Vægast sagt ósanngjarnt að tala um ekkert samráð

Loftslagsvá | 16. júní 2024

Vægast sagt ósanngjarnt að tala um ekkert samráð

„Ég held að enginn sé ósammála hér, en þetta er spurning hvernig þú getur sett hlutina í það samhengi að það sé skiljanlegt eins og hægt er.“

Vægast sagt ósanngjarnt að tala um ekkert samráð

Loftslagsvá | 16. júní 2024

Guðlaugur Þór segir að þegar talað er um þrjá bókunarflokka …
Guðlaugur Þór segir að þegar talað er um þrjá bókunarflokka áætlunarinnar í einu, geti umræðan orðið ansi ruglingsleg. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að enginn sé ósammála hér, en þetta er spurning hvernig þú getur sett hlutina í það samhengi að það sé skiljanlegt eins og hægt er.“

„Ég held að enginn sé ósammála hér, en þetta er spurning hvernig þú getur sett hlutina í það samhengi að það sé skiljanlegt eins og hægt er.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, í samtali við mbl.is, spurður hver hans viðbrögð væru við ásökunum formanns ungra umhverfissinna um að hann hefði farið með rangt mál á fundi þar sem hann kynnti uppfærða aðgerðaráætlun loftslagsmála og hafi þá einnig haft lítið samráð við fagaðila.

Guðlaugur Þór segir að þegar talað er um þrjá bókunarflokka áætlunarinnar í einu, geti umræðan orðið ansi ruglingsleg.

Segir samráð vera og talar fyrir mikilvægi þess

„Ég hef ekki hitt nein samtök jafn oft eins og Unga umhverfissinna,“ segir Guðlaugur, spurður hvort hann sé sammála því að samráð við sérfræðinga hafi verið lítið.

Nú er undirbúningsvinnu aðgerðaráætlunarinnar lokið og fer nú af stað tveggja mánaða langt samráðsferli og hvetur Guðlaugur Unga umhverfissinna og alla þá sem vilja eitthvað til málsins taka, að koma með sín sjónarmið að málinu.

„Þetta kemur öllum við og þess vegna er öllum hleypt að þessu,“ segir Guðlaugur.

„Það er nú vægast sagt ósanngjarnt að halda því fram að það sé ekkert samráð,“ segir hann og bætir við að hann hafi nær alltaf orðið við beiðni Ungra umhverfissinna um fund, þrátt fyrir sína þétt setnu dagskrá.

Íslensk stjórnvöld kynntu uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og nýjan vef …
Íslensk stjórnvöld kynntu uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og nýjan vef aðgerðaáætlunarinnar. mbl.is/Eyþór

Aldrei jafn mikið samráð við fagaðila eins og nú

Drög þessarar aðgerðaráætlunar innihalda 150 aðgerðir sem eru mismunandi og búið er að vinna þær með þeim aðilum sem koma að framkvæmd aðgerðanna og segir Guðlaugur það vera lykilatriði.

Þá segir hann að allt gangi sem best fyrir sig þegar samráð þeirra sem sitja aftan við skrifborðið og þeirra sem koma verkunum í framkvæmd sem þekkja málin best, sé mikið.

„Ég fullyrði það að svona hefur aldrei verið gert áður, það hefur aldrei verið farið í jafn mikið samráð og samvinnu við atvinnulífið eins og núna,“ segir Guðlaugur og vonast til að samvinna stjórnvalda og atvinnulífsins verði svona áfram.

Umhverfis- og loftslagsmál taka sífelldum breytingum

„Ákvarðanir hafa ekki verið teknar í neinu af þessu, þetta er allt í samráði núna,“ segir Guðlaugur. Hann segir mál á þessu sviði ekki hafa endapunkt, auðvitað verði maður að vita hvert verið sé að fara, en þetta muni taka breytingum.

Hann segir að innan skamms verði eflaust komin einhver tækni sem við sjáum ekki fyrir núna. Þegar hann kom inn í um­hverf­is-, orku- og lofts­lagsráðuneytið var því haldið fram að vörubílar gætu aldrei gengið á rafmagni, en nú nokkrum árum seinna eru tugir af stærstu bílum á Íslandi keyrðir áfram á rafmagni.

„Mér finnst að Ungir umhverfissinnar og aðrir eigi að fagna því að fá að koma að þessu eins og allir aðrir og með gleði í hjarta taka þátt í þessu spennandi og krefjandi verkefni,“ segir Guðlaugur að lokum.

mbl.is