Rauða biðskýlið á hverfanda hveli

Strætó | 24. júní 2024

Rauða biðskýlið á hverfanda hveli

Gömlum strætóskýlum fækkar hægt og bítandi í Reykjavík og hefur mörgum verið skipt út fyrir nútímalegri hönnun.

Rauða biðskýlið á hverfanda hveli

Strætó | 24. júní 2024

Gömlu biðskýlin eru nú komin í minnihluta í Reykjavík. Hér …
Gömlu biðskýlin eru nú komin í minnihluta í Reykjavík. Hér má sjá strætóstopp við Austurver í Háaleitishverfinu en þar stoppar leið 11. mbl.is/Agnar

Gömlum strætóskýlum fækkar hægt og bítandi í Reykjavík og hefur mörgum verið skipt út fyrir nútímalegri hönnun.

Gömlum strætóskýlum fækkar hægt og bítandi í Reykjavík og hefur mörgum verið skipt út fyrir nútímalegri hönnun.

Og í stað lítilla grárra stálboga eða skærrauðra bárujárnsbragga rísa dökkgrænir glerferhyrningar með auglýsingaskiltum, jafnvel LED-skjám. Nýju skýlin eru loks nú komin í meirihluta.

Samt má enn finna 129 rauð biðskýli í Reykjavík en það mun að öllum líkindum breytast á næstu árum.

„Á þessu ári og síðasta skiptum við út einhverjum 30 gráum og rauðum skýlum fyrir ný græn skýli og markmiðið er að taka annað eins á næsta ári,“ segir Inga Rún Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi á skipulagssviði Reykjavíkur, í svari við fyrirspurn mbl.is.

Enn eru nokkur rauð biðskýli í Ártúni, en þau eru …
Enn eru nokkur rauð biðskýli í Ártúni, en þau eru óalgengari á fjölfarnari stoppum. Hér má sjá biðstöðina Ártún C, en þar stoppa leiðir 16 og 24. mbl.is/Agnar

Rauðu skýlin hönnuð árið 1980

Samkvæmt gögnum frá Reykjavíkurborg er 561 strætóstopp í Reykjavík – 398 skýli og 163 staurar. Þar af eru 202 skýli af nýjustu kynslóðinni en það fyrsta slíka var reist um haustið 199.

Sem fyrr segir eru rauðu bogaskýlin með álbakinu 129 talsins í Reykjavík. Rauða skýlið spratt upp úr hönnunarsamkeppni 1980. Birna Björnsdóttir innanhússarkitekt og Gunnar Torfason byggingarvekfræðingur áttu sigurtillöguna. 

Reyndar var aðeins eitt skýli gert nákvæmlega eftir sigurtillögunni, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins frá árinu 2001. Skýlið stóð við Kjarvalsstaði en það er horfið í dag.

Strætóstoppið á Kjarvalsstöðum er það eina sem var gert nákvæmlega …
Strætóstoppið á Kjarvalsstöðum er það eina sem var gert nákvæmlega eftir sigurtillögu Birnu og Gunnars (Bekkurinn er reyndar öfugu megin). Skýlið hefur aftur á móti verið uppfært fyrir nútímann. En var ekki Kjarval annars hálfgerður módernisti? Samsett mynd

Gráu skýlin allt að 70 ára

Rauðu skýlin áttu að taka við af gráu strætóskýlunum. Þau gráu eru samt enn í dag um 67 talsins í Reykjavík, öll í austurborginni og yfirleitt á fáfarnari stöðvum.

Eru þau flest um 60 til 70 ára gömul. Skýlin reynast samt enn vel þó mörg séu farin að láta sjá ágætlega á sér.

Þá stendur til að að minnsta kosti 210 strætóskýli verði stafræn, þ.e. með auglýsingaskjá. 

Fyrstu kynslóðar skýli við Brekkubæ í Árbæ. Gráu skýlin eru …
Fyrstu kynslóðar skýli við Brekkubæ í Árbæ. Gráu skýlin eru flest í austurborginni og eru hátt í 70 ára gömul. Hér stoppa leiðir 5 og 16. mbl.is/Agnar

Ekki að fara fyrir fullt og allt

Reykjavíkurborg sinnir samt enn viðgerðum á þeim gömlu strætóskýlum sem enn eru virk. Í Grafarvogi hafa rauðu skýlin t.d. öll verið nýlega uppgerð. Eitt hverfi er tekið fyrir í einu en næst á dagskrá er Breiðholtið.

Það er því ljóst að borgin er ekki alveg tilbúin að kveðja gömlu skýlin fyrir fullt og allt.

Í vesturborginni eru færri rauð skýli. Biðskýlið við Suðurgötu hefur …
Í vesturborginni eru færri rauð skýli. Biðskýlið við Suðurgötu hefur samt lítið breyst. Hér stoppa leiðir 12 og 15. mbl.is/Agnar

Þessi þróun takmarkast auðvitað ekki við Reykjavík, en önnur sveitarfélög hafa líka skipt út biðskýlunum sínum í auknum mæli.

Reyndar eru gömlu skýlin í hinum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins ekkert endilega rauð. Bogaskýlin á Seltjarnarnesi og í Kópavogi eru t.d. græn.

Á Seltjarnarnesi eru gömlu biðskýlin græn, frekar en rauð. Hér …
Á Seltjarnarnesi eru gömlu biðskýlin græn, frekar en rauð. Hér stoppar leið 11. mbl.is/Agnar

Fá nýtt líf sem rafhleðslustöðvar

En hvert fara þessi strætóskýli þegar þau eru tekin úr notkun?

„Gráu skýlin sem eru tekin úr notkun fara í geymslu og eru gjarnan notuð sem varaskýli ef tímabundið þarf að færa stoppistöð vegna framkvæmda og stundum fá þau önnur hlutverk,“ segir Inga.

Þá má einnig nefna að nemendur á teiknibraut Myndlistaskóla Reykjavíkur fengnir á dögunum til þess að mála sex grá strætóskýli. Gömlu skýlin hlutu þannig nýjan tilgang sem skjól fyrir hleðslustöðvar rafmagnstrætisvagna.

Þetta skýli var einu sinni alveg grátt. Í haust fær …
Þetta skýli var einu sinni alveg grátt. Í haust fær það nýjan tilgang: Að verja rafhleðslustöðvar Strætó frá rigningu og snjó. Ljósmynd/Myndlistaskóli Reykjavíkur

Enn á eftir að koma skýlunum fyrir á sínum stað, en að öllum líkindum verður það gert í haust að sögn framkvæmdastjóra Strætó bs.

„Hægt er að sjá fyrir sér að á einhverjum vel völdum stað, til dæmis Árbæjarsafni, gæti verið komið fyrir endurgerðu fyrstu kynslóðar strætóskýli en ekkert hefur verið ákveðið með það,“ stingur Inga upp á.

Listaverk sem vakir yfir djömmurum

Sumir halda því kannski því fram að strætóskýli sé í raun ekki strætóskýli nema búið sé að krota eitthvað misgáfulegt á það. En eitt rautt strætóskýli er í dag orðið landsþekkt listaverk. Eða að minnsta kosti landsþekkt af djammhundum miðborgarinnar.

Á Prikinu, einni elstu knæpu miðbæjarins, má einmitt finna listaverk Mar­geirs Dire Sigurðarsonar en hann féll frá 34 ára að aldri árið 2019.

Mar­geir Dire Sigurðarson teiknaði sitt eigið and­lit á strætóstoppið, sem …
Mar­geir Dire Sigurðarson teiknaði sitt eigið and­lit á strætóstoppið, sem er nú í portinu á Prikinu. Ljósmynd/Prikið á Facebook

Margeir teiknaði sitt eigið and­lit á strætóstoppið við Njarðargötu í Vatns­mýr­inni.

Starfsmaður borgarinnar var síðar fenginn til að mála yfir krot Margeirs en neitaði þá að eyðileggja listaverkið.

Skýlið var á endanum fært í portið á Prikinu en portið hafði árum saman verið skreytt veggjakroti Margeirs sem og margra annarra. Reyndar réðst Prikið nýlega í breytingar, lokaði efri hæðinni og portið er fyrir vikið ekki eins fjölsótt og áður hefur  verið.

En þarna er Margeir enn, hefur auga með ölvuðum gestum Priksins þegar þeir skjótast „út í sígó“ í þessari menningarmekku miðborgarinnar.

Í skýlinu sitja Helgi Hafnar Gests­son, betur þekktur sem Helgi …
Í skýlinu sitja Helgi Hafnar Gests­son, betur þekktur sem Helgi á Prikinu, og Geof­frey Þ. Hunt­ingdon-Williams, eigandi Priksins. Ljósmynd/Prikið á Facebook
mbl.is