„Ég fór ekki í skólann fyrr en á gamals aldri“

Framakonur | 8. júní 2024

„Ég fór ekki í skólann fyrr en á gamals aldri“

Í Rimahverfinu í Reykjavík hefur Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur komið sér upp fallegum garði. Garðurinn er samstarfsverkefni hennar og eiginmanns hennar, Kristins H. Þorsteinssonar, en hann er einnig garðyrkjufræðingur.

„Ég fór ekki í skólann fyrr en á gamals aldri“

Framakonur | 8. júní 2024

Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur á fallegan garð í Grafarvoginum.
Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur á fallegan garð í Grafarvoginum. Samsett mynd

Í Rimahverfinu í Reykjavík hefur Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur komið sér upp fallegum garði. Garðurinn er samstarfsverkefni hennar og eiginmanns hennar, Kristins H. Þorsteinssonar, en hann er einnig garðyrkjufræðingur.

Í Rimahverfinu í Reykjavík hefur Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur komið sér upp fallegum garði. Garðurinn er samstarfsverkefni hennar og eiginmanns hennar, Kristins H. Þorsteinssonar, en hann er einnig garðyrkjufræðingur.

Garðyrkjuáhugi Auðar kviknaði fyrir alvöru á áttunda áratugnum en þó hóf hún fyrst störf sem ung stelpa í sumarvinnu hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Það var ekki fyrr en Auður var að nálgast fertugt að hún ákvað að mennta sig í faginu en þá var hún aftur farin að vinna hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. „Ég fór ekki í skólann fyrr en á gamals aldri. Ég held ég hafi verið 39 ára. Ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór,“ segir Auður og hlær. „Ég var búin að vinna þarna lengi og fann að mig langaði að styrkja mig í garðyrkjunni. Það var ekki nóg að vinna við þetta.“

Kunnir þú allt þegar þú mættir í skólann?

„Ég hafði góða þekkingu á trjám og runnum, svo að ég hélt að ég vissi margt. En þegar ég fór í starfsnám hjá Grasagarði Reykjavíkur komst ég að því að ég vissi ekki neitt. Það voru svo margar tegundir þar eins fjölæringar og sumarblóm og öðruvísi. Ég vann þar í sex ár og vinnan kveikti enn meiri áhuga hjá mér,“ segir Auður. Á tíma sínum í Grasagarði Reykjavíkur öðlaðist Auður mikla þekkingu á ýmsum tegundum trjáa, runna og fjölæringa sem eru ekki almennt í ræktun hér á landi.

Fallegur hunangsviður í garðinum að sumri til.
Fallegur hunangsviður í garðinum að sumri til.
Barnabarn sinnir matjurtagarðinum hjá ömmu sinni og afa.
Barnabarn sinnir matjurtagarðinum hjá ömmu sinni og afa. Ljósmynd/Aðsend

Plönturnar taka á móti fólki

Fyrir framan húsið tekur fallegt beð á móti Auði þegar hún kemur heim. Þar er meðal annars að finna fallega fjölæringa en auk þess setur hún niður sumarblóm. „Það er alltaf eitthvað sem gleður mig þegar ég kem heim. Það er alltaf eitthvað í gangi frá því á vorin og fram á haustin. Ég byggi þetta upp þannig að það er alltaf eitthvað sem tekur á móti mér. Það er það sem skapar mér vellíðan og gleður mig.“ Þegar kemur að skipulagningu beða hugsar Auður ekki bara um hvað gleður hennar auga heldur líka hvað er gott fyrir dýrin. Hún segir hunangsflugur skipta miklu máli í lífríki garða. „Ég hef heyrt að þær sæki mest í gul, blá og fjólublá blóm. Þá eru fjölæringar sem eru snemma á ferðinni góðir. Hunangsflugurnar skipta okkur öllu máli. Þær frjóvga aðrar tegundir sem við fáum,“ segir Auður.

Garðurinn var ekki teiknaður heldur hafa hjónin Auður og Kristinn …
Garðurinn var ekki teiknaður heldur hafa hjónin Auður og Kristinn breytt honum og bætt með tímanum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Hádegisblómin eru einstaklega falleg.
Hádegisblómin eru einstaklega falleg. Ljósmynd/Aðsend

Áttu uppáhaldsplöntur?

„Það er lavender og rósmarín. Lavender lifir úti allt árið hjá mér en rósmarín er ég bara með á sumrin. Mér finnst svo yndislegt að labba og finna ilminn af þeim. Þessar plöntur gefa manni svo mikla orku,“ segir Auður. Auður er dugleg að nýta fjölæringana og setja í vasa inni og henta sumir fjölæringarnir sérstaklega vel til þess. „Það er líka alltaf gaman ef maður er að fara í heimsókn, að koma með blóm úr garðinum.“

Lavenderinn er í miklu uppáhaldi hjá Auði.
Lavenderinn er í miklu uppáhaldi hjá Auði. Ljósmynd/Aðsend
Þessi fallegi fjölæringur heitir hraunbúi. Plöntunni líður vel á milli …
Þessi fallegi fjölæringur heitir hraunbúi. Plöntunni líður vel á milli steina í garðinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lítill lystigarður hjóna

Auður segir það gefa sér mikið að hugsa um garðinn sinn en þegar hún var í fullri vinnu með garðyrkjustörfum gerði hún það sama, hélt áfram garðyrkjustörfum þegar heim að komið. „Ég næ að slaka vel á eftir annir dagsins bara við það að fara út í garð og labba einn hring um hann. Ef ég sé smá arfa þá tíni ég hann. Það þarf ekkert að vera arfi í garðinum ef maður gefur sér tíu mínútur á dag í að labba einn hring um garðinn.“

Hjónin Auður og Kristinn kynntust í gegnum garðyrkjustörf og er garðurinn sameiginleg ástríða þeirra. „Það má segja að ég hafi verið meira í fjölæringunum, blómunum og trjánum en hann hafi byggt upp þetta grófara eins og steinana og búið til beðin,“ segir Auður.

Hjónin byggðu húsið og þar með garðinn upp frá grunni. Garðurinn er byggður upp eins og einskonar lystigarður með bæði palli en líka fallegum steinum og steinlögðum tröppum. Hún segir þau ekki hafa teiknað hann upp heldur breytt og bætt eftir löngun. „Hann er kannski eins og lítill grasagarður,“ segir Auður en bekkirnir í garðinum setja fallegan svip á litla lystigarðinn þeirra.

Fallegar steinilagðar tröppur setja svip sinn á garðinn.
Fallegar steinilagðar tröppur setja svip sinn á garðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon
Hlykkjóttur stígur leiðir fólk aftur fyrir hús.
Hlykkjóttur stígur leiðir fólk aftur fyrir hús. mbl.is/Kristinn Magnússon

Barnabörnin eru með

Auður segir garðinn hafa mótast með barnabörnunum en hjónin eiga átta barnabörn en þrjú þeirra búa erlendis. Auður segist njóta þess að dútla í garðinum með barnabörnunum. „Ég hef alltaf farið með þau í garðinn og verið með gulrætur og lofað þeim að smakka. Ef þú átt gulrót inni í ísskáp þá vill krakkinn hana ekki en ef þú tekur upp gulrót í garðinum þá háma þau hana í sig. Að geta tekið upp, skolað og borðað hana. Þetta er eins og sum börn vita ekki hvaðan mjólkin kemur af því að þau hafa aldrei séð beljur. Mér finnst skipta máli að þau beri virðingu fyrir gróðri en líka að þau kynnist því hvaðan grænmetið kemur af því að ég er alltaf með salat.“

Jarðarberjauppskeran er alltaf skemmtileg. Hér hjálpa barnabörnin til.
Jarðarberjauppskeran er alltaf skemmtileg. Hér hjálpa barnabörnin til. Ljósmynd/Aðsend

Auður ræktar ýmsar tegundir mat- og kryddjurta og mismunandi tegundir milli ára en blaðsalatið á sinn fasta sess í garðinum. „Það eru forréttindi að geta farið út í garð og náð sér í ferskt salat ásamt ýmsum öðrum tegundum,“ segir Auður um matjurtagarðinn. Það er vinsælt að fá sér gróðurhús en Auður segir að sig dreymi ekki um gróðurhús þar sem það geti verið bindandi. Hún er líka hæstánægð með yfirbyggða skýlið sem hún fékk nýverið á pallinn sinn og lengir sumarið. „Við settum þetta skýli og það tekur ekki útsýnið frá stofunni né eldhúsinu og þarna er meira og minna alltaf skjól. Ég set teppi yfir mig ef það er kalt,“ segir Auður og segir skýlið eftir að gefa sér mikið í ellinni.

Skýlið er nýtt en það lengir sumarið í garðinum. Auður …
Skýlið er nýtt en það lengir sumarið í garðinum. Auður sér fyrir sér að það muni nýtast henni vel í ellinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað á fólk að hafa í huga sem ætlar að rækta garðinn sinn?

„Að kynna sér hversu stór plantan sem það er að gróðursetja verður þegar hún vex upp. Ekki gróðursetja þær allt of þétt af því þær þurfa mismikið pláss með tímanum. Að hugsa líka: skyggir þetta á sólu fyrir mér, hvað verður þetta hátt tré? Það skiptir miklu máli að kynna sér eðli plöntunnar ekki bara þegar hún er pínulítil tveggja ára pottaplanta. Ef maður vill hafa þétt til að byrja með er það í lagi en þá þarf bara að muna að grisja þannig að hver planta fái að njóta sín. Það er mikilvægt að hafa fjölbreyttan gróður því þá er minni hætta á sjúkdómum og meindýrum sem geta herjað á einstaka tegundir,“ segir Auður.

Hvítu blómin heita snotrur en þau gulu sveitatúlípanar.
Hvítu blómin heita snotrur en þau gulu sveitatúlípanar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is