Sigríður Erla Sturludóttir lögfræðingur og Bjarki Vigfússon hagfræðingur gengu í hjónaband 30. desember síðastliðinn. Þau miðluðu málum þegar kom að brúðkaupinu en hún sá fyrir sér 200 manna veislu á Búðum á meðan hann sá fyrir sér eitthvað lítið og látlaust. Þegar veikindi komu upp í fjölskyldunni ákváðu þau að giftast sem fyrst og skipulögðu brúðkaup á mettíma. Dagurinn var töfrum líkastur því allir lögðust á eitt til þess að gera hann sem bestan.
Sigríður Erla Sturludóttir lögfræðingur og Bjarki Vigfússon hagfræðingur gengu í hjónaband 30. desember síðastliðinn. Þau miðluðu málum þegar kom að brúðkaupinu en hún sá fyrir sér 200 manna veislu á Búðum á meðan hann sá fyrir sér eitthvað lítið og látlaust. Þegar veikindi komu upp í fjölskyldunni ákváðu þau að giftast sem fyrst og skipulögðu brúðkaup á mettíma. Dagurinn var töfrum líkastur því allir lögðust á eitt til þess að gera hann sem bestan.
Sigríður Erla Sturludóttir lögfræðingur og Bjarki Vigfússon hagfræðingur gengu í hjónaband 30. desember síðastliðinn. Þau miðluðu málum þegar kom að brúðkaupinu en hún sá fyrir sér 200 manna veislu á Búðum á meðan hann sá fyrir sér eitthvað lítið og látlaust. Þegar veikindi komu upp í fjölskyldunni ákváðu þau að giftast sem fyrst og skipulögðu brúðkaup á mettíma. Dagurinn var töfrum líkastur því allir lögðust á eitt til þess að gera hann sem bestan.
Sigríður Erla og Bjarki voru búin að vera par í fimm og hált ár þegar þau giftu sig í Dómkirkjunni. Sigríður Erla segir að Tinder hafi leitt þau saman. Þetta fyrsta og eina Tinder-deit þeirra beggja gerði það að verkum að þau þurftu ekki að fara á fleiri deit því þau höfðu fundið hvort annað.
„Við könnuðumst hvort við annað áður en Tinder leiddi okkur saman eins og svo mörg önnur pör aldamótakynslóðarinnar. Fyrsta og eina Tinder-stefnumótið sem við bæði fórum á heppnaðist líka svona vel,“ segir Sigríður Erla og brosir.
Vissir þú strax að hann væri sá rétti?
„Ég var í það minnsta kosti ekki lengi að komast að því enda höfum við verið nánast óaðskiljanleg frá því við hittumst á fyrsta stefnumótinu,“ segir hún.
Sigríður Erla er alin upp á Snæfellsnesi en faðir hennar, Sturla Böðvarsson, var bæjarstjóri í Stykkishólmi um tíma. Brúðkaupsleikir voru í uppáhaldi þegar hún var lítil stelpa og móðir hennar, Hallgerður Gunnarsdóttir lögfræðingur, hafði saumað brúðarslör fyrir hana úr gamalli gardínu til þess að gera leikinn skemmtilegri.
„Ég hafði alltaf séð fyrir mér stórt brúðkaup á Snæfellsnesi, helst á Hótel Búðum! Ég teiknaði endalaust margar myndir af brúðhjónum og brúðarkjólum þegar ég var yngri, hannaði brúðarkjóla úr lökum og setti á mig blúndugardínu sem mamma hafði saumað fyrir slör. Síðan var brúðarmarsinn spilaður í græjunum og pabbi látinn ganga með mér inn stofugólfið og mamma stundum fengin til að vera presturinn, hvort það hafi verið brúðgumi man ég hins vegar ekki! Svo brúðkaup hafa alltaf verið mér ofarlega í huga,“ segir Sigríður Erla og hlær.
Segðu mér frá brúðkaupsdeginum. Hvers vegna varð þessi dagur fyrir valinu?
„Við giftum okkur þann 30. desember síðastliðinn en það var í rauninni systir mín sem stakk upp á þessari dagsetningu. Þessi tími árs er svo hátíðlegur og okkur þótti kostur að þurfa ekki að pæla í veðrinu,“ segir hún og bætir við:
Athöfnin hófst klukkan 16.00 en mér þótti mikilvægt að það væri nægur tími til stefnu fyrir undirbúning og myndatöku þar sem við vildum taka myndir áður en athöfnin hæfist og þar með þyrftu gestirnir okkar ekki að bíða eftir okkur á meðan við færum í myndatöku fyrir veisluna. Við höfðum okkur bæði til heima og þangað kom förðunarfræðingur sem farðaði mig, mömmur okkar og systur mínar. Það var dásamlegt að eiga notalega stund hér heima, borða í rólegheitum og slaka á, enda var ég orðin kasólétt. Thelma Arngrímsdóttir vinkona mín og ljósmyndari kom og myndaði okkur við undirbúninginn en svo fórum við í Alþingisgarðinn og í Iðnó þar sem hún tók myndir af okkur,“ segir Sigríður Erla.
Athöfnin var í Dómkirkjunni og gaf séra Elínborg Sturludóttir brúðhjónin saman en hún er systir Sigríðar Erlu.
„Athöfnin var mjög hátíðleg en líka persónuleg en okkur fannst athöfnin þurfa endurspegla okkur og okkar samband ásamt árstímanum. Kristján Karl Bragason, mágur Bjarka, sá um að halda utan um tónlistina og bjó til lítinn kór fyrir tilefnið ásamt Sigríði Thorlacius sem söng einsöng. Eftir athöfnina keyrðum við á gömlum bíl frá bróður mínum í frekari myndatöku með Thelmu áður en við fórum svo í móttökuna í Ásmundarsal. Salinn höfðu mágkona mín, vinkonur og systir hjálpað til við að skreyta sem var ómetanlegt enda myndar það mjög mikilvæga stemningu. Tómas R. Einarsson og Ómar Guðjónsson léku létta tóna áður en formleg dagskrá tók við. Þar sem veislan var ekki beint hefðbundin brúðkaupsveisla, enda standandi boð, þurfti að passa að kvöldið færi ekki bara í ræðuhöld, en það er margt fólk í kringum okkur sem þykir gaman að tala! Mikilvægast þótti okkur að fólk fengi tækifæri til að spjalla saman, njóta samveru hvert annars, skála og borða góðan mat. Allt þetta tókst eins og í sögu og við erum svo þakklát fyrir allt fólkið okkar sem fagnaði með okkur,“ segir Sigríður Erla.
Voruð þið lengi að undirbúa brúðkaupsdaginn?
„Nei, það er ekki hægt að segja það þar sem við sendum út boðskortin tæpum sjö vikum fyrir brúðkaupsdaginn. Við höfðum lengi rætt brúðkaup og hvernig við vildum hafa stóra daginn en hugmyndir okkar voru svolítið mismunandi. Ég sá fyrir mér 200 manna brúðkaup á Snæfellsnesinu, þaðan sem ég er, en maðurinn minn er talsvert lágstemmdari svo hann var ekki eins spenntur fyrir því. En þar sem upp komu veikindi í fjölskyldunni síðasta haust vildi ég kýla á þetta og við komumst að samkomulagi um að hafa minna brúðkaup til þess að geta gengið í hjónaband og fagnað því sem fyrst. Í ljósi þess að ég var gengin um 24 vikur þegar ákvörðunin var endanlega tekin þá tókst mér að sannfæra manninn minn um það að ég myndi njóta mín betur með kúlu á brúðkaupsdaginn frekar en með aum brjóst og hvítvoðung í fanginu ásamt tveggja og hálfs árs dóttur okkar og því var 30. desember sleginn. Ég hafði löngu áður búið til skjal þar sem ég hafði teiknað upp nokkrar mismunandi sviðsmyndir eftir því hvernig brúðkaup yrði fyrir valinu og þar á meðal nokkra gestalista, en gestalistinn var langmesti hausverkurinn,“ segir Sigríður Erla.
Sigríður Erla sá að mestu um skipulagið á brúðkaupinu enda sérfræðingur á því sviði. Hún mælir með því að fólk setji allt upp í excel-skjal er viðkemur brúðkaupum því þá er auðvelt að velja og hafna.
„Salurinn sem varð fyrir valinu tekur að hámarki 100 manns svo við urðum að halda okkur innan þeirra marka. Í ljósi þess að ég hafði meira pælt í brúðkaupum og er almennt veisluóð kona sá ég að mestu um skipulagið. Ég byrjaði á að bóka prestinn og þar með kirkjuna, heyrði í vinkonu minni Thelmu Arngrímsdóttur ljósmyndara, förðunarfræðingi, nöfnu minni Sigríði Thorlacius og þá var ansi margt komið á listanum. Ég hvet öll tilvonandi brúðhjón til að búa til skjal með öllu því sem þau dreymir um að hafa í athöfninni eða veislunni og svo er hægt að velja og hafna eftir því sem hentar. Við gerðum það og allt gekk upp miðað við það sem við höfðum séð fyrir okkur í byrjun undirbúnings. Gott excel-skjal er gulls ígildi í brúðkaupsundirbúningi. Mitt helsta ráð fyrir tilvonandi brúðhjón er að deila út verkefnum og hafa skýra verkaskiptingu, ekki er verra að fá góðan einstakling til að halda utan um atriði á daginn sjálfan og passa upp á að allt standist. Við hjónin gátum í það minnsta vaknað á brúðkaupsdaginn og þurftum ekki að pæla í neinu í excel-skjalinu, við vorum búin að öllu og kíktum ekki á listann því við gátum hvort eð er ekki gert neitt meira á þeim tímapunkti,“ segir hún.
Aðspurð hvað standi upp úr frá stóra deginum segir hún að dóttir þeirra hafi átt stjörnuleik.
„Dóttir okkar, Ásthildur Bára, var stjarna dagsins og átti sviðið í athöfninni þannig að allir hlógu í kirkjunni. Annars var hápunkturinn að fagna með nánustu vinum og fjölskyldu og ótrúlegt hve margir komust með svo stuttum fyrirvara,“ segir hún.
Er eitthvað sem þú hefðir gert öðruvísi?
„Nei, í rauninni ekki.“
Talið berst að gæsaveislum og segir Sigríður Erla að hennar gæsun hafi verið í takt við líkamlegt ástand.
„Ég fékk frekar óhefðbundna gæsun og þar sem ég var vissulega kasólétt þá var hin „hefðbundna“ gæsun ekki spennandi fyrir mig. Vinkonur mínar komu mér á óvart, náðu að plata mig eitt sunnudagskvöld í desember. Við borðuðum saman kvöldverð og áttum dásamlega stund þar sem þær ýmist færðu mér gjafir eða sögðu sögur sem þeim þótti lýsandi fyrir vináttu okkar. Ómetanleg kvöldstund sem ég mun aldrei gleyma enda á ég bestu vinkonurnar,“ segir hún.
Sigríður Erla klæddist skósíðum ljósum kjól með víðum ermum. Hún segist hafa verið búin að fara marga hringi varðandi kjólinn þegar systir hennar, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, stakk upp á því að hún myndi láta sérsauma á sig kjól.
„Ásthildur systir mín var mín hægri hönd í undirbúningi og skipulagi og hófum við strax leit að kjól sem gæti gengið upp fyrir mig. Ég vissi að ég yrði gengin rúmar 33 vikur þegar að brúðkaupsdeginum kæmi svo það var ekki mikið í boði. Eftir að hafa leitað að kjól í viku út um allt netið stakk Ásthildur upp á því að ég myndi heyra í Eðalklæðum, það sakaði ekki að athuga í það minnsta. Ég gerði það og Malen hjá Eðalklæðum var svo frábær að taka við þessu verkefni með svona stuttum fyrirvara. Ég sendi henni alls konar myndir að hugmyndum um hvernig ég vildi hafa kjólinn.
Ég vildi láta kúluna fyrst og fremst njóta sín en einnig vildi ég hafa dramatískar ermar og enga blúndu. Ég var svo lánsöm að kórónan sem mamma mín var með þegar þau pabbi giftu sig fyrir 57 árum var ennþá til og ég fékk að vera með hana. Okkur þótti mikilvægt að velja efni sem væri svipað á litinn og kórónan og tónaði vel við hárlitinn minn og húðlit. Þá vildi ég hafa slör og vegna þess að ég var ólétt fannst okkur mikilvægt að kjóllinn væri ekki hættulegur fyrir mig, hann mátti ekki vera of síður svo ég myndi ekki detta. Slörið var því frekar langt og virkaði í stað slóða á kjólnum. Mamma lánaði mér perlufesti og armband og eyrnalokkarnir komu frá Ásthildi. Við systur höfðum löngu áður ákveðið að ég myndi gifta mig í Manolo Blahnik-skóm og pantaði Ásthildur fyrir mig skó af eBay.
Miklar pælingar höfðu verið varðandi hvaða stærð yrði pöntuð þar sem við vissum ekki hvort ég yrði með mjög bjúgaða fætur í ljósi ástandsins á mér. Þegar skórnir komu til landsins og ég mátaði þá, þann 17. desember, kom í ljós að þeir voru allt of litlir. Þá varð uppi fótur og fit þar sem styttist óðum í stóra daginn, hátíðarnar yfirvofandi og ég ekki með skó. Við leituðum á öllum vefsíðum og skóna var hvergi að finna í minni stærð. Vinkonur mínar sem búa erlendis voru sendar í leiðangur að leita að skónum í hinum ýmsu búðum og á endanum tókst okkur að panta skóna til Stokkhólms þar sem vinkona mín býr og hún kom til landsins þann 23. desember. En þar sem við hjónin vörðum jólunum hjá foreldrum mínum í Stykkishólmi og vorum farin vestur þegar hún kom fékk ég ekki skóna í hendurnar fyrr en við komum aftur í bæinn, seint þann 26. desember, og sem betur fer pössuðu þeir! Þar með var ég komin með eitthvað gamalt, nýtt, lánað og blátt,“ segir hún og hlær.
Hvað um fötin hans Bjarka, hvaðan eru þau?
„Bjarki lét sauma á sig jakkaföt hjá Suit up síðasta vor og var hann í þeim og skóm, einnig frá Suit up. Ég gaf honum svo bindi í jólagjöf frá Kormáki og Skildi sem hann bar við tilefnið.“
Ester Rut Þórisdóttir farðaði Sigríði Erlu fyrir brúðkaupsdaginn því hún treysti fáum betur í það verkefni.
„Ég var fljót að heyra í vinkonu minni Ester Rut Þórisdóttur og athuga hvort hún gæti ekki farðað mig. Hún hefur ótal sinnum farðað mig áður og ég treysti því engri annarri í verkið. Hún gerði allt óaðfinnanlega svo ég þurfti ekki einu sinni að púðra ennið yfir daginn, bara bæta á mig varalit um kvöldið. Að auki sá hún um að farða mömmu, tengdamömmu og systur mínar. Bryndís Ósk Jónsdóttir á Crinis hefur klippt systur mínar í mörg ár og sá hún um að greiða mér og festa kórónuna í hárið ásamt því að greiða mömmu og Ásthildi systur.“
Eru einhverjar hefðir í þinni fjölskyldu sem þú vildir halda í á brúðkaupsdaginn?
„Mamma hefur bakað fyrir öll brúðkaup systkina minna og það kom ekki neitt annað til greina en að bjóða upp á kransaköku frá mömmu hjá okkur. Þá hefur systir mín gefið saman okkur öll systkinin í hjónaband.“
Hvers vegna skiptir það þig máli að vera í hjónabandi?
„Verandi lögfræðingur er það náttúrlega mikilvægt upp á hin ýmsu réttindi þar sem við eigum tvö börn, íbúð og bíl. En að auki finnst mér það vera fallegur sáttmáli okkar á milli að við munum alltaf standa saman, í gegnum súrt og sætt, sama hvað gerist, þá munum við alltaf vera teymi.“
Breytist lífið við það að giftast kærasta sínum?
„Já, það verður allt aðeins skýrara og fallegra.“