Sofia fékk bónorð í draumaferð á Ítalíu

Frægir ferðast | 22. júní 2024

Sofia fékk bónorð í draumaferð á Ítalíu

Áhrifavaldurinn og fyrirtækjaeigandinn, Sofia Elsie Nielsen, hefur fallegan fatastíl og er dugleg að miðla honum á samfélagsmiðlum. Hún hefur veitt mörgum tískuunnendum innblástur en hún er ekki bara smart og klár heldur upplifði hún mikið ævintýri þegar kærasetinn, Sindri Már Friðriksson, bað hennar á Ítalíu í afar rómantískri ferð þann 6. júní síðastliðinn en þá voru þau búin að vera saman í tíu ár.  

Sofia fékk bónorð í draumaferð á Ítalíu

Frægir ferðast | 22. júní 2024

Sofia Elsie Nielsen og Sindri Már Friðriksson.
Sofia Elsie Nielsen og Sindri Már Friðriksson. Samsett mynd

Áhrifavaldurinn og fyrirtækjaeigandinn, Sofia Elsie Nielsen, hefur fallegan fatastíl og er dugleg að miðla honum á samfélagsmiðlum. Hún hefur veitt mörgum tískuunnendum innblástur en hún er ekki bara smart og klár heldur upplifði hún mikið ævintýri þegar kærasetinn, Sindri Már Friðriksson, bað hennar á Ítalíu í afar rómantískri ferð þann 6. júní síðastliðinn en þá voru þau búin að vera saman í tíu ár.  

Áhrifavaldurinn og fyrirtækjaeigandinn, Sofia Elsie Nielsen, hefur fallegan fatastíl og er dugleg að miðla honum á samfélagsmiðlum. Hún hefur veitt mörgum tískuunnendum innblástur en hún er ekki bara smart og klár heldur upplifði hún mikið ævintýri þegar kærasetinn, Sindri Már Friðriksson, bað hennar á Ítalíu í afar rómantískri ferð þann 6. júní síðastliðinn en þá voru þau búin að vera saman í tíu ár.  

Sofia og Sindri reka saman heildverslunina Senia sem sérhæfir sig í innflutningi á snyrtivörum. Auk þess starfar hún sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla. Kærustuparið hefur ferðast töluvert saman undanfarin ár, þar á meðal Mílanó og Feneyja á Ítalíu. Á dögunum fóru þau til Suður Ítalíu og fékk Sofia bónorð í rómantískri bátsferð.

„Dagurinn byrjaði bara í rólegheitum þar sem við lágum í sólbaði nær allan daginn. Við áttum síðan bókaða bátsferð í Taranto um fimm leytið. Bátsferðin er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert þar sem við vorum með tveimur Ítölum, skipstjóranum og vinkonu hans, sem töluðu litla ensku. Við sigldum um Taranto, hoppuðum í sjóinn, sáum höfrunga og svo var skipstjórinn búinn að undirbúa allt fyrir Aperitivo, sem er einskonar forréttahlaðborð með allskonar ferskum ítölskum mat. Við sátum með þeim, skáluðum og horfðum á sólsetrið. Við ætluðum svo að láta taka eina mynd af okkur við sólsetrið áður en bátsferðin kláraðist og þá kom það! Ég bjóst alls ekki við þessu en þetta var auðveldasta „já“ í heimi fyrir mig,“ segir Sofia þegar hún rifjar upp stundina þegar Sindri bað hennar. 

„Ég var búin að bíða spennt eftir þessari stund og fannst þetta vera fullkomið! Ég var alveg búin að útiloka að þetta kæmi í þessari ferð! Um kvöldið fórum við síðan út að borða til að fagna. Þetta var klárlega besti dagur sem ég hef upplifað,“ segir Sofia.

Sofia Elsie Nielsen í ógleymanlegri bátsferð í borginni Taranto við …
Sofia Elsie Nielsen í ógleymanlegri bátsferð í borginni Taranto við fallegt sólsetur. Ljósmynd/Aðsend

Flökkuðu um alla Ítalíu

Sofia og Sindri voru á miklu flakki í ferðinni. Þau gistu þrjár nætur í Róm og keyrðu svo suður á bóginn og gistu tvær nætur rétt fyrir utan Gaeta. 

„Þaðan lá leiðin þvert yfir landið til héraðsins Puglia. Við gistum í þrjár nætur í Monopoli sem er einstaklega fallegur lítill bær við Adríahaf. Við keyrðum víða um héraðið Puglia á þessum fjórum dögum og heimsóttum hina ýmsu bæi,“ segir hún en þau gistu eina nótt í Alberobello í svokölluðu Trullo-húsi, sem eru hús byggð úr kalksteini. Sofia segir að það hafi verið upplifun því bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO.

„Þetta er bær sem allir þurfa að heimsækja, okkur leið eins og við værum stödd í ævintýramynd. Við vorum síðustu þrjár nætur í Puglia á yndislegu sveitahóteli áður en leiðin lá aftur til Rómar í eina nótt. Við keyrðum í heildina tæplega 2000 km í ferðinni,“ segir hún.

Sofia Elsie Nielsen og Sindri Már Friðriksson á borgar röllti.
Sofia Elsie Nielsen og Sindri Már Friðriksson á borgar röllti. Ljósmynd/Aðsend

Ertu með einhver ferðaráð fyrir þá sem langar að fara á þessar slóðir?

„Við vorum aðeins að stressa okkur á Traffico Limitato en það eru svæði þar sem akstur er bannaður fyrir aðra en íbúa. Tilgangur svæðanna er að lágmarka umferð og þau eru vanalega staðsett í sögulegum hluta borga og bæja. Við komumst fljótlega að því að það var ekkert mál að leggja rétt fyrir utan svæðin og taka röltið. Síðan myndi ég segja að borða á stöðum sem eru út um allt. Verð og gæði haldast ekki alltaf í hendur á Ítalíu, t.d. besti maturinn sem við fengum í ferðinni kostaði tíu evrur.“

Hið nýtrúlofaða par hafði farið tvisvar til Ítalíu áður en þau héldu í þessa rómantísku ferð. 

„Í fyrra skipti fórum við Sindri til Mílanó og planið var að keyra um vesturströnd Ítalíu. Þau plön stóðust ekki alveg því bílaleigan hafnaði okkur vegna þess að við vorum ekki með fýsískt ökuskírteini meðferðis þegar við sóttum bílaleigubílinn. Þannig við neyddumst til að taka lest til Cannes í Frakklandi. Sú ferð heppnaðist merkilega vel, þökk sé góðu samgöngukerfi. Í seinni ferðinni fórum við með vinum okkar til Feneyja. Við vorum svo ánægð með lestakerfið á Ítalíu eftir fyrri ferðina að við skelltum okkur aftur í lest til Verona og þaðan fórum við að Gardavatni. Þar vorum við á golfhóteli í fimm nætur sem var mjög afslappandi og notalegt.“

Trullo-húsin á Alberobello eru einstaklega krúttleg og minna helst á …
Trullo-húsin á Alberobello eru einstaklega krúttleg og minna helst á eitthvað úr bíómynd! Ljósmynd/Aðsend

Fær ekki nóg af ítölskum mat

Sofia elskar ítalskan mat og þá sérstaklega spaghettí bolognese. 

„Ég fékk mér tvisvar spaghettí bolognese og það var með því besta sem ég smakkað. Þetta var í bæði skiptin á litlum veitingastað sem við löbbuðum óvart inn á. Ég elska líka alla ítalska rétti,“ segir hún. 

Í hvernig ferðir finnst þér skemmtilegast að fara í?

„Ég elska ferðalög sem eru blanda af bæði borgarferðum og slökun. Þess vegna er Róm orðin mín uppáhaldsborg. Þú getur verslað, skoðað merkilega staði og svo er stutt í falleg hótel við ströndina.“

Hvert ætlar þú næst?

„Mig langar einhvern tíman að leigja bíl og fara í litla Evrópureisu. Ég held að það væri geggjað. Það væri líka algjör draumur að heimsækja eyjarnar í Karíbahafi. Þegar ég hugsa um að ég hafi aðeins ferðast til tólf landa, finnst mér ótrúlegt hvað ég á mikið eftir. Það gleður mig að vita hvaða ferðalög bíða mín í framtíðinni,“ segir hún. 

Grotta della Poesia er einskonar hellir með náttúrulegri sundlaug á …
Grotta della Poesia er einskonar hellir með náttúrulegri sundlaug á sögulega svæðinu Roca Vecchia. Ljósmynd/Aðsend
Sofia Elsie Nielsen og Sindri Már Friðriksson fyrir utan hringleikahúsið …
Sofia Elsie Nielsen og Sindri Már Friðriksson fyrir utan hringleikahúsið í Róm. Ljósmynd/Aðsend
Sagt er að besta pasta í heimi er að finna …
Sagt er að besta pasta í heimi er að finna á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend
Huggulegir sólbekkir við strendur Monopoli.
Huggulegir sólbekkir við strendur Monopoli. Ljósmynd/Aðsend
Taronto á suður Ítalíu er frábær staður til að sjá …
Taronto á suður Ítalíu er frábær staður til að sjá höfrunga! Ljósmynd/Aðsend
mbl.is