„Fórna djamminu“

Útskriftir | 26. maí 2024

„Fórna djamminu“

Hin 19 ára gamla Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og fékk 10 í meðaleinkunn en hún útskrifaðist sem stúdent frá framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellsýslu, FAS, í gær.

„Fórna djamminu“

Útskriftir | 26. maí 2024

Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og fékk 10 …
Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og fékk 10 í meðaleinkunn. Ljósmynd/Aðsend

Hin 19 ára gamla Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og fékk 10 í meðaleinkunn en hún útskrifaðist sem stúdent frá framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellsýslu, FAS, í gær.

Hin 19 ára gamla Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og fékk 10 í meðaleinkunn en hún útskrifaðist sem stúdent frá framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellsýslu, FAS, í gær.

Þetta er í annað skipti í sögu skólans sem nemandi nær þeim árangri að fá 10 í meðaleinkunn en Anna var einn tíu stúdenta sem útskrifaðist frá skólanum í gær.

Hvernig fer maður að því að fá tíu í meðaleinkunn?

„Maður þarf að læra mjög mikið og fórna djamminu. Ég hef alltaf reynt að vinna allt saman jafnt og þétt þannig að hlutirnir safnist ekki upp og þetta snýst líka um að forgangsraða. Ég á kennurum mínum í FAS líka mikið að þakka. Þeir vilja allt fyrir mig gera sem og kennararnir í tónskólanum á Höfn ,“ segir Anna Lára.

Stefnir á nám í lífeindafræði

Spurð hvort þessi árangur hafi komið henni á óvart segir Anna Lára:

„Þetta er mjög óheilbrigt markmið að ætla sér að útskrifast með tíu í meðaleinkunn en ég var ekkert mikið að hugsa um þetta fyrr en ég sá að ég ætti ekkert langt í land með þetta,“ segir Anna. Hún segist hafa sett sér það markmið að gera sitt besta og sjá hverju það skilaði.

Anna Lára, fyrir miðju með uppréttar hendur, fagnar sigri ásamt …
Anna Lára, fyrir miðju með uppréttar hendur, fagnar sigri ásamt stöllum sínum í hljómsveitinni Fókus á Músíktilraunum í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Anna Lára segist stefna á að hefja nám í lífeindafræði við Háskóla Íslands í haust. Hún segir að það sé fullt af áhugaverðum námsleiðum í boði en hún telur að lífeindafræðin verði fyrir valinu hjá sér. Um þriggja ára nám er að ræða og í framhaldinu hyggst hún fara í mastersnám sem gæti orðið erlendis.

„Ég er opin fyrir öllu og veit ekki alveg hvað ég vil en veit þó að ég ætla að halda áfram að læra og mennta mig.“

Vann þýskuþraut og er á leið á Eurocamp

Í vetur vann Anna Lára þýskuþraut sem félag þýskukennara stóð fyrir og að launum tryggði hún sér þátttökurétt í Eurocamp sem verður haldið í Þýskalandi i lok júlí.

„Ég er með mjög góðan þýskukennara sem lagði þetta próf fyrir okkur. Það kom mér mjög mikið á óvart að ég skildi hafa skorað svona hátt í því og það verður gaman að fara á Eurocamp í sumar,“ segir Anna sem tekur þátt í þýskuþrautinni ásamt mörgum öðrum námsmönnum á aldrinum 18-27 ára frá Evrópuríkjum.

Er í hljómsveitinni Fókus sem vann Músíktilraunir

Anna Lára, sem er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði, er ekki bara frábær námsmaður því hún hefur gert það gott í tónlistinni. Hún er í kvennahljómsveitinni Fókus sem bar sigur úr býtum í Músíktilraunum í fyrra.

Anna spilar á hljómborð í hljómsveitinni, sem stofnuð var á síðasta ári, og hún var valin besti hljómborðsleikari á Músíktilraunum.

Spurð hvort hún sé á fullu í músíkinni segir hún að það hafi aðeins hægt á því en það hafi verið mjög mikið að gera í fyrra.

„Þetta er búið að vera mjög stórt ævintýri en við bjuggumst ekki við því að vinna Músíktilraunir. Þetta var virkilega ánægjulegt og opnaði mörg tækifæri fyrir okkur.“

Um önnur áhugamál heldur en námið segist Anna hafa mjög gaman af tónlist og segist hún hafa lært á píanó í sex ár. Hún segist líka stunda crossfit enda hafi hún gaman af útihlaupum og heilsurækt.

mbl.is