Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) og Lýðheilsuráð LÍ skora á stjórnvöld að láta lýðheilsu vega þyngra en markaðsvæðingu í sölu áfengis á Íslandi.
Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) og Lýðheilsuráð LÍ skora á stjórnvöld að láta lýðheilsu vega þyngra en markaðsvæðingu í sölu áfengis á Íslandi.
Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) og Lýðheilsuráð LÍ skora á stjórnvöld að láta lýðheilsu vega þyngra en markaðsvæðingu í sölu áfengis á Íslandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu og ráðinu.
„LÍ áréttar ályktun sína sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 20. október 2023 þar sem skorað er á alþingismenn að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka skaða af áfengisneyslu, sem er forgangsverkefni í lýðheilsu Íslendinga. Þar sé stýring á aðgengi að áfengi sterkasta vopnið. Aukið aðgengi að áfengi eins og netverslun og heimsending muni valda enn meiri skaða,“ segir í tilkynningunni.
LÍ áréttar einnig að stjórnvöldum beri að fara eftir þingsályktun um lýðheilsustefnu til ársins 2030 sem Alþingi samþykkti samhljóða 12. júní 2021.
Þar segir meðal annars:
„Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og stjórnvöld hafi lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.“
LÍ telur að eitt af forgangsverkefnum í lýðheilsu landsmanna eigi að vera að minnka skaða af áfengisneyslu.
Í tilkynningunni segir að samkvæmt kostnaðargreiningu frá árinu 2021 hafi kostnaður íslensks samfélags vegna áfengisneyslu verið ríflega 100 milljarðar króna auk annars óáþreifanlegs kostnaðar.
„Það er álíka mikill kostnaður og ársvelta Landspítalans. Ef aðgengi að áfengi verður aukið hérlendis mun kostnaður vegna áfengisneyslu enn aukast. Samhliða slíkri rýmkun, yrði hún samþykkt, yrði því að gera ráð fyrir enn meiri fjármunum til fræðslu, forvarna og til heilbrigðiskerfisins til að meðhöndla áfengisvanda, sem myndi enn aukast,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
LÍ telur að ef lögfest verði heimild til reksturs innlendrar eða erlendrar netsölu með áfengi í smásölu til neytenda af áfengislager á Íslandi, verði það gríðarleg afturför í lýðheilsumálum á Íslandi. LÍ skorar á Alþingi að afstýra slíku.