Uppeldisráð Höllu Tómasdóttur: „Meira við og minna ég“

5 uppeldisráð | 29. maí 2024

Uppeldisráð Höllu Tómasdóttur: „Meira við og minna ég“

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi á tvö börn með eiginmanni sínum Birni Skúlasyni. Þau leggja mikið upp úr góðum samverustundum þar sem þau fara yfir daginn án símtækja.

Uppeldisráð Höllu Tómasdóttur: „Meira við og minna ég“

5 uppeldisráð | 29. maí 2024

Halla Tómasdóttir leggur mikið upp úr að börn tileinki sér …
Halla Tómasdóttir leggur mikið upp úr að börn tileinki sér þakklæti og góð gildi. Ljósmynd/Aðsend

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi á tvö börn með eiginmanni sínum Birni Skúlasyni. Þau leggja mikið upp úr góðum samverustundum þar sem þau fara yfir daginn án símtækja.

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi á tvö börn með eiginmanni sínum Birni Skúlasyni. Þau leggja mikið upp úr góðum samverustundum þar sem þau fara yfir daginn án símtækja.

„Við Björn eigum tvö börn, Tómas Bjart (22) og Auði Ínu (20). Við fjölskyldan reynum alltaf að borða kvöldmat saman, til að tryggja að við setjumst að minnsta kosti niður einu sinni á dag og ræðum saman. Eiginmaðurinn eldar þá oftast máltíð frá grunni og við förum svo yfir hápunkta og lágpunkta dagsins saman án símtækja og nýtum við gjarnan þann tíma til að ræða lausnir og leiðir í gegnum það sem lífið færir okkur,“ segir Halla.

„Uppeldisráð skrifaði ég svo gjarnan í bréfaformi sem þau fengu „í skóinn“ eftir að jólasveinninn hætti að koma berandi gjafir og hér koma fimm ráð úr bréfi sem ég skrifaði þeim árið 2016 þegar þau voru 13 og 15 ára.

1. Temjið ykkur auðmýkt

„Um leið og ég treysti ykkur til góðra verka og vil sjá ykkur hugsa án takmarkana um tækifærin í lífinu, þá hvet ég ykkur til að nálgast hvert verkefni og hverja manneskju af auðmýkt. Engin manneskja er merkilegri en önnur en öll höfum við eitthvað sérstakt fram að færa. Hlustið á hugmyndir annarra og sýnið samferðafólki ykkar einlæga athygli. Heilbrigð sjálfsmynd byggir á að þekkja styrkleika sína vel en skynja jafnframt hvar og hvernig aðrir geta bætt mann. Þegar þið gerið mistök, og þið munið gera mörg mistök, þá hvet ég ykkur til að viðurkenna þau og nýta lærdómstækifærin sem í þeim felast. Munið að þið eruð einstök og stórkostleg alveg eins og þið eruð, en varist að láta egóið vaxa ykkur yfir höfuð. Þið eruð nefnilega líka hluti af mikilvægri og stórkostlegri heild sem ykkur ber að virða. Horfið því ávallt til áhrifa ykkar á samfélag og náttúru og tryggið að þið gefið meira en þið takið. Hugsið meira VIÐ og minna ÉG og ykkur mun farnast vel.“

2. Veljið samferðafólk og fyrirmyndir vandlega

„Leitið eftir nærandi félagsskap og góðum fyrirmyndum. Finnið þá sem ganga á undan með góðu fordæmi og hafa hugrekki til að synda gegn straumnum og gera það sem réttara er. Umgangist þá sem gera ykkur enn betri. Forðist hjarðhegðun og félagsskap og fyrirmyndir sem hvetja ykkur til þess að gera og segja hluti til að falla í hópinn og gera ykkur þar með illa kleift að lifa í sátt við ykkur sjálf og þá sem þið elskið.“

3. Verið þakklát

„Munið að þakka fyrir allt sem þið hafið. Þið búið í gjöfulu landi, eigið stóra og samheldna fjölskyldu og fjölda vina. Þið borðið hreinan og góðan mat og njótið menntunar og lífsgæða sem marga dreymir um en fá aldrei. Gerið þakklæti að daglegu veganesti, þakkið í hljóði og upphátt á hverjum degi fyrir allt það góða sem í lífi ykkar er og þá mun ykkur aldrei skorta neitt.“

4. Gerið allt sem þið gerið á grunni góðra gilda

„Látið góð gildi vera ykkur leiðarljós í lífinu. Takið engar stórar ákvarðanir án þess að máta þær við ykkar grunngildi. Við höfum gert okkar besta til að ala ykkur upp við þau gildi sem við teljum verða ykkur til góðs, en það er ykkar að velja ykkar lífsgildi og láta þau varða ykkar vegferð. Fátt mun reynast ykkur betra veganesti í lífinu.“

5. Gefist ekki upp, þó á móti blási

„Lífið er yndislegt, en það er hvorki einfalt né auðvelt. Þið munið mæta mótbyr en ykkar viðbrögð við áskorunum og erfiðleikum munu hafa mest áhrif á það hvernig ykkur farnast í lífi og starfi. Ekki vera fórnarlömb, það leysir ekkert, veldur bara óhamingju. Veljið bjartsýni og seiglu þó á móti blási og haldið ótrauð áfram veginn með trú, von og kærleika.“

Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason.
Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is