Skilaboðin þau að flóttamenn séu hættulegir

Flóttafólk á Íslandi | 14. júní 2024

Skilaboðin þau að flóttamenn séu hættulegir

Þingmaður Pírata segir ríkisstjórnina ala á útlendingaandúð í íslensku samfélagi og hefur áhyggjur af því að aðeins Píratar hafi kosið gegn útlendingafrumvarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.

Skilaboðin þau að flóttamenn séu hættulegir

Flóttafólk á Íslandi | 14. júní 2024

Arndís Anna segir ríkisstjórnina ala á útlendingaandúð.
Arndís Anna segir ríkisstjórnina ala á útlendingaandúð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmaður Pírata segir ríkisstjórnina ala á útlendingaandúð í íslensku samfélagi og hefur áhyggjur af því að aðeins Píratar hafi kosið gegn útlendingafrumvarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.

Þingmaður Pírata segir ríkisstjórnina ala á útlendingaandúð í íslensku samfélagi og hefur áhyggjur af því að aðeins Píratar hafi kosið gegn útlendingafrumvarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.

Þingflokkur Pírata var eini þingflokkurinn sem kaus gegn frumvarpinu en Samfylkingin og Viðreisn sátu hjá.

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir í samtali við mbl.is að frumvarpið gangi gegn markmiðum um skilvirkari málsmeðferð hælisleitenda, inngildingu fólks og ábyrga meðferð ríkisfjármuna.

„Það er verið að eyða milljörðum á milljörðum ofan í þetta kerfi og þarna er í rauninni bara verið að hlaða ofan á það í þeim tilgangi að senda einhver skilaboð, í þeirri von um að fólk hætti að koma. En þetta byggir ekki á neinum gögnum sem að benda til þess að fólk hætti að koma til Íslands frekar en annarra landa,“ segir Arndís.

Lögin nokkuð tilgangslaus

Hún segir lögin vera nokkuð tilgangslaus sem geri lítið annað en að auka álag á Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.

„Og koma í veg fyrir að flóttafólk verði hluti af samfélaginu. Það að flóttafólk upplifi sig hluta af samfélaginu er forsenda þess að við getum byggt hér upp frjálst og öruggt samfélag fyrir allt fólk.“

Verið að leysa vandamál sem eru ekki til staðar

Guðrún greindi frá því í samtali við mbl.is að hún væri hvergi nærri hætt og myndi vilja setja ákvæði í íslensk lög til þess að svipta flóttamenn dvalarleyfi gerist þeir uppvísir um alvarlega glæpi hér á landi.

Þá hefur hún talað um að leggja fram frumvarp um búsetuúrræði með takmörkunum fyrir hælisleitendur sem hafa fengið synjun á vernd.

„Þessi orð dómsmálaráðherra eru auðvitað þáttur í þessari hundaflautu – að viðhalda þeirri mýtu að flóttafólk sé stórhættulegt - og að við þurfum að passa okkur. Þarna er verið að leysa einhver vandamál sem eru ekki fyrir hendi,“ segir rndís og bætir við að það væri ekkert vandamál að vísa fólki úr landi sem hafi gerst alvarlega brotlegt.

„En skilaboðin eru þessi: Flóttafólk er hættulegt og við þurfum að bregðast við því. Það eru skilaboðin og þetta er það sem er alvarlegt við þetta. Ég hef í sjálfu sér ekkert miklar áhyggjur af því að hún standi við orð sín því þetta eru frekar kjánalegar hugmyndir sem hún er að setja fram,“ greinir hún frá. 

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Óttar

Segir ríkisstjórnina ala á útlendingaandúð

Hún kveðst hafa áhyggjur af samfélagslegum afleiðingum þess „hvernig þau [ríkisstjórnin] tala“ og segir þróunina vera hættulega samfélaginu.

„Það er þessi ótti og jaðarsetning fólks sem er nú þegar gríðarlega jaðarsett. Útlendingaandúð eykst í kjölfarið og hún hefur aukist.“

Þá út af orðræðu ríkisstjórnarinnar?

„Hundrað prósent, já. Bara ekki spurning,“ segir hún og vísar í Bjarna Benediktsson forsætisráðherra, Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra og Guðrúnu Hafsteinsdóttur.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokkar hafi ekki þorað að taka afstöðu gegn frumvarpinu

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af þeirri þróun að aðeins þingflokkur Pírata hafi kosið gegn frumvarpinu svarar Arndís því játandi.

„Auðvitað hef ég verulega áhyggjur af því. Þetta er hins vegar í takti við þá þróun sem ríkisstjórnin hefur unnið mjög ötullega að. Sem er að skapa ákveðinn ótta í samfélaginu með einhverjum fullyrðingum um að okkur stafi einhver svakaleg ógn af því að hingað sé að koma fólk, sem er auðvitað alls ekki rétt.“

Hún segir að vegna málflutnings ríkisstjórnarinnar sé fólk í samfélaginu farið að hafa áhyggjur og þar af leiðandi séu stjórnmálaflokkar að reyna passa upp á fylgið sitt með því að veigra sér við því að hafna frumvarpinu.

mbl.is