Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir netsölu áfengis vera enn eitt málið sem ríkisstjórnin takist ekki almennilega á við.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir netsölu áfengis vera enn eitt málið sem ríkisstjórnin takist ekki almennilega á við.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir netsölu áfengis vera enn eitt málið sem ríkisstjórnin takist ekki almennilega á við.
„Þetta er dæmi um mál sem er mjög viðkvæmt við ríkisstjórnarborðið. Þeir tala út og suður þar og fyrir vikið er aldrei tekið á neinu,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is
„Þetta er bara enn eitt dæmigert málið sem ríkisstjórnin svolítið hummar fram af sér af því að það er óþægilegt fyrir stjórnarflokkana.“
Greint var frá því á mbl.is í síðustu viku að Hagkaup hyggðust hefja smásölu áfengis í gegnum netverslun sína.
Segir Þorgerður að Viðreisn hafi fyrir löngu verið tilbúin að breyta áfengislögum í takti við þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa. Kveðst hún fagna þeirri ákvörðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, að hefja frumkvæðisathugun á málinu. Er það meðal annars gert vegna þeirra ábendinga sem fram hafa komið um að netsala áfengis sé ekki lögum samkvæm.
„Lögin eru óskýr. Ef það væri svona borðleggjandi að þetta væri ólöglegt þá væri búið að grípa inn í. Þetta er bara hluti af óskýrum skilaboðum og stjórnun frá ríkisstjórninni,“ segir Þorgerður um þróunina í áfengissölu hér á landi.
„Ég held að það sé til hagsbóta fyrir alla að leyfa þinginu að fara yfir þessi mál og ræða þetta af yfirvegun.“
Þorgerður segir að finna þurfi jafnvægi í þessum efnum.
„Um leið og við gætum að lýðheilsusjónarmiðum þá þurfum við líka að gæta að almennum neytenda- og viðskiptareglum. Það þarf að vera jafnvægi í þessu og þess vegna er ágætt að þingið fari yfir þetta. Það væri svo sem kannski ekki í fyrsta sinn sem ríkið væri eitthvað að klippa ríkisstjórnina úr snörunni.“
Spurð hvort markaðurinn hafi einfaldlega tekið málin í sínar eigin hendur á meðan löggjöfin hafi ekki reynst nógu skýr segir Þorgerður að stundum þurfi líka frumkvæði einstaklinga til þess að brjóta upp kerfin.
„Ef við minnumst þess hvað Davíð Scheving Thorsteinsson gerði á sínum tíma – þegar hann fór og keypti bjór og flutti inn. Það varð til þess að það var ýtt af stað í að vera ekki með úr sér gengna löggjöf þegar kom að sölu tiltekinna tegunda í ríkinu og það var byrjað að selja bjór síðan 1. mars 1989.“