Hópur eigenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Grindavík hafa óskað eftir fundi með ríkisstjórninni vegna ákvörðunar hennar um að kaupa ekki upp atvinnuhúsnæði í bænum.
Hópur eigenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Grindavík hafa óskað eftir fundi með ríkisstjórninni vegna ákvörðunar hennar um að kaupa ekki upp atvinnuhúsnæði í bænum.
Hópur eigenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Grindavík hafa óskað eftir fundi með ríkisstjórninni vegna ákvörðunar hennar um að kaupa ekki upp atvinnuhúsnæði í bænum.
Gylfi Þór Þorsteinsson, verkefnastjóri samhæfingar vegna Grindavíkur, segir í samtali við mbl.is að honum hafi borist tölvupóstur frá hópnum vegna fundarbeiðninnar. Hann segir að hann muni koma erindinu áleiðis til ríkisstjórnarinnar.
„Persónulega ræð ég ekki hverja ríkisstjórnin hittir hverju sinni en það sem ég mun sannarlega gera er að koma þessum skilaboðum áfram,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.
Dagmar Valsdóttir, atvinnurekandi í Grindavík, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að það hefðu verið mikil vonbrigði þegar tilkynnt var að ríkið myndi ekki kaupa upp atvinnuhúsnæði í Grindavík.
„Hvað haldið þið að það kosti ríkið að vera með okkur á styrkjum eða bótum í eitt, tvö eða þrjú ár? Gríðarlegu fé er varið í skýrslur, nefndir og varnargarða á meðan við sitjum hér föst með verðlausar eignir,“ sagði Dagmar í samtali við Morgunblaðið.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, nefndi það í samtali við mbl.is í síðustu viku að fyrirtækin í Grindavík hefðu kallað eftir því að ríkið myndi kaupa upp atvinnuhúsnæði.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is að nokkrar ástæður lægju þar að baki.
„Í þeim tilvikum sem að við værum að kaupa upp skuldsett atvinnuhúsnæði þá værum við fyrst og fremst að styðja við fjármálafyrirtæki, sem okkur finnst ekki endilega rétt að nota skattfé almennings til,“ sagði Sigurður við mbl.is þegar aðgerðir ríkisins voru kynntar í síðustu viku.
Þá sagði Sigurður að fyrirtækin væru mismunandi og að þau ættu ekki öll atvinnuhúsnæði. Ekki væri hægt að mismuna fyrirtækjum í stuðningi.