Að einhverju leyti orðin uppiskroppa með land

Húsnæðismarkaðurinn | 31. maí 2024

Að einhverju leyti orðin uppiskroppa með land

Samdráttur er fram undan í fjölda nýrra íbúða að sögn Elmars Þórs Erlendssonar, framkvæmdastjóra húsnæðissviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Að einhverju leyti orðin uppiskroppa með land

Húsnæðismarkaðurinn | 31. maí 2024

Frá kynningu fasteignamats HMS. Elmar Þór Erlendsson, framkvæmdastjóri húsnæðissviðs, er …
Frá kynningu fasteignamats HMS. Elmar Þór Erlendsson, framkvæmdastjóri húsnæðissviðs, er fyrir miðju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samdráttur er fram undan í fjölda nýrra íbúða að sögn Elmars Þórs Erlendssonar, framkvæmdastjóra húsnæðissviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Samdráttur er fram undan í fjölda nýrra íbúða að sögn Elmars Þórs Erlendssonar, framkvæmdastjóra húsnæðissviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þetta kom fram í erindi hans við kynningu fasteignamats HMS í morgun. 

Samkvæmt tölum sem húsnæðissvið tók saman í mars eru nú tæplega 8.000 íbúðir í byggingu á landinu öllu og er það 9,3% samdráttur miðað við á talninguna í mars í fyrra. 

Telur Elmar það einnig vera áhyggjuefni og eitthvað sem fylgjast þurfi með að færri íbúðaframkvæmdir séu að hefjast. Þegar skoðaðar eru íbúðir þar sem jarðvinna er hafin má sjá 16,8% samdrátt miðað við sama tímg í fyrra. 

Til að reyna að laga mögulega þann samdrátt sem myndast hefur nefnir Elmar að það sé stórt hlutverk sveitarfélaganna að úthluta byggingarhæfum lóðum þannig að hægt sé að búa í haginn fyrir að byggja þann fjölda íbúa sem þörf er fyrir. Segir Elmar að þetta hafi gjarnan verið nefnt sem ein helsta hindrunin.

Ekki nægur fjöldi lóða

Í erindi Elmars kom fram að áhugavert væri að sjá að sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins virtust að einhverju leyti vera orðin uppiskroppa með land en gert er ráð fyrir að þau muni úthluta lóðum fyrir 30% færri íbúðir en í fyrra. 

„Það eru 30% færri íbúðir sem þeir ætla að úthluta í ár heldur en í fyrra og það náttúrulega gefur okkur einhverja vísbendingu að þeir eru ekki tilbúnir með nægjanlegt magn af lóðum til þess að viðhalda í raun og veru því sem þeir ætluðu að gera í fyrra,“ segir Elmar í samtali við mbl.is. 

Nefnir Elmar að húsnæðissviðið sé í miklum samskiptum við sveitarfélögin, sérstaklega vegna húsnæðisáætlana sem sveitarfélögin endurskoða á hverju ári. 

„Svo erum við náttúrulega sjálf að skoða lóðirnar og meta hvort þær séu byggingarhæfar og hvort það séu raunhæfar áætlanir sem er verið að gera,“ segir Elmar og heldur áfram. 

„Við erum alltaf að dýpka það samtal og ná lengra. Við byrjuðum með stafræna húsnæðisáætlun 2022 og það var í fyrsta skipti sem við náðum svona tölulegum upplýsingum um lóðaframboðið og við erum bara búin að vera að vinna úr þeim upplýsingum.“ 

Stór verkefni farið af stað eftir marstalninguna 

Þótt húsnæðissvið fari í talningu tvisvar á ári, í mars og í september, segir Elmar að fylgst sé með gangi mála daglega.

Nefnir að hann að farið hafi verið í stór verkefni síðan marstalningunni lauk og séu framkvæmdir hafnar á 622 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, t.a.m. á Höfða, Gufunesi og á Hamranesi í Hafnarfirði.

mbl.is