Mikill fjöldi fólks kom saman þegar Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, ávarpaði þjóðina fyrir utan heimili sitt í Reykjavík í gær.
Mikill fjöldi fólks kom saman þegar Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, ávarpaði þjóðina fyrir utan heimili sitt í Reykjavík í gær.
Mikill fjöldi fólks kom saman þegar Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, ávarpaði þjóðina fyrir utan heimili sitt í Reykjavík í gær.
Blaðamaður mbl.is var á svæðinu og tók púlsinn á fólki.
Helena Ingrid Gunnarsdóttir Langdal var hress í bragði þegar blaðamaður hitti á hana.
Af hverju ertu komin hingað í dag?
„Við erum komnar hér til að styðja Höllu, við erum frændfólk hennar og höfum alltaf verið að fylgjast með henni og höfum verið mjög stoltar af henni alveg síðan 2016. Við höfum fylgst með hennar ferli og erum mjög glaðar að vera hérna.“
Hvernig líst þér á Höllu sem næsta forseta Íslands?
„Bara mjög vel, ég held að hún muni standa sig mjög vel í þessu starfi.“
Kom það þér á óvart að hún hafi unnið kosningarnar?
„Sko ég hélt að hún myndi ekki verða forseti strax en í gær þá vissi ég að hún yrði forseti.“
Birkir Snær Sigurðsson veifaði íslenska fánanum í góðra vina hópi glaður í bragði.
Af hverju ertu kominn hingað í dag?
„Til að styðja við mína konu.“
Hvernig líst þér á Höllu sem næsta forseta Íslands?
„Bara frábærlega.“
Hvernig forseti heldur þú að hún verði?
„Ég held hún verði bara mjög góður forseti.“
Kom þér á óvart að hún hafi unnið kosningarnar?
„Alls ekki, alltaf verið mín kona frá því í byrjun, þrátt fyrir þetta litla fylgi þá hafði maður alltaf trú.“
Helgi Ólafsson var mættur til að heilla nýjan forseta.
Af hverju ertu kominn hingað í dag?
„Ég er að hylla nýjan forseta.“
Kaust þú Höllu?
„Já, líka fyrir átta árum.“
Hvernig líst þér á Höllu sem næsta forseta Íslands?
„Mér finnst hún mjög spennandi kostur og ég get líka sagt það að ef hún hefði ekki verið í framboði þá hefði ég líklegast kosið Katrínu Jakobsdóttur.“
Kom það þér á óvart að hún hafi unnið kosningarnar?
„Nei, það kom mér ekki á óvart, ég var alveg nánast sannfærður um það síðustu vikur að hún myndi vinna þetta, það var svo mikill meðbyr með henni. Konan mín var að vinna í þessu með henni og við vorum aðeins að hjálpa henni og taka þátt í þessu og ég var algjörlega öruggur í gær að hún myndi vinna þetta.“