„Í gegnum innigarðinn kemur mikil dýpt í húsið“

Heimili | 19. maí 2024

„Í gegnum innigarðinn kemur mikil dýpt í húsið“

Stefanía Sigfúsdóttir arkitekt og eiginmaður hennar, Gísli Valur Guðjónsson hagverkfræðingur, keyptu einbýlishús í Fossvogi árið 2013. Húsið var teiknað af Ferdinand Alfreðssyni arkitekt. Hann byggði húsið fyrir sig og fjölskyldu sína og bjó þar alla tíð eða þangað til Stefanía og fjölskylda hennar festu kaup á því. Áður en þau fluttu inn voru gerðar mjög miklar endurbætur á húsinu og það stækkað. Stefanía segir að endurbæturnar hafi verið gerðar í samræmi við arkitektúr hússins sem hefur að geyma heilmikla töfra eins og sérstakan innigarð sem er í miðju húsi.

„Í gegnum innigarðinn kemur mikil dýpt í húsið“

Heimili | 19. maí 2024

Allar innréttingarnar í húsinu voru sérsmíðaðar hjá Hegg. Í eldhúsinu …
Allar innréttingarnar í húsinu voru sérsmíðaðar hjá Hegg. Í eldhúsinu er White Storm, 20 mm þykkur steinn, á borðplötunum.

Stefanía Sigfúsdóttir arkitekt og eiginmaður hennar, Gísli Valur Guðjónsson hagverkfræðingur, keyptu einbýlishús í Fossvogi árið 2013. Húsið var teiknað af Ferdinand Alfreðssyni arkitekt. Hann byggði húsið fyrir sig og fjölskyldu sína og bjó þar alla tíð eða þangað til Stefanía og fjölskylda hennar festu kaup á því. Áður en þau fluttu inn voru gerðar mjög miklar endurbætur á húsinu og það stækkað. Stefanía segir að endurbæturnar hafi verið gerðar í samræmi við arkitektúr hússins sem hefur að geyma heilmikla töfra eins og sérstakan innigarð sem er í miðju húsi.

Stefanía Sigfúsdóttir arkitekt og eiginmaður hennar, Gísli Valur Guðjónsson hagverkfræðingur, keyptu einbýlishús í Fossvogi árið 2013. Húsið var teiknað af Ferdinand Alfreðssyni arkitekt. Hann byggði húsið fyrir sig og fjölskyldu sína og bjó þar alla tíð eða þangað til Stefanía og fjölskylda hennar festu kaup á því. Áður en þau fluttu inn voru gerðar mjög miklar endurbætur á húsinu og það stækkað. Stefanía segir að endurbæturnar hafi verið gerðar í samræmi við arkitektúr hússins sem hefur að geyma heilmikla töfra eins og sérstakan innigarð sem er í miðju húsi.

Gluggar í húsinu voru síkkaðir og gólfhiti settur í gólfin. …
Gluggar í húsinu voru síkkaðir og gólfhiti settur í gólfin. Þess var gætt að gera húsið upp í takt við upprunalega hönnun þess.

Stefanía útskrifaðist af stærðfræðibraut úr Verzlunarskóla Íslands árið 1999 og flutti eftir það til Þýskalands þar sem hún lærði arkitektúr. Í dag rekur hún arkitektastofuna Atrium ásamt Hörpu Heimisdóttur en nafnið þýðir innigarður á þýsku og dregur nafn sitt af innigarðinum í þessu fallega húsi.

„Húsið er mjög skemmtilega skipulagt í kringum 36 fm innigarð (e. atrium) í miðju hússins. Hann slítur húsið svolítið í sundur þar sem það eru gangar meðfram honum sem maður upplifir ekki sem ganga heldur hluta af rýmunum. Hann veitir mikla birtu inn í húsið og tengir húsið saman sjónrænt þar sem þú stendur í einu rými og horfir í gegnum innigarðinn inn í annað rými í húsinu. Kropparnir á húsinu eru ekki mjög djúpir og fá birtu frá innigarði og útvegg eða úthlið hússins, þ.e. frá tveimur hliðum og innigarður virkar sem birtugjafi fyrir húsið. Húsinu, sem er eins og kassi, er skipt upp í tvo L-laga hluta með mismunandi lofthæð í kringum innigarðinn. Skipulagi hússins er svo skipt upp í hjónasvítu, vinnustofu og forstofu öðrum megin og svo barnaherbergi og sjónvarpsherbergi hinum megin og eru þessir tveir hlutar tengdir saman í gegnum alrýmið með eldhúsi, borðstofu, stofu og arinstofu. Húsið er frekar lokað út á við en opnar sig inn á við að innigarðinum. Það kom aldrei til greina að byggja yfir innigarðinn þar sem hann er hjartað í húsinu. Húsið er ekki mjög stórt en virkar stærra en það er þar sem það er mikil birta í húsinu í gegnum innigarðinn og er mjög vel skipulagt og hver fermetri nýtist mjög vel. Húsið er 230 fm í heildina þar sem bílskúr er 20 fm og íbúðarrýmið er 210 fm og við bjuggum þarna sjö manna fjölskylda, sem sagt 30 fm á hvern íbúa,“ segir Stefanía en fjölskyldan flutti á dögunum í miðbæ Reykjavíkur og húsið er komið í hendurnar á góðu fólki. Nú vinnur Stefanía að endurbótum á nýja húsinu sem er við Bergstaðastræti.

Arinninn í húsinu setur svip sinn á stofuna.
Arinninn í húsinu setur svip sinn á stofuna.
Á þessari ljósmynd sjást töfrar innigarðsins. Stefanía segir að hann …
Á þessari ljósmynd sjást töfrar innigarðsins. Stefanía segir að hann færi mjög mikla birtu inn í húsið og sé mjög mikið notaður.

Þegar Stefanía er spurð út í endurbætur á húsinu kemur í ljós að byggt var við húsið og það stækkað.

„Við byggðum við húsið. Tókum 10 metra lengd af austurhliðinni og lengdum út um 2,5 metra og stækkuðum það þar með um 25 fermetra. Þar er að finna fjögur barnaherbergi sem voru 6,5 fermetrar að stærð þegar við keyptum húsið og urðu tæpir 13 fermetrar eftir stækkun. Samhliða stækkuninni má segja að við höfum endurnýjað allt húsið og garðinn. Við skiptum um alla glugga og hurðir, innréttingar og gólfefni svo eitthvað sé nefnt. Skipulagið hélt sér eins og það var, enda mjög vel hannað og skipulagt hús eftir Ferdinand. Þegar við keyptum húsið voru 30 cm háir fletir frá gólfi undir gluggum og fyrir framan þá voru ofnar. Við tókum ofnana, settum hita í gólfið og settum gólfsíða glugga. Við leystum deili sem voru ekki möguleg þegar húsið var byggt árið 1978 sökum þess að nútímalegri lausnir eins og gólfhiti og vel einangrandi gler voru ekki aðgengileg á þeim tíma,“ segir Stefanía, spurð um húsið.

Stefanía teiknaði allar innréttingar í húsið, innihurðir, eldhús, baðherbergi, forstofu, þvottahús, svefnherbergi, vinnustofu og barnaherbergi.

„Allar innréttingar eru úr tekki og innihurðir eru hvítar í sama lit og veggirnir og liggja í sama plani og verða þannig hluti af veggjunum,“ segir Stefanía.

Sérhönnuð herbergi fyrir dæturnar

Stefanía lagði metnað í að gera barnaherbergin sem praktískust fyrir dæturnar.

„Það eru fjögur barnaherbergi í húsinu sem voru stækkuð. Þau voru bara stækkuð á lengdina en ekki breiddina og voru því frekar löng og mjó svo ég lét bakið á fataskápunum snúa inn í herbergið og við það myndaðist lítið „fataherbergi“ inni í barnaherbergjunum. Þar var gólfsíður spegill og tenglar fyrir skvísurnar þar sem við vorum með fimm stelpur á heimilinu og þær deildu frekar litlu baðherbergi saman og gátu því tekið sig til í fataherberginu. Við endann á herberginu var gluggi eftir allri breiddinni og þar undir var sérsmíðað skrifborð og skúffubekkur með pullu ofan á og myndaði smá setkrók fyrir stelpurnar og vinkonur sem voru í heimsókn,“ segir hún.

Hverju vildir þú, sem arkitekt, ná fram með hönnuninni á húsinu?

„Húsið, skipulag þess, staðsetning og ytra byrði þar sem steyptir, ómálaðir útveggir fá að njóta sín, er virkilega vel hannað af Ferdinand. Mitt verkefni var að sýna verki hans virðingu, varðveita hönnunareinkenni hússins en á sama tíma laga það að okkar þörfum og nútímanum. Tímalaus hönnun sem tekur samt tillit til hússins og þess tíma þegar það var byggt. Mér finnst hús/heimili eiga að vera rammi utan um fólkið sem býr í húsinu þar sem fjölskyldan á samverustundir og býr til góðar minningar. Ekki vera að eltast við tískustrauma heldur hanna húsið þannig að það eldist vel og haldi vel utan um heimilisfólkið,“ segir hún.

Innigarðurinn breytir húsinu

Það er ekki mikið hannað af húsum í dag með innigörðum. Hvers vegna ætli það sé?

„Ætli það sé ekki af því að í dag er oftast verið að hugsa um að byggja sem flesta fermetra og nýta lóðirnar sem mest frekar en að hugsa um gæði þeirra fermetra sem eru byggðir. Nýjar íbúðir í dag eru til dæmis byggðar mjög djúpar og oft með glugga á tveimur hliðum/áttum frekar en að byggja minni íbúðir sem eru með meiri birtu og gæðum. Það þyrfti að hugsa meira um gæði heldur en magn.

Það ætti að byggja fleiri hús með innigörðum á Íslandi þar sem við búum ekki við mikla birtu og í innigörðum ertu með mjög skjólsælt útisvæði þar sem húsið sjálft myndar skjól í innigarðinum. Í gegnum innigarðinn kemur mikil dýpt í húsið og í norðurhlutanum var hægt að sjá norðurljósin í gegnum innigarðinn. Það sem er skemmtilegt við innigarðinn er líka að sitja í húsinu og horfa í gegnum hann, sjá tré í nágrenninu án þess að skynja umhverfið í kringum húsið og líða eins og þú sért staddur úti í skógi með tré allt í kring. Í veislum höfum við sett veislutjald í innigarðinn og opnað þrjár hurðir sem eru inni í innigarðinn og þá stækkar húsið um 36 fm og skapast skemmtilegt flæði um húsið og innigarðinn og úti og inni flæða saman í eitt,“ segir hún.

Horft úr eldhúsinu inn í stofu. Viðurinn í loftunum skapar …
Horft úr eldhúsinu inn í stofu. Viðurinn í loftunum skapar hlýleika.

Hvað finnst þér skipta máli þegar hús eru endurhönnuð og tekin í gegn?

„Það er mikilvægt að taka tillit til forms hússins og staðsetningar. Mér finnst skipta miklu máli að vanda til verka og velja hluti og efni sem endast vel.“

Finnst þér fólk oft og tíðum vera að elta tískustrauma of grimmt?

„Já og nei, það er ekkert endilega allra að gefa sér tíma í að kafa ofan í hluti tengda hönnun og arkitektúr og eðlilega styttir fólk sér þá leið. Aðalatriðið er að skapa rými sem fær fólk til að vilja nota þau og þar sem fólki líður vel, enda geta gæði húsnæðis haft áhrif á andlega heilsu fólks.“

Tóku loftin niður, létu pússa þau og settu upp aftur

Það sést vel á myndunum hvernig ýmsir hlutir eru látnir falla inn í umhverfið eins og til dæmis hvernig gardínukappar eru fræstir inn í loftið. Getur þú sagt mér meira frá þessu og útskýrt betur? Er eitthvað fleira af þessum toga í húsinu?

„Viðarloftið í húsinu er upprunalegt og er úr oregon pine. Við tókum það niður og Heggur pússaði það upp fyrir okkur, mattlakkaði og síðan var það svo sett aftur upp. Í hærri hluta hússins er upprunalegt viðarloft og grá ljós en í lægri hlutanum er hvítt loft með hvítum ljósum. Allir gluggar og útihurðir í húsinu voru smíðaðar úr oregon pine, sama við og er í loftinu. Smíðuð var líka ný útidyrahurð og bílskúrshurð sem var reyndar gönguhurð þar sem bílskúr var aldrei notaður fyrir bíl heldur sem geymsla og eru þær báðar í plani og líta út eins og heill timburveggur og opnast báðar út þar sem það er steypt þak yfir útgangi úr húsinu. Oregon pine-viðurinn kemur mjög vel út á móti steyptu útveggjunum.“

Ertu með dálæti á einhverjum ákveðnum efnivið? Er einhver efniviður sem passar við allt?

„Náttúruleg efni og textíll – er hrifin af því að nota til dæmis teppi og tau-gardínur bæði fyrir glugga og janvel sem skilrúm milli rýma. Er núna til dæmis að setja íslenskt grágrýti á hús sem ég er að endurgera fyrir fjölskylduna, en þá er grágrýtið tekið og skorið niður í flísar og náttúrulega efnið fær að njóta sín.“

mbl.is