Beri ekki ábyrgð á því að jörðin rofni undan þeim

Alþingi | 13. júní 2024

Beri ekki ábyrgð á því að jörðin rofni undan þeim

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, lagði áherslu á að gripið yrði til frekari aðgerða til þess að aðstoða Grindvíkinga eftir náttúruhamfarir á Reykjanesskaga, í ræðu sinni á Alþingi í gær. Hann sagðist óttast fjöldagjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga, verði ekkert gert.

Beri ekki ábyrgð á því að jörðin rofni undan þeim

Alþingi | 13. júní 2024

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, í eldhúsdagsumræðum þingsins 2024.
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, í eldhúsdagsumræðum þingsins 2024. mbl.is/Arnþór

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, lagði áherslu á að gripið yrði til frekari aðgerða til þess að aðstoða Grindvíkinga eftir náttúruhamfarir á Reykjanesskaga, í ræðu sinni á Alþingi í gær. Hann sagðist óttast fjöldagjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga, verði ekkert gert.

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, lagði áherslu á að gripið yrði til frekari aðgerða til þess að aðstoða Grindvíkinga eftir náttúruhamfarir á Reykjanesskaga, í ræðu sinni á Alþingi í gær. Hann sagðist óttast fjöldagjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga, verði ekkert gert.

Hann velti því upp hvort að það sem væri búið að gera fyrir Grindvíkinga væri hreinlega nóg.

„Er nóg að styðja bara stærsta hluta hópsins og er þá í lagi að sleppa hinum? Þegar Fasteignafélagið Þórkatla var stofnað var hreinlega tekin meðvituð ákvörðun um að skilja ákveðna hópa eftir. Að miða eingöngu við brunabótamat kom sér illa fyrir marga og þá sérstaklega ungt fólk. Ofan á það voru sett ýmis skilyrði sem gera það að verkum að fjöldi einstaklinga fær ekki lausn sinna mála. Það getur ekki selt eigur sínar og þarf á sama tíma að greiða afborganir og svimandi vexti af þessum eignum. Þetta mun auðvitað leiða af sér fjöldagjaldþrot þar sem fólk mun að sjálfsögðu gefast upp.

Minni fyrirtæki hafa allt frá því að þessir atburðir hófust beðið með kökkinn í hálsinum eftir úrlausn sinna mála. Nú eru liðnir 7 mánuðir og ekkert bólar á niðurstöðu,“ sagði Guðbrandur.

Fjöldagjaldþrot eða aðstoð?

Þá nefndi hann erfiðleikana sem blasi við sjávarútvegsfyrirtækjum í Grindavík. Erfitt sé að standa í rekstri við aðstæður sem þær sem hafi myndast vegna náttúruhamfara á svæðinu.

Fyrirtækin hafi hreinlega óskað eftir því að vera keypt eða fá einhverskonar styrki.

„Eftir því sem ég kemst næst eru engar hugmyndir á borðinu um að koma til móts við þessa aðila og það er sárt til þess að hugsa að þeirra bíði ekkert annað en gjaldþrot.

Auðvitað fylgir áhætta því að vera í rekstri, en annars vegar þá bera menn ekki ábyrgð á því þegar jörðin rofnar undan fótum þeirra og hraun vellur upp á yfirborðið og hins vegar þá þurfa stjórnvöld að horfa til þess hvort sé kostnaðarsamara, að styðja fyrirtækin í að halda sér á floti, eða að horfa upp á fjöldagjaldþrot grindvískra frumkvöðla,“ sagði Guðbrandur.

Kaldar kveðjur til Grindvíkinga

Grindvíkingar hafi óskað eftir því að afsláttur fáist á stimpilgjöldum, að hægt sé að taka út séreignarsparnað skattfrjálst ásamt fleiru. Það séu kaldar kveðjur til Grindvíkinga að mál þeirra séu ekki leyst betur áður en að þingi lýkur.

„Grindavíkurbær sem hefur um langa hríð verið í hópi fjársterkustu sveitarfélaga á Íslandi berst nú við að halda sjó. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að ekki fari fram skólahald í Grindavík á næsta ári, yngri börnin úr Grindavík hvött til þátttöku í íþróttastarfi í þeim sveitarfélögum sem þau hafa flutt til og 150 starfsmönnum sveitarfélagsins hefur nú verið sagt upp vegna stöðunnar

Tekjugrunnur sveitarfélagsins er algjörlega brostinn því með flutningi íbúa í önnur sveitarfélög hverfur útsvarið. Sveitarfélagsins bíða útgjöld upp á milljarða eigi að koma sveitarfélaginu í fyrra horf,“ sagði Guðbrandur.

Alþingismanna að styðja Grindvíkinga

Að lokum ítrekaði hann aðdáun sína á æðruleysi Grindvíkinga vegna núverandi stöðu.

„Það er hins vegar okkar Alþingismanna að standa með þeim og styðja þau í þeim erfiðu aðstæðum sem þau eiga við að glíma á mörgum sviðum. Við erum enn í miðri á og megum ekki gleyma Grindavík. Það dugar ekki að hjálpa bara sumum. Við verðum að hjálpa öllum.“

mbl.is