt.
- 1-2 tsk. smjör
Aðferð:
- Setjið vatn, ½ tsk. af sykrinum og ger í hrærivélaskál og látið standa í 5 mínútur.
- Bætið hveiti, restinni af sykrinum, salti og olíu saman við og hnoðið rólega í 5-6 mínútur. Ef deigið er of blautt setjið þá 1 msk. af hveiti út í í einu þar til deigið hættir að festast við skálina en er samt vel rakt.
- Vigtið deigið og fáið út heildarþyngd. Deilið deiginu í 5 jafna hluta og mótið kúlur. Setjið bökunarpappír á plötu, úðið yfir með olíuspreyi. Setjið kúlurnar á plötuna með góðu bili á milli. Spreyið létt yfir kúlurnar með olíuspreyinu og hyljið með plastfilmu. Hefið í 1 klukkustund.
- Takið einn hluta af deiginu og rúllið út í ferhyrning sem er um 20x20cm. Rúllið því upp eins og ef þetta væri kanilsnúðadeig. Rúllið þá deiginu aðeins fram og aftur þar til saumurinn er alveg fastur og klípið deigið saman í endunum. Þá ætti deigrúllan að ná ca. 24cm.
- Endurtakið með hinar kúlurnar og gott að hafa þær sem jafnastar útlits. Þá er gott að horfa á fyrstu deigrúlluna og hafa hana til hliðsjónar.
- Leggið rúllurnar eða deiglengjurnar á bökunarplötuna. Mér finnst gott ef þær snertast þegar þær hefast og bakast en það er líka gott að hafa gott bil á milli, bæði betra! Ef þið setjið 5 rúllur á plötu munu þær snertast svo kannski er gott að miða við 2 og svo 3 á plötu.
- Úðið aðeins yfir deigið með olíuspreyi, bara rétt aðeins svo plastfilman sem þið þurfið að leggja yfir festist ekki við. Hefið á borði í 2 klukkustundir. Það er freistandi að stytta tímann en það er alveg þess virði að bíða svona lengi, trúið mér! Fínt að fara í sund eða eitthvað á meðan. Þegar brauðin eru fullhæfur eru þau um 30cm að lengd og líkjast mjög klassísku Subway brauðunum.
- Hitið ofninn í 190°C undir og yfirhita. Setjið lítið form með vatni á ofngrind svo það myndist gufa í ofninum.
- Úðið brauðin með vatni og setjið þau í ofninn. Eftir 10 mínútur takið þið út vatnið og bakið áfram í 10-12 mínútur.
- Takið brauðin út og penslið örlitlu smjöri yfir þau. Færið þau á grind og leggið hreint viskastykki yfir þau. Leyfið þeim að kólna og njótið með því áleggi sem ykkur hugnast best.
Kjötbollurnar
- 500 g nautahakk (eða 50/50 nauta og grísa)
- 1 meðalstór laukur, smátt saxaður
- 3 hvítlauksgeirar
- ½ bolli brauðrasp
- 1 stórt egg
- 4 msk. rifinn parmesanostur
- 1 msk. þurrkuð steinselja
- 2 tsk. fínmalað sjávarsalt eða himalaya salt
- 1 tsk. nýmalaður svartur pipar
Aðferð:
- Setjið álpappír á bökunarplötu og setjið til hliðar. Hitið ofninn í 200°C blástur.
- Blandið öllu saman í skál og hnoðið saman með höndunum þar til allt er vel blandað saman, varist þó að hnoða of lengi því þá verða kjötbollurnar eins og kjötfarsbollur og það viljum við alls ekki.
- Mótið bollurnar með höndunum, ég vigtaði hverja um 50 g.
- Setjið bollurnar á bökunarplötuna og þegar þær eru allar komnar bakið þær í ofninum í 20 mínútur.
Kjötbollusósan (Marinara)
- 1 msk. ólífuolía
- 1 meðalstór laukur, smátt saxaður
- 3 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
- 160 g tómatpúrra
- 2 dósir saxaðir tómatar
- 1 ½ msk. þurrkað oreganó
- 1 msk. sjávarsalt
- 1 tsk. nýmalaður svartur pipar
- 2 tsk. sykur
- Fersk basilíka, um 2 msk. söxuð
Aðferð:
- Saxið laukinn og hvítlaukinn en blandið ekki saman.
- Hitið olíuna á meðalhita í meðalstórum potti og setjið laukinn út í. Steikið í nokkrar mínútur þar til hann verður glær, varist að brenna hann.
- Setjið hvítlaukinn og tómatpúrruna saman við og hrærið saman við laukinn.
- Bætið niðursoðnu tómötunum saman við ásamt kryddinu en geymið basilíkuna.
- Látið sósuna malla á lágum hita í 20 mínútur.
- Setjið basilíkuna saman við og takið pottinn af hellunni.
Samsetning bátanna
- 5 heimagerð Subway brauð
- Kjötbollusósa
- Kjötbollur
- Rifinn ostur eftir smekk
- Fersk basilíka
- Rifinn parmesanostur
Aðferð:
- Útbúið brauðin samkvæmt uppskrift.
- Gerið sósuna og kjötbollurnar.
- Hafið áfram kveikt á ofninum á 200°C.
- Skerið brauðin eftir endilöngu í miðjunni og kjötbollurnar í tvennt
- Setjið sósuna í raufarnar og raðið kjötbollunum ofan á sósuna.
- Smyrjið sósu yfir kjötbollurnar og toppið með rifnum osti.
- Bakið í ofninum þar til osturinn er farinn að gyllast.
- Takið bátana út og raspið parmesanost yfir. Toppið með ferskri basilíku ef vill.
- Berið fram og njótið.